25.02.1985
Neðri deild: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3184 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég hlýt að sjálfsögðu að taka tillit til þeirra takmarkana sem settar eru hér um lengd funda og mun gera það fúslega. Þetta mál hefur nú verið rætt hér í einn og hálfan tíma af tveimur hv. þm., hv. frsm. meiri hl. Halldóri Blöndal og hv. talsmanni 1. minni hl., og ég sé að það er ósennilegt að ég geti gert grein fyrir mínu nál. á styttri tíma en þessir hv. þm. hafa eðlilega tekið sér til að fjalla um þetta mál. Ég mun því nota rétt til þess að ræða málið frekar eftir að fundi yrði frestað.

Frv. það til nýrra útvarpslaga sem hér er komið til 2. umr. ætluðu ríkisstj. og menntmrh. að lögfesta fyrir 1. nóv. s.l. Alþingi var því aðeins ætlað að hafa málið til meðferðar í tvær vikur. Slíkt óðagot var auðvitað fyrir fram dauðadæmt í slíku stórmáli og í raun hefði menntmn. þurft að hafa þetta mál lengur til meðferðar en raun ber vitni og lýsa betur inn í ýmsa þætti þess áður en málið kæmi hér fyrir öðru sinni í deildinni.

Fyrir liggur að fjármálaþátturinn að því er Ríkisútvarpið varðar er enn óunninn af hálfu nefndarinnar og ætlunin að taka á honum milli 2. og 3. umr. eins og hv. talsmaður meiri hl. n. tók hér skilmerkilega fram. Sama gildir raunar um fjarskiptaþáttinn að því er varðar útvarpsstöðvar, spurninguna um eignar- og umráðarétt yfir dreifikerfi útvarpsstöðva sem farið er að kalla boðveitur í víðu samhengi. Meiri hl. nefndarinnar kaus að fjalla sem minnst um þetta mál í tengslum við útvarpslagafrv. eins og raunar kemur fram í áliti meiri hl. þótt auðsætt ætti að vera að fráleitt er að afgreiða ný útvarpslög án þess að skýr ákvæði séu lögfest um dreifikerfi útvarpsstöðva. Á þetta atriði minnti ég rækilega við I. umr. þessa máls s.l. haust og raunar þegar málið kom hér fyrir í fyrravor þegar sama frv. kom fyrir hv. þingdeild. Þeir sem minnihlutaáliti skila nú hafa allir sett fram tillögur varðandi dreifikerfi útvarpsstöðva.

Fleira mætti nefna varðandi ófullnægjandi skoðun þessa máls í hv. menntmn. T.d. fengust litlar upplýsingar inn til nefndarinnar um stöðu og þróun útvarpsmála á öðrum Norðurlöndum þar sem þessi mál hafa verið á flugferð undanfarin ár og þar sem athyglisverðar tilraunir eru í gangi. Þurftu einstakir nm. að hafa af því talsverða fyrirhöfn að nálgast slíkar upplýsingar seint og um síðir frá öðrum Norðurlöndum og þær hafa ekki komið að því haldi við skoðun málsins hingað til sem vert hefði verið. Á þessum vinnubrögðum ber meiri hl. n. alla ábyrgð. Það mætti vissulega margt hér segja um þau vinnubrögð sem tíðkuð hafa verið í tengslum við þetta mál í hv. menntmn.

Ég nefni það hér sem dæmi að annar stjórnaraðilinn, fulltrúi Framsfl., hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, skilaði fyrst inn tillögum af hálfu Framsfl. um þetta stóra mál rétt fyrir jólin þegar nefndin hafði haft mál þetta til meðferðar í tvo mánuði nærfellt að ég hygg. Og það var ekki fyrr en á allra síðustu stigum málsins, á líklega næstsíðasta fundi nefndarinnar eða þriðja síðasta, sem þeir hv. talsmenn ríkisstj. kynntu nefndinni sameiginlegar tillögur sínar í þessu máli. Þannig var um það fullkomin óvissa þar til fyrir tæpum hálfum mánuði hvort og með hvaða hætti fulltrúar stjórnarflokkanna í nefndinni næðu saman um tillögur.

Tillögur meiri hl. í nefndinni liggja nú fyrir. En fátt sýnir betur flaustrið við þessa grautargerð, sem þeir unnu að öðrum fremur, formaður og varaformaður menntmn., hv. þm. Halldór Blöndal og hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, að þeim kom ekki saman um túlkun á innihaldinu í fjölmiðlum eftir að tillögur höfðu verið lagðar fram af þeirra hálfu í nefndinni.

Þau eru raunar ófá viðtölin sem virðulegur formaður menntmn., hv. þm. Halldór Blöndal, hefur átt við Ríkisútvarpið og fleiri fjölmiðla um þetta frv. og ætla ég sannarlega ekki að finna að því að hann ræði við fjölmiðla. En að hans sögn var von á málinu út úr nefnd næsta dag eða svo, hverju sinni sem rætt var við fjölmiðla um þessi efni. Þessi túlkun mála gagnvart almenningi af formanni hv. menntmn. á sama tíma og stjórnarliðið var víðs fjarri því að hafa náð saman um málið tel ég hafa sett vinnu að þessu máli í hv. menntmn. í langtum verri stöðu en ella hefði verið. Menn hefðu annars horft til þess raunsæjum augum í upphafi að hér var um viðamikið mál að ræða sem óhjákvæmilega hlaut að taka verulegan tíma fyrir nefndina að skoða þó svo að sæmileg samvinna hefði verið um málið milli ríkisstjórnarflokkanna.

Þegar svo loksins þessi bræðingur hv. stjórnarliða lá fyrir tilkynnti formaður nefndarinnar alþjóð í sjónvarpinu 15. febr. s.l. að skv. samkomulagi stjórnarflokkanna væri svokölluðum frjálsum sjónvarpsstöðvum óheimilt að birta auglýsingar. Orðrétt sagði hv. þm. Halldór Blöndal í sjónvarpinu þann 15. febr. s.l. í fréttatíma: „Um það hefur ekki tekist samkomulag við Framsfl. en ég held á hinn bóginn að þrýstingurinn á frekara frelsi í þessum efnum verði það mikill á næstu mánuðum að þessu verði breytt þegar á næsta þingi.“ Þetta voru orð hv. þm. Halldórs Blöndals í sjónvarpinu næstsíðasta föstudag og fylgdi strax á eftir ramakvein frá stjórnarformanni Ísfilm, Indriða G. Þorsteinssyni, í sérstöku viðtali í fréttatíma sjónvarpsins. En Ísfilm er sem kunnugt er nýjasta helmingaskiptafélag peningaaflanna í Framsfl. og Sjálfstfl. ásamt meiri hluta Sjálfstfl. í borgarstjórn Reykjavíkur sem hefur tengt borgina þessu fyrirtæki.

Þessi túlkun hv. þm. Halldórs Blöndals á samkomulagi þeirra stjórnarliða kom raunar fleirum en fulltrúa Ísfilm á óvart, m.a. okkur, fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna í menntmn., sem höfðum haft sameiginlegar brtt. meiri hl. undir höndum í nokkra daga. Enda reyndist þetta skammgóður vermir. Það var varaformaðurinn í nefndinni, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, sem kunni betri skil á bræðingnum en formaðurinn og gat létt áhyggjum af Ísfilm. Kvöldi síðar, þann 16. febrúar, kom sameiginleg textaskýring frá þeim félögum. „Hafa fulltrúar stjórnarflokkanna,“ sagði þar, „í menntmn. Nd. óskað eftir því að það komi fram að engar brtt. þeirra snerti ákvæði frv. um rétt frjálsra sjónvarpsstöðva til auglýsinga.“

Í þessu kemur fram kjarni málsins, eins og hann liggur fyrir varðandi það mikilsverða atriði er varðar réttinn til auglýsinga í svæðisbundnum stöðvum eða ekki, sýnir það sýndarandóf af hálfu fulltrúa Framsfl. í menntmn. sem við var haft. Tillögur fulltrúa stjórnarflokkanna fela það í sér að innleiða — eins og raunar frv. þegar það var lagt fyrir — auglýsingaútvarp í svæðisstöðvum, bæði í hljóðvarpsstöðvum og í þráðlausu sjónvarpi. Lögmál markaðarins og gróðans eiga að ráða því hverjir megna að nýta sér gæði ljósvakans og bindiefnið, sem á að tryggja þessa niðurstöðu, er m.a. Ísfilm, þ.e. forustuklíkan í SÍS og Árvakri, svo að nokkrir sé nefndir sem að þessu fyrirtæki standa sem mjög hefur látið að sér kveða í þessu máli.

Undir þessi sjónarmið féþúfunnar og markaðarins taka síðan fulltrúar Bandalags jafnaðarmanna og mátti heyra það hér áðan hjá hv. talsmanni 1. minni hl. í þessu máli og vilja raunar gerast kaþólskari en páfinn og leggja engar hindranir í götu auglýsingafjölmiðlunar. Þar á bæ er það auglýsingin sem blífur sem leiðarstjarna.

Þegar kemur að Alþfl. — eða a.m.k. formanni hans sem sæti á í menntmn. — tekur því miður lítið betra við. Í brtt. hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar stendur undir lið 12 d svofellt, með leyfi forseta:

„Útvarpsfélög sem reka eigin sendistöð mega afla sér tekna með birtingu auglýsinga skv. nánari reglum sem útvarpsréttarnefnd setur.“

Það er býsna langt á milli kratanna hér, sem svo eru kallaðir, og jafnaðarmannaflokka á Norðurlöndum sem hingað til hafa lagst ákveðið gegn auglýsingaútvarpi og sama máli gegnir raunar um ýmsa miðflokka eins og t.d. í Svíþjóð og sumpart í Danmörku. Ég á bágt með að trúa því að þessi afstaða fulltrúa Framsfl. og Alþfl. í menntmn. endurspegli afstöðu viðkomandi þingflokka í heild, hvað þá viðhorf þess fólks sem veitt hefur þessum flokkum brautargengi hingað til. En það á eftir að koma í ljós í umr. og atkvæðagreiðslu hér í þinginu hverjir vilja afhenda fjármagnsöflunum í þjóðfélaginu lykilinn að svæðisbundnum útvarpsrekstri og kippa kannske í leiðinni fjárhagsgrundvelli undan Ríkisútvarpinu. Alþb. varar eindregið við öllum tillögum um auglýsingar í svæðisbundnum útvarpsstöðvum, jafnt í hljóðvarpi og í sjónvarpi, og gerir kröfu til þess jafnframt að dreifikerfi útvarps verði í almannaeigu.

Á þskj. 517 er að finna álit mitt sem 2. minni hl. menntmn. og endurspeglar það viðhorf þingflokks Alþb. Þar koma fram nokkur meginatriði til nýrra útvarpslaga og fyrirliggjandi frv. og ég ætla að nefna þau hér. Fyrsta áhersluatriði okkar skv. þessu áliti er um eflingu Ríkisútvarpsins og segir um það í nál., með leyfi forseta:

„Alþb. leggur nú sem fyrr mikla áherslu á að vel sé búið að Ríkisútvarpinu varðandi alla starfsaðstöðu. Á það reynir enn frekar þegar hafin verður starfræksla svæðisbundinna útvarpsstöðva. Ríkisútvarpið þarf eftir sem áður að vera burðarásinn í útvarpsfjölmiðlun og á það eru lagðar margháttaðar skyldur sem ekki eru gerðar til svæðisstöðva.

Tryggja þarf viðunandi kjör starfsmanna Ríkisútvarpsins og áhrif þeirra á starfrækslu stofnunarinnar. Að því lúta nokkrar af þeim brtt. sem undirritaður flytur við frv., m.a. um starfsmannaráð. Alþb. mun styðja brtt. við frv. sem til heilla horfa fyrir Ríkisútvarpið og gera það færara að rækja hlutverk sitt sem öflugasti fjölmiðill í landinu.“

Þetta var tilvitnun í fyrsta meginþátt í nál. okkar. Í brtt. sem ég flyt á þskj. 516 eru tillögur undir töluliðum 6–11 varðandi Ríkisútvarpið og þar með varðandi II. kafla frv. sem fjallar um Ríkisútvarpið sérstaklega. Þar er gerð brtt. við 10. gr. frv. sem er stefnumarkandi um útvarpsefni og um óhlutdrægni gagnvart flokkum og stefnum. Sú grein er raunar nánast samhljóða gildandi lögum. Skv. brtt. er kveðið á um orðrétt: „Sérstaklega skal þess gætt að hafa á boðstólum fjölbreytt efni við hæfi barna, jafnt í hljóðvarpi og sjónvarpi.“

Ekki á að þurfa að rökstyðja svo eðlilega kröfu til Ríkisútvarpsins. Í frv. segir að Ríkisútvarpið skuli flytja fjölbreytt skemmtiefni við hæfi fólks á öllum aldri og skal sannarlega ekki dregið úr þeirri áherslu. En fleira þarf að koma til gagnvart þeim fjölmenna hópi hlustenda sem börnin eru. Í því efni á ábyrgð Ríkisútvarpsins að vera mikil og hafa lagastoð eins og hér er lagt til. Að baki þessari till. felst það viðhorf að mun betur þurfi að gera varðandi barnaefni eða efni fyrir börn í Ríkisútvarpinu en tekist hefur hingað til og vænti ég að undir það sé almennt tekið.

Undir 7. tölul. á þskj. 516 er gerð brtt. við 12. gr. frv. þess efnis að útvarpsstjóri sé aðeins ráðinn til fimm ára í senn, en heimild sé til endurráðningar í fimm ár til viðbótar eftir að staða hans hefur verið auglýst laus til umsóknar. Hliðstæð till. er gerð á brtt. við 15. gr. varðandi framkvæmdastjóra hinna einstöku deilda Ríkisútvarpsins. Í þessum till. kemur fram sú stefna Alþb. að enga embættismenn ríkisins eigi að æviráða og takmarka beri skipunartíma háttsettra manna í ríkiskerfinu við fimm ár, þó með heimild til endurskipunar í eitt tímabil til viðbótar. Um þetta hefur Alþb. flutt sérstakt frv., m.a. á síðasta þingi í Ed. Eðlilegt er að setja um þetta almenna reglu jafnframt því sem hliðstæð ákvæði eru sett í sérlög um einstakar stofnanir. Þetta viðhorf á vaxandi fylgi að fagna eins og m.a. kemur fram í hliðstæðum brtt. frá fulltrúum Bandalags jafnaðannanna og Alþfl. I menntmn. Með brtt. undir tölul. 11 er gert ráð fyrir sérstakri grein, svohljóðandi:

„Við Ríkisútvarpið skal komið á fót starfsmannaráði sem er ráðgefandi um málefni stofnunarinnar. Fulltrúi starfsmannaráðsins á rétt til setu á fundum útvarpsráðs með málfrelsi og tillögurétti. Um réttindi og skyldur starfsmannaráðs fer að öðru leyti eftir almennum reglum um hliðstæð ráð í opinberum stofnunum.“

Að mati Alþb. er eðlilegt að setja slík ákvæði um rétt starfsmanna í lög og tryggja þeim þannig íhlutunarrétt m.a. gagnvart útvarpsráði. í tíð ríkisstjórnar dr. Gunnars Thoroddsens hafði þáv. fjmrh. Ragnar Arnalds frumkvæði að því að settar voru reglur um slík starfsmannaráð í opinberum stofnunum að höfðu samráði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og fleiri aðila. Er vísað til þeirra reglna í þessari till.

En það er fleira sem taka þarf til athugunar varðandi starfsmenn Ríkisútvarpsins þegar til þess kemur að fleiri fá heimild til útvarpsreksturs. Hef ég þá sérstaklega í huga kaup og kjör þessara starfsmanna og samkeppnisaðstöðu Ríkisútvarpsins gagnvart öðrum stöðvum og skyldum rekstri. Hér er á ferðinni undirstöðuatriði sem finna verður á farsæla lausn ef orð og lagagreinar um eflingu Ríkisútvarpsins eiga að verða annað en nafnið tómt.

Telja verður að Ríkisútvarpið standi nú þegar afar höllum fæti varðandi það að halda reyndu starfsfólki í samkeppni við aðra aðila á vinnumarkaði, m.a. auglýsingastofur og dagblöð. Þetta er í rauninni sama þróun og verið hefur að gerast annars staðar í ríkiskerfinu alveg sérstaklega á undanförnum misserum í tíð núv. ríkisstj., t.d. í skólum landsins. Innan Ríkisútvarpsins hefur þetta leitt til þess að starfsmannafélag stofnunarinnar, sem aðild á að BSRB sem fór með samningsréttinn fyrir hönd félagsins til skamms tíma a.m.k., hefur verið að riðlast sem hagsmunasamtök starfsmanna. Fréttamenn Ríkisútvarpsins hafa stofnað með sér sérstakt félag sem hlotið hefur inngöngu í Bandalag háskólamanna. Tæknimenn Ríkisútvarpsins eru að ganga úr Starfsmannafélagi Ríkisútvarpsins. Mér er ekki kunnugt um hvort þeir hafa sagt sig formlega úr félaginu, gangi úr þessu félagi sem hagsmunasamtökum og inn í Alþýðusamband Íslands í gegnum Rafiðnaðarsambandið.

Fréttamenn og tæknimenn, þessir tveir hópar innan Ríkisútvarpsins, sem ég hef gert hér að umtalsefni, eru tveir sérhæfðustu hóparnir innan stofnunarinnar. Eftir eru þá einkum skrifstofumenn og aðstoðarlið svo og yfirmenn á stofnuninni. Mér er til efs að þessi uppskipting starfsmanna Ríkisútvarpsins í a.m.k. þrennt skili heildinni því sem hún væntir til lengri tíma litið, síst hinum ósérhæfðari starfskröftum. Hér endurspeglast hins vegar þróun sem víða gerir vart við sig á vinnumarkaðinum, að hver reyni að bjarga sér. Meginatriðið í því samhengi, sem við ræðum þetta mál hér á Alþingi nú, er að stuðla að því að kjaramál starfsmanna þessarar ríkisstofnunar verði leyst með þeim hætti að komið verði í veg fyrir atgervisflótta frá Ríkisútvarpinu, m.a. vegna þeirra breytinga á útvarpsrekstri sem líklegt er að lögleiddar verði innan tíðar.

Ég hef ekki talið rétt að flytja sérstakar breytingar eða viðaukatill. við frv. á þessu stigi að því er kjaramál og samningsrétt starfsmanna varðar. Hér er um margþætt og viðkvæmt atriði að ræða þar sem löggjafinn þarf að gæta sín og ég tel nauðsynlegt að samráð sé haft við helstu hagsmunaaðila þessa máls áður en stefna er mörkuð í löggjöf.

Bandalag jafnaðarmanna flytur till. þess efnis að útvarpsstjóri geri kjarasamning við starfsmenn stofnunarinnar með samþykki svonefndrar stjórnar Ríkisútvarpsins. Þetta er ein af þeim leiðum sem til álita gætu komið. En ég tel ekki tímabært að lýsa hér neinni afstöðu til þeirrar till. og æskilegt að menntmn. gefist ráðrúm til að fjalla um þessi atriði milli umr. því að ég geri ráð fyrir að allir nm. geri sér grein fyrir hvað hér er í húfi fyrir Ríkisútvarpið.

Ég kem þá, herra forseti, að þeim þætti er varðar réttinn til útvarps skv. 1. kafla frv. og spurninguna um afnám á einkarétti Ríkisútvarpsins. Það er sá þáttur þessa frv. sem langhæst hefur borið í umr. sem vonlegt er, enda um grundvallarbreytingu að ræða. Um það segir í því nál. sem ég stend að á þskj. 517, með leyfi forseta:

„Þingflokkur Alþb. er fylgjandi því að hópum með ólíkan bakgrunn verði heimilað að spreyta sig á útvarpsrekstri með það í huga að auka tjáningarfrelsi í landinu og lýðræðislega umr. Með þessi markmið í huga telur þingflokkurinn rétt að einungis samtök, sem sérstaklega eru stofnuð með útvarpsrekstur í huga, fái slíka heimild. Fyrirtæki, sem stunda annan og óskyldan resktur, eiga ekki að geta gerst beinir aðilar að útvarpsrekstri.

Þingflokkur Alþb. bendir á að ráðstöfun útvarpsréttar er í höndum almannavaldsins og hlýtur að verða það áfram. Svigrúm til almennrar útvarpsstarfsemi er í raun takmarkað og því hlýtur Alþingi að sníða henni stakk með nýjum útvarpslögum. Vegna þessara takmarkana telur Alþb. með öllu óeðlilegt að útvarpsstarfsemin sé gerð að markaðsvöru í gróðaskyni. Því leggst flokkurinn ákveðið gegn því að handhöfum útvarpsheimilda verði leyft að selja þriðja aðila aðgang að senditíma með hvers kyns viðskiptaauglýsingum eða annarri verslun með dagskrártíma í svæðisbundnum útvarpsstöðvum. Sýnt hefur verið fram á með skýrum rökum hvernig unnt er að fjármagna rekstur útvarpsstöðva án auglýsingatekna. Fjölmörg dæmi eru um það erlendis að útvarpsstöðvar séu reknar án auglýsinga, t.d. eru auglýsingar ekki heimilaðar í útvarpi í Noregi, Svíþjóð og Danmörku.“

Hér kemur skýrt fram afstaða þingflokks Alþb. til afnáms einkaleyfis Ríkisútvarpsins að því er auglýsingar varðar. Alþb. er því fylgjandi að heimila sem flestum að nýta sér þá tækni sem er í senn auðveld og útgjaldalítil til staðbundins útvarpsrekstrar — einkum á þetta við að því er varðar hljóðvarp — og auka þannig tjáningarfrelsi í landinu og lýðræðislega umr. til viðbótar þeim möguleikum sem öflugt Ríkisútvarp gefur. Þeim markmiðum verður hins vegar ekki náð með því að framselja slíka heimild í hendur markaðsaflanna þar sem fjárhagslegir yfirburðir munu fyrr en varir ráða ferðinni og örfáir stórir og fjársterkir aðilar ráða lögum og lofum í svæðisbundnum útvarpsrekstri. Slíkt á ekkert skylt við fjölbreytni eða lýðræði og frelsið sem um er talað, takmarkast þá við fáa fjármagnssterka aðila eins og þá sem sameinast hafa undir merki fyrirtækisins Ísfilm.

Það sætir raunar furðu að fjölmiðill eins og Ríkisútvarpið skuli éta upp klisjuna „frjálsar útvarpsstöðvar“ ítrekað í fréttaútsendingum varðandi það frv. sem hér er til umr.

Það er grundvallarmisskilningur, sem talsmönnum viðskiptalífsins hefur tekist að læða inn hjá allt of mörgum, að rýmkun á rétti til útvarps þurfi að fela í sér atvinnurekstur í gróðaskyni. Það er hins vegar eðlilegt að talsmenn slíkra aðila hafi uppi málflutning til þess að fá sem mest áhrif og fátt sýnir betur eðli auglýsingaútvarpsins, sem meiri hl. menntmn. og fleiri vilja hér lögleiða, en ummæli stjórnarformanns Ísfilm, Indriða G. Þorsteinssonar, í sjónvarpi 15. febr. s.l. þegar hann hélt að fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl. í menntmn. væru að taka frá honum möguleikana á auglýsingasjónvarpi. Þar sagði þessi stjórnarformaður Ísfilm, með leyfi forseta eftirfarandi m.a.:

„Ég lít líka svo á að ákvæðið um það að sjónvarp skuli ekki hafa auglýsingar sé eiginlega alveg út í hött. Það er verið að bjóða upp á frjálsan útvarpsrekstur með skilyrðum.“ Og síðar í sama viðtali:

„Ég reikna með því að ef svo ólíklega vildi til að Alþingi eða flokkarnir, Framsfl. og Sjálfstfl., á Alþingi samþykktu frelsi með skilyrðum og segðu við menn: Þið getið rekið sjónvarp ef þið hafið engar áskriftartekjur og engar auglýsingatekjur, þá reikna ég með að Ísfilm biði átekta og reyndi að sjá til þess hvort Eyjólfur hresstist ekki eitthvað.“

Já, herra forseti. Þetta var tilvitnun í stjórnarformann Ísfilm. Það fyrirtæki bíður átekta til að sjá til hvort Eyjólfur hressist og er þá átt við að alþm. opni fyrir flóðgáttir auglýsinga hjá svæðisstöðvum þannig að fjármálaöflin, einkum hér á höfuðborgarsvæðinu, geti helgað sér sem mest af öldum ljósvakans og um leið eyru og augu hlustenda og áhorfenda. Vonandi rætist ekki sá draumur Ísfilm og annarra hagsmunasamsteypa fjármagnsaflanna í landinu.

Herra forseti. Það var ætlun mín að víkja að brtt. mínum sem 2. minni hl. við I. kafla þessa frv. En vegna þess að ég hygg að fundi verði senn frestað og ég á nokkuð eftir til að gera hér grein fyrir máli mínu og tillögum kýs ég að beina hér máli mínu til hæstv. samgrh. sem ég hafði óskað sérstaklega eftir að væri hér viðstaddur þessa umr. vegna fsp. sem ég vil beina til hans. Þó að það kunni að dragast sýnilega til næsta fundar að hæstv. ráðh. geti svarað mínum fsp. kýs ég að bera þær hér fram þannig að hæstv. ráðh. gefist tækifæri til þess að íhuga þær fsp. og veita hér svör síðar í umr.

Fsp. mínar til hæstv. samgrh. varða þá umr. sem orðið hefur bæði innan menntmn. og fram kemur í tillöguflutningi við þetta frv. varðandi dreifikerfi útvarpsstöðva. Ég flyt sérstaka brtt. við frv. á þskj. 516 um þetta efni, svohljóðandi:

„Dreifikerfi útvarpsstöðva um þráð, kapalkerfi, boðveitur, svo og endurvarpsstöðvar, skulu vera í opinberri eigu. Samgrh. setur reglur um gerð og notkun slíkra kerfa, svo og um leigugjald.“

Þetta er till. sem ég flyt við frv. um opinbert eignarhald á dreifikerfum útvarps. Hv. frsm. meiri hl. n. ræddi þetta mál og gerði grein fyrir sínum viðhorfum í þessu efni og taldi að það gæti ekki verið á verksviði menntmrn. að fjalla um þessi mál þar sem það heyrði undir samgrn. og fjarskiptalöggjöf. Ég tel óhjákvæmilegt að fá fram viðhorf hæstv. samgrh. um þetta efni og raunar hæstv. menntmrh. einnig, svo geysilega mikilsverður þáttur sem hér er á ferðinni. Ég hef þegar lýst því viðhorfi mínu að ég telji ekki fært fyrir Alþingi að taka afstöðu til breytinga á útvarpslögum án þess að fyrir liggi hver sé vilji þingsins í sambandi við eignarhald á dreifikerfum útvarpsstöðva. Æskilegt væri að í leiðinni væri hægt að taka á þeim málum sem varða svokallaðar boðveitur sem nú er farið að nota sem hugtak um þessi efni. Ég beini í þessu samhengi svofelldum fsp. til hæstv. samgrh.:

1. Hvert er viðhorf hæstv. samgrh. til eignarhalds á dreifikerfum útvarps með þráðum eða köplum, eins og það er einnig kallað, og til sendivirkja sem upp yrðu sett í þessu sambandi eins og endurvarpsstöðvar?

2. Hvað líður undirbúningi að löggjöf um þessi mál á vegum hæstv. ráðh. og samgrn.? Til skýringar þessari fsp. rifja ég það upp, sem fram kom hjá hv. þm. Halldóri Blöndal, að þetta mál mundi vera til athugunar hjá hæstv. samgrh. og gefur það tilefni til þessarar fsp.

3. Ætlar hæstv. ráðh. að beita sér fyrir lagasetningu um þessi efni á yfirstandandi þingi?

4. Í fjórða lagi spyr ég hæstv. ráðh. að því: Er samstaða milli hæstv. menntmrh. og hans, hæstv. samgrh., um það á hvern hátt skuli taka á þessum málum og tryggja að þau geti orðið samferða í gegnum þingið ef það er viðhorf ríkisstj. að málefni þetta heyri undir samgrn. og löggjöf um fjarskipti?

Ég hef, hæstv. samgrh., vel í minni það sem fram kom í sambandi við fjarskiptalög sem sett voru hér s.l. vor. Þar voru rýmkuð ákvæði í sambandi við viss atriði sem snertu tímabundið leyfi til þess — eins og það heitir í fjarskiptalögum — „að stofna og reka fjarskiptavirki, þó ekki í atvinnuskyni, að því er varðar fjarskiptin sem slík.“ Fram kom við umr. um þessi mál það viðhorf hæstv. samgrh. að þessi ákvæði og þessi rýmkun í fjarskiptalögum tækju ekki til kapalkerfa. Ég vænti þess og efast ekki um að hæstv. ráðh. muni greiða úr óvissu í þessum efnum að því er varðar hans viðhorf og hans rn. til þessara málefna og tel það raunar skipta mjög miklu máli.

Herra forseti. Ég sé að þingfundartíma er lokið og ég er reiðubúinn að gera hlé á ræðu minni til næsta fundar. Ég á eftir að lýsa hér brtt. mínum við I. kafla frv. og ég á eftir að gera að umtalsefni nokkur atriði sem fyrir liggja í brtt. annarra fulltrúa í menntmn., bæði meiri hl. og minni hl. og frá hv. þm. Friðrik Sophussyni.

Ég vil enda þennan hluta ræðu minnar á því að vekja sérstaka athygli á brtt. sem hv. þm. Friðrik Sophusson flytur á þskj. 514. Hún sýnir allvel hvernig staða þessa máls er milli ríkisstjórnarflokkanna. Hér er komin fram brtt. frá einum þm. Sjálfstfl. um mjög þýðingarmikið atriði í þessu frv. Ég inni talsmenn Framsfl. og hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson alveg sérstaklega eftir því hvert sé viðhorf hans til þess að hér fari að rigna inn tillögum frá öðrum stjórnarliðum í þessu máli. Nær það samkomulag, sem lýst var í hv. menntmn., aðeins til hans og hv. þm. Sjálfstfl. sem þar eiga sæti? Við bíðum svars við þessu og sjáum hverju fram vindur í þessu máli. Ég hygg að það eigi enn alllangt í land að fá afgreiðslu hér í þinginu, ekki síst vegna þess hvernig að því hefur verið staðið af ríkisstj. hálfu fram til þessa og einnig vegna þess að hér er um geysilega vandasamt og viðamikið mál að ræða sem afar miklu skiptir að Alþingi taki sér tíma til að fara yfir svo að afgreiðsla þess beri engin einkenni flausturs, heldur yfirvegaðs vilja þingheims. [Frh.]