21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3147 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

20. mál, lánadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég flyt hér till. á þskj. 20 um að lánadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins verði lögð niður. Ég skal vera stuttorður um þessa till. Hún er grundvölluð á þeirri staðreynd að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir forstöðumanna Framkvæmdastofnunar hefur ekki tekist að sanna að starfsemi lánadeildarinnar hafi borið tilætlaðan árangur. Henni var ætlað að stuðla að uppbyggingu á grundvallaratvinnuvegum lands okkar. Ég held að það sé óþarfi að ræða það yfir höfuð hvert ástand þessara atvinnuvega er í dag. Þar af leiðandi blasir við sú augljósa staðreynd að þessi stofnun hefur alls ekki valdið því hlutverki sem henni var ætlað.