21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3113 í B-deild Alþingistíðinda. (2597)

168. mál, langtímaáætlun um jarðgangagerð

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um gerð langtímaáætlunar um jarðgangagerð. Flm. ásamt mér er hv. þm. Sveinn Jónsson. Þetta er 168. mál Sþ. á þskj. 177. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta Vegagerð ríkisins í samstarfi við aðra sérfróða aðila gera langtímaáætlun um gerð jarðganga á Íslandi í samráði við fulltrúa þingflokkanna.

Við vinnslu áætlunarinnar skal eftirfarandi athugað og metið eftir því sem kostur er:

1. Hagkvæmni jarðgangagerðar borið saman við aðrar mögulegar lausnir þar sem samgöngur á landi eru

erfiðar vegna aðstæðna:

a. með tilliti til stofnkostnaðar,

b. með tilliti til notagildis,

c. með tilliti til viðhaldskostnaðar,

d. með tilliti til byggðaþróunar og félagslegra sjónarmiða.

2. Hagkvæmni þess að koma á fót vinnuflokki sérhæfðum í gerð jarðganga borið saman við útboð verkanna.

3. Hagkvæmni þess að hafa verkefni við jarðgangagerð samfelld.

4. Hvaða tækjabúnaður til jarðgangagerðar henti best íslenskum aðstæðum.

5. Að hve miklu leyti Íslendingar geti nýtt sér reynslu nágrannaþjóða, svo sem Færeyinga og Norðmanna, í jarðgangagerð og hvaða viðmiðun er þaðan að hafa um kostnað o.fl.“

Enn fremur segir: Áætlunin skal vera þannig upp byggð að hún falli eðlilega að langtímaáætlun í vegagerð og geti orðið hluti af henni á síðari stigum. Þá skal áætlunin taka mið af þeim framkvæmdahraða, sem hagkvæmastur er í jarðgangagerð, innan þeirra marka sem framlög til vegamála setja hverju sinni. Áætlunin skal hefjast með framkvæmdum í Ólafsfjarðarmúla eins fljótt og kostur er og vera síðan samfelld.

Markmið áætlunarinnar skal vera að koma með gerð jarðganga þeim byggðarlögum í varanlegt vegasamband sem ekki verða með öðru móti tengd vegakerfinu á fullnægjandi hátt árið um kring. Jafnframt skal áætlunin miða að innbyrðis tengingu byggðarlaga sem eru eðlileg heild samskiptalega, en geta ekki komið á viðunandi sambandi sín á milli án jarðganga. Er hér einkum átt við svæði á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Ályktun þessi skal lögð fyrir Alþingi eigi síðar en haustið 1985.“

Á undanförnum árum hefur gætt vaxandi áhuga á gerð jarðganga til lausnar á samgönguvandamálum einangraðra byggðarlaga. Hefur það mál oftar en einu sinni komið til meðferðar og umfjöllunar á hinu háa Alþingi í formi þingmála og í umr. um samgöngumál, en einkenni þeirrar umræðu hefur gjarnan verið það að menn hafa bundið sig við ákveðin svæði, við ákveðin vandamál í samgöngum, en ekki litið til samgöngukerfis landsmanna í heild hvað þetta snertir. Till. þessi er tilraun til þess að ráða bót á því og líta á landið í heild með tilliti til þess hvernig jarðgöng geti leyst þau samgönguvandamál sem ólíklegt má telja að leyst verði á fullnægjandi hátt með öðrum hætti.

Allmikil undirbúningsvinna hefur verið innt af hendi á undanförnum misserum og árum af hálfu Vegagerðar ríkisins, Orkustofnunar og fleiri aðila hvað jarðgangagerð varðar og má þar minna á kannanir Vegagerðarinnar á aðstæðum á Austurlandi og Vestfjörðum, sérstaka úttekt á möguleikum til að koma Vopnafjarðarhéraði í varanlegt vegasamband við byggðarlögin þar fyrir austan og þá undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið af hálfu Vegagerðar ríkisins og fleiri aðila til að gera jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla og tengja Ólafsfjörð þannig við Eyjafjarðarsvæðið.

Í fskj. með þessari þáltill. eru m.a. birtir niðurstöðukaflar og ágrip úr þessum skýrslum og því til viðbótar má nefna að nýlega er út komin skýrsla hjá Orkustofnun eftir Björn Harðarson jarðfræðing um jarðgöng á Íslandi og berggæðamat í því sambandi. Á Orkustofnun hefur verið unnið, eins og sú skýrsla reyndar ber vitni um, allmikið starf að því að meta eiginleika íslenskra berglaga með tilliti til jarðgangagerðar og nýtist sú vinna jafnt hvort sem heldur er um að ræða göng til vegalagna eða göng í virkjunarframkvæmdum.

Einkenni þeirrar vinnu sem þegar hefur átt sér stað, að undantekinni e.t.v. jarðfræðilegri könnun á aðstæðum í Ólafsfjarðarmúla, er það að þar er um lauslegar athuganir og kannanir að ræða og bráðabirgðaniðurstöður, enda eðlilegt að ekki sé meiru til kostað á meðan slík óvissa ríkir um hagnýtingu þeirra upplýsinga sem þar er verið að safna.

Jarðfræðilegar og landfræðilegar aðstæður á Íslandi eru með þeim hætti á ákveðnum svæðum hér á landinu að ólíklegt má telja, eins og ég hef þegar sagt, að samgöngum verði komið í viðunandi horf á vissum svæðum á Austfjörðum, Vestfjörðum og Miðnorðurlandi án þess að gerð jarðganga komi þar til. Að verulegu leyti er um sambærilegar aðstæður að ræða á þessum svæðum og gerast í Færeyjum, Noregi og víðar. Því er eðlilegt að við Íslendingar lífum þangað eftir reynslu og þekkingu, enda eru þær þjóðir, sem ég þar nefndi, komnar mun lengra á þessu sviði en við erum. Fulltrúar Orkustofnunar fóru í þessum tilgangi til Færeyja og hafa skilað skýrslu um för sína þangað þar sem þeir gera úttekt á jarðfræðilegum aðstæðum við jarðgangagerð í Færeyjum og gera tilraun til að bera þær saman við aðstæður hér á Íslandi.

Það er eflaust flestum kunnugt að Færeyingar hafa verið athafnasamir mjög í jarðgangagerð á undanförnum árum og skiptir lengd jarðganga þar þegar tugum kílómetra. Má segja að þeir hafi gert sem svarar rúmlega einum Oddsskarðsgöngum á ári hverju. Er nú samanlögð lengd jarðganga þar að nálgast 15 km.

Jarðfræðilegar aðstæður í Færeyjum eru um margt svipaðar og ætla má að þær séu í flestum tilfellum hér á landi. Hér er um skyld jarðlög að ræða jarðfræðilega séð og því eðlilegt einnig í því tilliti að litið sé til Færeyja um samanburð. M.a. með þetta í huga er till. þannig upp byggð að beinlínis er gert ráð fyrir því að leitað verði ítarlegra upplýsinga til nágrannaþjóða, svo sem eins og Færeyinga og Norðmanna, og þá er ekki aðeins um jarðfræðileg atriði að ræða, heldur einnig framkvæmdaleg og upplýsingar um kostnað.

Áætlunartölur um kostnað við jarðgangagerð á Íslandi hafa verið nokkuð á reiki. Nefndar eru tölur allt frá 40 millj. kr. á hvern km jarðganga og upp í og yfir 100 millj. kr. Munar þar allmiklu, eins og heyra má, og er eðlilegt að reynt verði að grafast fyrir um hvað megi ætla að raunverulegur framkvæmdakostnaður yrði. Þá má einnig geta þess að jarðgangagerð er þegar í gangi í landinu við Blönduvirkjun og athyglisvert verður að fylgjast með því hvaða niðurstöður koma þaðan um kostnað. Reyndar benda áætlanir verktaka og þau útboð sem þegar hafa farið þar fram til þess að framkvæmdir á hvern lengdarmetra eða kílómetra jarðganga verði þar í lægri kantinum á þeim tölum sem ég nefndi áðan.

Það er einnig eðlilegt að könnuð verði hagkvæmni þess að koma á fót sérhæfðum vinnuflokki í þessum efnum og það borið saman við aðra möguleika. Í Færeyjum hefur upp á síðkastið verið farin sú leið að sérstakur vinnuflokkur hefur annast þetta verk. Er þar um 10 til 15 manna vinnuflokk að ræða sem vinnur öll þau verk sem til falla við jarðgangagerðina, bæði tækjavinnu og annað. Með þeirri tilhögun má ætla að sú reynsla og þekking sem fæst nýtist betur en ella frá einu verki til annars. Einnig er trúlega hægt með þessu móti að ná betri afköstum og betri nýtingu þeirra tækja sem kaupa þarf til jarðgangagerðar.

Framfarir í tækjabúnaði við jarðgangagerð hafa verið miklar á undanförnum árum og því er ljóst að sú reynsla sem Íslendingar hafa af gerð vegganga er úrelt orðin hvað þetta varðar. Til sögunnar eru komin ný og fullkomnari tæki sem bjóða upp á meiri afköst og meira öryggi og gera kleift að leggja göng án verulegra erfiðleika við mun erfiðari jarðfræðilegar aðstæður en áður var hægt. Þannig tel ég a.m.k. að þeir erfiðleikar sem upp komu við gerð Oddsskarðsganga á sínum tíma mundu að verulegu leyti hverfa og vera úr sögunni, væru jarðgöng nú lögð við svipaðar aðstæður, vegna þeirra tækniframfara sem orðið hafa.

Það er ljóst að hér er á ferðinni verulegt hagsmunamál og mikið hagsmunamál þeirra byggðarlaga sem væntanlega nytu góðs af slíkri jarðgangagerð og horfa til slíkra framkvæmda um lausn á sínum samgöngumálum. Þar er um að ræða mikið byggðamál því að ljóst er að staða þeirra byggðarlaga sem nú búa við mjög erfiðar samgöngur og nánast eru einangruð hvert frá öðru um langan tíma ársins, eins og Vestfirðirnir og Austfirðirnir mundi gerbreytast í þessu tilliti ef tryggar samgöngur kæmust á árið um kring og tengdu þannig byggðarlög og mynduðu öfluga samtengda heild. Einnig eru einstök byggðarlög, sem undir þetta heyra, sem með engu öðru sjáanlegu móti komast í öruggar samgöngur. Þá á ég t.a.m. við Ólafsfjörð, en það er viðurkennt að án jarðganga verða samgöngumál Ólafsfirðinga ekki leyst með viðunandi hætti. Þar er reyndar öll undirbúningsvinna lengst á veg komin, enda jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla aftast í þeirri langtímaáætlun um vegagerð sem þegar er í gildi og gert ráð fyrir því að framkvæmdir hefjist þar innan fárra ára. Þessi áætlun, sem hér er flutt till. um, á einmitt að hefjast á þeim framkvæmdum og vonandi fyrr en seinna.

Það er eðlilegt að leggja á það áherslu að slík áætlun um stefnumörkun og langtímaáætlun um jarðgangagerð verði þannig upp byggð að hún geti fallið eðlilega að öðrum áformum um samgöngumál og þá einkum og sér í lagi að langtímaáætlun um vegagerð og endurskoðist þá samhliða henni, enda er um það ákvæði í þessari till. að svo verði. Þá er eðlilegt að litið verði til þess að hve miklu leyti mögulegt er með tilliti til fjárveitinga að hafa framkvæmdir við jarðgangagerð samfelldar því öllum má vera ljóst að mikil hagkvæmni fælist í því ef unnt væri að halda úti í nær stöðugu starfi vinnuflokki eða nýta tækjabúnað og mannafla samfellt við jarðgangagerð þannig að unnt væri að fara úr einu verki í annað eftir því sem framkvæmdum miðaði.

Það er skoðun okkar flm. að meta beri, eftir því sem hægt er, hagkvæmni, ef rétt er þá að nota það orðalag, í sambandi við byggðaþróun og félagslegar aðstæður í þeim byggðarlögum sem hér eiga hlut að máli. Það er þó óhjákvæmilegt að þetta verði tekið inn í umfjöllun um þessi mál því ljóst er að fátt er brýnna í því tilliti að jafna aðstöðumun byggðarlaga og fólks eftir búsetu en að jafna mun manna í samgöngulegu tilliti.

Þess vegna er í till. gert ráð fyrir því að reynt verði að meta þetta eftir því sem kostur er, þ.e. með tilliti til byggðaþróunar og möguleika þessara byggðarlaga til að þróast og eflast, bæði í atvinnulegu og félagslegu tilliti. Að vísu verður aldrei einhlítur mælikvarði hagkvæmni eða peningagildis lagður á slík huglæg viðfangsefni, en óhjákvæmilegt er engu að síður, að mati okkar flm., að þetta verði skoðað í samræmi og samhengi við annað. Einnig hljóta menn að líta til þess hversu miklu meira notagildi hlýst af því að leysa þessi samgöngumál á þennan hátt á varanlegan hátt og þannig að árið um kring fáist þarna viðhlítandi lausn. Í mjög mörgum tilfellum er um að ræða þannig landfræðilegar aðstæður að nær óhugsandi má telja að koma þessum byggðarlögum í tryggt vegasamband án jarðgangagerðar, nema þá hluta úr árinu. Einnig þarf að líta til þess hvernig væntanlega minni viðhaldskostnaður á slíkum mannvirkjum kemur upp á móti hærri stofnkostnaði.

Það er ljóst að hér er á ferðinni stórt mál og tæpast verður framkvæmdum hrint úr vör á allra næstu misserum eða árum. Ljóst er einnig að hér yrði um langtímaáætlun að ræða í eiginlegri merkingu þess orðs því naumast er raunhæft að gera ráð fyrir að meira en eins og einn flokkur eða einföld framkvæmdaröð yrði í gangi í einu á þessu sviði. Þó hér séu nefndar háar upphæðir, um sé að ræða tugi kílómetra í allt í jarðgangagerð og kostnaðartölur, eins og ég áðan sagði, kunni að liggja á bilinu 40 – 100 millj. kr. á hvern km, bið ég menn engu að síður að hrökkva ekki frá að óathuguðu máli. Það hefur borið nokkuð á því að menn vilji afskrifa jarðgangagerð á Íslandi af þeim sökum einum að hún sé svo óheyrilega dýr og komi því tæpast til greina eins og fjárveitingum til vegamála er háttað nú um stundir.

Ég hlýt þó að benda á í þessu sambandi að bæði fyrr og síðar höfum við ráðist í einstakar fjárfrekar framkvæmdir á sviði samgöngumála og árlega eru t.a.m. byggðar brýr sem kosta tugi milljóna til þess eins að koma vegi yfir eina á eða eitt gil. Í því tilfelli sem hér um ræðir gætt verið um að ræða jarðgöng sem leystu af hólmi dýran og hættulegan veg yfir fjöll eða fyrir annes sem ýmist eru varasamir og lélegir vegir eða alls engar samgöngur eins og nú stendur.

Þá er einmitt nefndur til sögunnar einn sá þáttur þessara mála sem ég tel ekki vega hvað minnst, en það er það öryggi sem væntanlega fengist með því að leysa af hólmi hættulega vegi um skriður eða fjöll með jarðgöngum. Margir hættulegustu vegir landsins eru einmitt inni í þeim athugunum sem Vegagerð ríkisins og aðrir aðilar hafa verið að vinna. Ég nefni þá Ólafsfjarðarmúla og svæði á Austfjörðum og Vestfjörðum aftur.

Ég hef hér, herra forseti, í höndum mínum allþykkan skýrslubunka sem er frá ýmsum þeim aðilum sem ég hef þegar nefnt. Ég tók hann með mér í ræðustól til að sýna þm. að ýmislegt hefur þegar verið gert á þessu sviði þó hitt sé auðvitað miklu meira sem enn er ógert. Ég held að staða þeirrar vinnu sé þannig nú að öllu meira verði ekki gert af hálfu þessara stofnana nema til komi stefnumörkun í þessum málum. Ég mundi í sjálfu sér telja óráðlegt að eyða meiri orku, meira fé í slíkt fyrr en fyrir lægi framkvæmdaröð og stefnumörkun af hálfu þeirra sem slíku ráða. Og það er auðvitað Alþingis að marka meginlínur í þeim efnum með aðstoð þeirra sérfræðinga sem tiltækir eru. Ég held að jarðgangagerð sé liður sem eigi að koma inn í langtímastefnumörkun í samgöngumálum og um vegagerð og tímabært sé að slík áætlun verði unnin og felld inn í aðra stefnumörkun um vegamál og samgöngumál.

Þess vegna er þessi till. flutt, herra forseti, og ég vænti þess að hún mæti velvilja og þetta verði tekið til skoðunar. Því hagar þannig til að langtímaáætlun um vegagerð á einmitt að koma til endurskoðunar á yfirstandandi ári. Það væri ánægjulegt mjög ef hægt væri við þá endurskoðun að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem hér eru sett fram í þál.-formi.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni, herra forseti, en legg svo til að að loknum fyrri hluta umr. verði till. vísað til allshn.