21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3128 í B-deild Alþingistíðinda. (2611)

26. mál, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég vil sannarlega skoða þetta mál sem hér er til umr. Það hefur æðioft verið til umræðu hér á Alþingi og komið fram frá fjölmörgum þm. hörð gagnrýni á þessa stofnun. Og ég veit að það er ekki að ástæðulausu, því miður. Það skal viðurkennt að þar hefur margt mátt betur fara í framkvæmdum og aðhaldi og aðgæslu allri. Ég skal hins vegar ekki hér og nú hafa nein stóryrði uppi um það, hvorki um subbuskap í þeirri stofnun eða annað eftir því. Hér eru ekki þeir menn til staðar, sem geta svarað þeirri gagnrýni og ég veit að margt er þar ágætra manna, sem vilja vinna sitt starf af fyllstu samviskusemi og gera vel, en hafa kannske fyrst og fremst ekki til þess nægilega góða aðstöðu, eins og reyndar hv. flm. kom réttilega inn á. Ég hef alltaf litið svo á að eitt meginvandamálið varðandi þessa stofnun væri það að hún væri vanmönnuð miðað við þau miklu verkefni sem henni eru fengin, þau allt of miklu verkefni sem henni eru fengin.

Þegar við ræðum um þessa stofnun erum við komin inn á svið ákveðinna laga sem við þekkjum hér mætavel. Það eru lögin um skipan opinberra framkvæmda. Aðili frá Innkaupastofnuninni er einn þeirra fulltrúa sem situr í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir, sem stundum hefur fengið það ágæta nafn bremsunefnd, nefnd til þess að stoppa af ákveðna hluti. Varðandi þau dæmi sem hér hafa verið nefnd í þingsölum oftar en einu sinni um tafir á verkum vil ég ekki fullyrða hverjum þær tafir eru að kenna. En það skyldi nú aldrei vera að það væri ekki alfarið þessari stofnun að kenna, heldur hefðu viðkomandi stjórnvöld eða hin svokallaða bremsunefnd, þar sem situr fulltrúi fjárlaga- og hagsýslustofnunar, þar sem situr fulltrúi okkar.hér, fulltrúi fjárveitingavaldsins, þ.e. formaður fjvn., og til viðbótar fulltrúi frá Innkaupastofnun ríkisins, það skyldi þó aldrei vera að þessir aðilar hefðu rekið fingurinn þarna óvart í. Ég fullyrði það ekki en það skyldi þó aldrei vera að bremsunefndin hefði stundum komið inn í þau mál.

Ég þekki dæmi þess að mál hafa stöðvast í samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir þrátt fyrir fjárveitingar. Ég býst við að við þekkjum nokkuð mörg sem þar höfum komið að verki að úr þeim fjármunum sem veittir hafa verið af Alþingi hefur stundum orðið býsna lítið af þeim ástæðum.

Ég vil m.ö.o. ekki gera lítið úr þeim ásökunum sem hér komu fram í garð þessa aðila, ef það er sannanlegt að þar hafi verk verið beinlínis tafin, þar hafi eftirlitshlutverk ekki verið rækt sem skyldi, þar hafi beinlínis verið unnið þannig að fé hafi rýrnað að framkvæmdagildi svo sem hér var rakið áðan. Ég vil ekkert um þetta fullyrða en ég veit að um þetta eru dæmi. En hver á sökina í þessum efnum? Það vil ég láta liggja á milli hluta. Ég vil ekki kenna það þeim starfsmönnum einvörðungu sem þarna vinna, það tek ég skýrt fram. Ég veit að hv. flm. er mér sammála um þetta atriði, að það er ekki hægt að varpa alfarið sökinni á starfsmenn framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar í þessum efnum. Þar koma aðrir til, sem eru þeim æðri og eiga að sjá um eftirlitshlutverkið, því að vitanlega á samstarfsnefndin um opinberar framkvæmdir að láta hér til sín taka. Ef framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins stendur sig ekki sem skyldi á samstarfsnefndin að taka í taumana. Og það er þá kannske hún sem hefur brugðist hlutverki sínu, þeir sem í henni sitja, sem ég skal telja upp aftur, formaður fjvn., fjárlaga- og hagsýslustjóri eða fulltrúi þaðan og svo þessi eini fulltrúi Innkaupastofnunarinnar. Það eru þessir þrír aðilar sem þessu ráða.

Ég vil skoða þetta mál. Ég tek ekki undir þetta fortakslausa orðalag um að leggja þessa stofnun niður: Hún er mér ekki að skapi. Ég flutti hins vegar á sínum tíma og fékk samþykkta tillögu um það að lögin um skipan opinberra framkvæmda skyldu endurskoðuð. Og endurskoðunin mun hafa verið falin, að mér helst skilst, fjvn. Það var þá helst aðilinn til þess að fela það! Því að eins og hv. varaformaður fjvn. veit þá eru fjvn. og hv. þm. Kristín Halldórsdóttir ekkert gefin fyrir að fara ofan í svona hluti, enda nógu að sinna af öðru tagi. Það er eitt það versta sem ég get hugsað mér að vísa þáltill. til fjvn. til afgreiðslu ef maður hugsar sér að fá afgreiðslu á till. af því tagi. Og nú man ég eftir ritara Sþ. sem einum þeirra manna sem þar eiga hlut að máli. Það er ekki af illvilja heldur af feiknalegri aðgæslu þeirrar nefndar varðandi fjármuni að ekki séu samþykktar tillögur sem eru útgjaldaaukandi fyrir ríkissjóð. Ég hygg nú samt sem áður að ekki hefði sakað þó að sú tillaga sem hér var samþykki um endurskoðun laganna um skipun opinberra framkvæmda hefði verið framkvæmd. Ég hygg að það hefði verið af hinu góða.

En við hv. flm. vil ég segja það að ég vil athuga með honum hvað á þá að koma í staðinn og hvernig við eigum að haga þessum málum. Og ég vil spyrja hann í leiðinni: Er það þá meining hans sem eðlilegt framhald af þessu að hann ætli að leggja það til að lögunum um skipan opinberra framkvæmda verði breytt á þann veg að samstarfsnefndin verði lögð niður og það eftirlitshlutverk, sem hún á að hafa. sé þar með fellt niður? Það er stóra atriðið í þessu máli að mínu viti.