27.02.1985
Neðri deild: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3360 í B-deild Alþingistíðinda. (2744)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson) (frh.):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli mínu á síðasta fundi telur Alþb. mestu skipta í sambandi við ný útvarpslög að með þeim sé rennt styrkari stoðum undir Ríkisútvarpið en nú er, að dreifikerfi nýrra útvarpsstöðva sé í opinberri eigu og að engar viðskiptaauglýsingar eða önnur verslun með dagskrártíma þeirra verði heimiluð. Ég lauk máli mínu þegar fundi var frestað hér á mánudag með því að beina nokkrum fsp. til hæstv. samgrh. varðandi dreifikerfið og ég vænti þess að hæstv. ráðh. gefist kostur á að svara þeim fsp. hér í umr.

Ég var að öðru leyti að því kominn í ræðu minni að gera grein fyrir brtt. sem ég flyt á þskj. 516 við I. kafla frv. varðandi rétt til útvarps. Þær till. eru í fimm tölusettum liðum við 3. og 4. gr. frv. og auk þess um að tvær nýjar greinar bætist við þennan kafla.

1. brtt. er við 3. gr., 2. tölul. Skv. frv. er gert ráð fyrir því sem einu af skilyrðum fyrir svæðisstöðvum, er ég kýs að kalla útvarp á afmörkuðum svæðum, að sveitarstjórnir mæli með veitingu leyfis af hálfu útvarpsréttarnefndar. Ég tel óeðlilegt að setja slíkt skilyrði, en hins vegar eðlilegt að sveitarstjórnir eigi kost á að veita umsögn um fyrirhugaðan útvarpsrekstur þó ekki væri nema til að fylgjast með hvað er á döfinni í þessu efni í sveitarfélaginu. Ég geri því till. um að tölul. 2. í 3. gr. orðist þannig: „Sveitarstjórnir á svæðum, þar sem stofna skal útvarpsstöð, hafi átt kost á að veita um það umsögn til útvarpsréttarnefndar.“

Önnur brtt. mín varðar 3. gr. 3. tölul. sem skv. frv. kveður á um að óheimilt sé að veita erlendum aðilum leyfi til útvarpsrekstrar. Þarna vil ég bæta við orðunum „eða félagi eða stofnun sem útlendingar eiga hlut í“. Með þessari viðbót eru tekin af tvímæli því að ella gætu erlendir aðilar komist bakdyramegin inn í slíkan rekstur.

Meiri hl. menntmn. gerir einnig brtt. við þennan lið og glufar fyrir útlendinga með því að setja mörkin við 10% erlenda eignarhlutdeild. Þetta er þeim mun afdrifaríkari breyting ef hún er skoðuð í ljósi brtt. meiri hl. við upphafsorð 3. gr., þ.e. að ekki þurfi að stofna sérstakt félag um útvarpsrekstur heldur geti hvaða lögaðili sem er fengið leyfi til að reka útvarp.

Þriðja brtt. mín við þennan kafla varðar 3. gr. 8. tölul. sem hljóðar þannig í frv. nú: „Óheimilt er að aðrir aðilar en félag það, sem leyfi hefur til útvarpsreksturs, kosti almenna dagskrárgerð viðkomandi útvarpsstöðvar þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði.“

Með lokaorðunum er í rauninni gert ómerkt það sem í upphafi segir og því legg ég til að niður falli orðin „þótt ekki gildi það um einstaka dagskrárliði“.

Síðan legg ég til að við bætist í beinu framhaldi ný setning þannig: „A.m.k. helmingur af útseldu efni skal tekinn saman eða framleiddur af viðkomandi leyfishafa.“ Með þessu væru sett eðlileg lágmarksskilyrði um efnisgerð hluteigandi stöðvar og komið í veg fyrir að að meiri hluta væri um útsendingar á aðkeyptu eða aðfengnu efni að ræða án nokkurrar aðlögunar að svæðisbundinni dagskrá.

Fjórða brtt. er við 4. gr. þar sem m.a. er lögð til sú grundvallarbreyting að svæðisstöðvum sé óheimilt að afla tekna með verslunar- og viðskiptaauglýsingum. Um þetta atriði hef ég nokkuð fjallað í fyrri hl. ræðu minnar en mun hér nokkru við bæta. Um ákvæði frv. gerði fulltrúi Alþb. í útvarpslaganefnd, sem undirbjó þetta frv., Ólafur heitinn Einarsson, skýran fyrirvara. Það sætir vissulega furðu að meiri hl. útvarpslaganefndar sem undirbjó frv. og nú meiri hl. menntmn. skuli taka undir þá óhæfu að ætla að heimila hér viðskiptaútvarp. Ég skil vel áhuga ýmissa talsmanna Sjálfstfl. í þessu efni. Þeir mæla þar fyrir gróðaöflin sem halda uppi Sjálfstfl. og ráða mestu um stefnu hans. Hið sama virðist nú uppi á teningnum með Framsfl. þegar forstjóravaldið í S.Í.S. hefur gengið í fóstbræðralag við hlutafélög eins og Árvakur og Frjálsa fjölmiðlun og Davíð Oddsson innan Ísfilm.

Ég hef heyrt þær viðbárur þeirra, sem mæla með auglýsingum í svæðisstöðvum, að erfitt sé að koma í veg fyrir áhrif fjársterkra aðila á dagskrárgerð slíkra stöðva og því sé best að ganga hreint til verks og heimila auglýsingar og skattleggja þær í þágu innlendrar dagskrárgerðar eins og meiri hluti menntmn. leggur til. Hér er augljóslega um fyrirslátt þeirra manna að ræða sem ákveðið hafa að selja skrattanum ömmu sína og eru að finna afsökun eftir á fyrir þeirri ráðabreytni. Heimild til viðskiptaauglýsinga dregur að sjálfsögðu ekki úr þeirri hættu að markaðsöflin reyni að hafa áhrif á aðra þætti dagskrár í útvarpsstöðvum, sem hvort sem er þurfti að taka afstöðu til hversu við skyldi bregðast. Hér er því verið að bæta svörtu ofan á grátt — svo snúið sé við velþekktu orðtaki — varðandi áhrifamöguleika viðskiptalífsins á útsent efni svæðisstöðvanna.

Önnur viðbára er sú að með því að banna auglýsingar sé verið að kippa öllum rekstrargrundvelli undan nýjum stöðvum. Í því efni hefur skýrast talað framkvæmdastjóri Ísfilm sem ákallaði flokkana sína hér á Alþingi, Framsfl. og Sjálfstfl., til liðsinnis og vænti betrunar hér um daginn þegar hv. þm. Halldór Blöndal ló því að honum að nú væri úti um auglýsingar í bráð.

Hér kemur fram sú bábilja að saman þurfi að fara lýðræðislegur aðgangur að fjölmiðlum í útvarpi og fjárgróði, Alþingi beri um leið og það opnar ljósvakann fyrir fleiri aðilum en Ríkisútvarpinu að tryggja rekstrargrundvöll einhverra fyrirtækja á borð við Ísfilm sem ætla að fara að stunda útgerð á öldum ljósvakans svo fremi þó aðeins að það gefi gull í mund. Hvað um félagafrelsi í landinu? Kannast einhver við það að því lýðræðislega grundvallaratriði í okkar stjórnarskrá og löggjöf fylgi trygging fyrir því að stofnun félaga um einstök málefni fylgi gróðavon eftir lögmálum markaðarins? Að ábyrgð sé tekin á því að kvenfélög, svo dæmi sé tekið, og ungmennafélög beri sig eða þá Tófuvinafélagið? En rétturinn til slíkrar fjölbreyttrar félagamyndunar í landinu er ekki síður mikilvægur þótt hann sé ekki einskorðaður við markaðsöflin.

Að ekki sé nú minnst á þann boðskap talsmanns BJ, sem fram kemur í nál. 1. minni hl. og endurtekinn var af talsmanni hans við þessa umr., að fráleitt sé, eins og þar stendur „að litið verði til frambúðar á auglýsingar í útvarpi sem nauðsynlegan en illan kost. Það ber að líta svo á að auglýsingar gegni því hlutverki að upplýsa almenning og á það við bæði um opinbera aðila og verslun og þjónustu“.

Segi menn svo að ekki sé hægt að lappa upp á trúarjátninguna: Ég trúi á auglýsinguna, skapara himins og jarðar. Ég geri fastlega ráð fyrir að við fáum brátt röð af þáltill. frá fulltrúum þessara krossriddara gegn kerfinu, t.d. frá hv. þm. Kristínu Kvaran, þess efnis að til að upplýsa almenning og sérstaklega æskufólk skuli skólahúsnæði opnað fyrir hverskyns viðskiptaauglýsingum og sama gæti átt við um Þjóðleikhúsið.

Hvernig væri að rjúfa leikhússýningar reglubundið með auglýsingum til að upplýsa almenning t.d. um ágæti Coca Cola eða: „Hlustið á Ísfilm, Ísfilm er alsjáandi.“ Hver veit nema BJ megi vænta liðsinnis frá hæstv. menntmrh. í þessu brautryðjandastarfi við að greiða fyrir að upplýsa almúgann? Gæti hér ekki verið fundin leið til að öngla upp í kröfur skólamanna um hærri laun og bættan aðbúnað? Auglýsingar á skólagangana og utan á skólabyggingar. „A það bæði við um opinbera aðila og verslun og þjónustu,“ segir í áliti BJ. Þar gætu komi t.d. Davíð borgarstjóri, Davíð Scheving og Davíð og Golíat. Það er munur að vera ekki kerfisflokkur.

Hins vegar birtir til þegar sami 1. minni hl. orðrétt „vill setja skörp skil á milli þess hvað talist getur frjáls rekstur og hringamyndun“ og að einstaklingum og fyrirtækjum, sem eiga hlut í öðrum greinum fjölmiðlunar svo sem dagblöðum, sé óheimilt að eiga hlutdeild að útvarpsrekstri. Þetta er nokkurn veginn orðrétt úr nál.

Hér sýnist mér Bandalagið komið í kerfi andstætt því sem er um auglýsingarnar og hugmyndafræðina og því dálítið á hálum ís þótt ég geti vissulega vel tekið undir þessa síðari till. sem einn úr kerfisflokkunum. Ég hef reynt að lýsa hér inn í hugmyndaheim þeirra lítillega sem tala fyrir auglýsingaútvarpi til að sýna hversu holur sá málflutningur er. Leiðirnar til að nýta sér rétt til útvarps án auglýsinga, til að standa undir kostnaði við slíka starfsemi, eru fjölmargar og Alþb. vill með sérstökum ákvæðum í útvarpslögum vísa á nokkrar þeirra og tryggja opinberan stuðning við fjölbreytta og óháða útvarpsfjölmiðlun. Þannig segir í síðari hluta brtt. undir tölul. 4 á þskj. 516, með leyfi forseta:

„Afnotagjöld til slíkra stöðva má innheimta samhliða afnotagjöldum til Ríkisútvarpsins til að auðvelda þeim tekjuöflun sem fengið hafa tímabundið leyfi til útvarpsrekstrar. Útvarpsréttarnefnd setur reglur um slíka innheimtu í samvinnu við útvarpsráð.“

Og í tölul. 5.a. er lagt til að inn verði tekin ný grein svohljóðandi:

„Til að stuðla að því að aðrir en fjársterkir aðilar geti ráðist í útvarpsrekstur skv. 3. gr. og að sem fjölbreyttust reynsla fáist af rekstri útvarps á afmörkuðum svæðum, skal ríkissjóður leggja útvarpsréttarnefnd til allt að 10 millj. kr. árlega skv. fjárlögum næstu þriggja ára, 1986–1988, miðað við verðlag 1. janúar 1985. Þessum fjármunum skal varið á eftirfarandi hátt:

a. Til kaupa á útsendingarbúnaði sem útvarpsréttarnefnd festir kaup á að fengnum umsóknum frá útvarpsstöðvum er leyfi fá skv. 3. gr. skv. nánari ákvæðum í reglugerð er menntmrh. setur að fengnum tillögum útvarpsréttarnefndar.

b. Til að koma upp í hverjum landshluta vel búnu útvarpsveri sem útvarpsréttarnefnd veitir útvarpsleyfishöfum aðgang að gegn viðráðanlegu leigugjaldi að undangengnu mati á þörfum viðkomandi aðila. Þó skal þess gætt að enginn einn aðili fái rétt til nota af slíku veri nema takmarkaðan tíma í viku hverri skv. nánari ákvæðum í reglugerð.

Ríkisútvarpið telst eigandi búnaðar og aðstöðu skv. a- og b-lið. Heimilt er Ríkisútvarpinu að selja útsendingarbúnað skv. a-lið til útvarpsstöðva að þremur árum liðnum og skal söluandvirði þá renna í sérstakan Menningarsjóð útvarpsstöðva er styrki innlenda dagskrárgerð.“

Með þeim ákvæðum sem hér er lagt til að verði lögfest væri tryggður myndarlegur stuðningur af opinberri hálfu við útvarpsrekstur á vegum annarra en Ríkisútvarpsins og það víða á landinu. Varðandi sameiginlega innheimtu afnotagjalda fyrir svæðisstöðvar og Ríkisútvarpið vil ég vitna hér, með leyfi forseta, í kafla úr grein sem Þorbjörn Broddason lektor ritaði í nóvember s.l. í DV þar sem hann segir m.a.:

„Ef útvarpslagafrv. verður samþykkt óbreytt táknar það að viðskiptahagsmunir muni koma í stað hagsmuna almennings I landinu. Naumast mun það ríða þjóðinni að fullu en spyrja má hví við skyldum kalla slíkt yfir okkur að þarflausu. Fjölgun útvarpsleyfishafa þarf alls ekki að fela í sér upphaf viðskiptaútvarps hér á landi. Á þessari stundu höfum við, eða nánar tiltekið fulltrúar okkar á Alþingi, frjálst val um það hvort þeir vilja stofna til viðskiptaútvarps eða fjöldaútvarps.

Ef leið fjöldaútvarps verður farin losnum við algerlega við auglýsingar úr útvarpi en hins vegar þarf hún engan veginn að útiloka alls kyns tilkynningar og fróðleiksmiðlun um annað en söluvarning. Fjöldaútvarp er fjármagnað með þeim hætti að hver einasti þegn þjóðfélagsins eða hvert heimili með útvarpsviðtæki greiðir útvarpsiðgjald með nákvæmlega sama hætti og hingað til. Munurinn verður þó sá að í stað þess að allt iðgjald renni til Ríkisútvarpsins verður því skipt þannig að ákveðið hlutfall rennur þangað en afgangurinn til annarrar eða annarra útvarpsstöðva skv. frjálsri ákvörðun greiðandans. Ef greiðandinn vill ekki styðja neina nýja útvarpsstöð má láta allt gjaldið renna til Ríkisútvarpsins eða t.d. í sérstakan sjóð til stuðnings tilraunastarfi á sviði fjölmiðla.

Kostnaðarauki vegna innheimtu þessa gjalds yrði nákvæmlega enginn þar sem útvarpsiðgjald er innheimt nú þegar. Kostnaðarauki almennings yrði sennilega minni en enginn vegna þess að fjármögnun nýrra útvarpsstöðva með þessum hætti verður væntanlega ódýrari en næmi hækkun vöruverðs vegna auglýsingaútvarps.

Aðferðin er eins lýðræðisleg og unnt er að hugsa sér vegna þess að menn mundu einungis greiða til þeirrar starfsemi sem þeim líkar. Mér hefur verið bent á,“ segir Þorbjörn Broddason áfram, „að hugmyndin um fjöldaútvarp útiloki ekki að fjársterkir aðilar leggi til fé í áróðursskyni. Ég hef svarað því til að ekkert kerfi geti útilokað slíkt og að mínu áliti sé reyndar engin ástæða til að reyna það. Mér býður í grun að þeir fjársterku aðilar, sem hefðu hug á slíku, yrðu fyrst og fremst fjöldahreyfingar svo sem hugsjóna- og hagsmunasamtök ýmiss konar. Fjöldaútvarpið mundi þannig bera nafn með rentu, hvort sem lífið yrði á iðgjaldshliðina eða fjármögnun með styrkjum. Þær útvarpsstöðvar, sem hvorki nytu hylli fjöldans né ættu sér trausta og fjölmenna stuðningsmannasveit, mundu hins vegar tæpast kemba hærurnar.“

Í því fjöldaútvarpi, sem hér um ræðir og Þorbjörn gerði að umtalsefni, í stað viðskiptaútvarps fárra fésterkra aðila væri fólgið aukið lýðræði og valddreifing þar sem margir yrðu hluttakendur í útvarpsfjölmiðlun til viðbótar starfsemi Ríkisútvarpsins. Það er slík fjöldaþátttaka sem Alþingi ætti að stuðla að með breytingu á útvarpslögum í stað einokunar fjármagnsins sem auk þess getur fyrr en varið kippt fótum undan Ríkisútvarpinu.

Með till. sínum um útvarpsstarfsemi er Alþb. í reynd að taka undir þau viðhorf varðandi valddreifingu sem t.d. koma fram í stefnuskrá Samtaka um kvennalista og um leið væru sköpuð skilyrði til að laða fram þátttöku mun fleiri víða á landinu í útvarpsstarfsemi en líklegt er að takist innan vébanda Ríkisútvarpsins eins þótt þar megi vissulega mörgu breyta til bóta, m.a. með útstöðvum víða um land. samvinna og stuðningur Ríkisútvarpsins við svæðisstöðvar er í senn eðlilegur og nauðsynlegur, enda sé þar um að ræða það óháða fjöldaútvarp sem Alþb. mælir fyrir en ekki gróðafyrirtæki einkaaðila.

Herra forseti. Ég mun þá víkja að till. okkar um að dreifikerfi útvarpsstöðva verði í opinberri eigu. Það er sannast sagna furðulegt að stjórnarflokkunum skuli koma til hugar að ganga fram hjá svo mikilsverðu atriði sem er eignarhald og önnur atriði sem tengjast dreifikerfum útvarps. Á öðrum Norðurlöndum fer nú fram víðtæk umr. um þessi mál einnig innan þjóðþinga. En munurinn er sá að þar ætla menn sér tíma til að átta sig á viðfangsefnum hinnar nýju upplýsingaaldar og standa að markvissum tilraunum undir eftirliti ríkisins til að safna reynslu og skapa grundvöll fyrir vitrænni löggjöf.

Hér er hins vegar byrjað á öfugum enda. Í fróðlegri samantekt, sem Björn Friðfinnsson tók saman um boðveitur og ný viðhorf í boðmiðlun í febrúarmánuði 1983 á vegum Sambands ísl. sveitarfélaga, er að finna mikinn fróðleik um stöðu þessara mála sem er í mjög örri þróun. Grein sína ritar Björn eftir að hafa setið fund á vegum Nordisk dataunion sem naut stuðnings frá Norrænu menningarmálaskrifstofunni. Ég mun hér aðeins vitna í stuttan kafla í þessari fróðlegu samantekt Björns Friðfinnssonar varðandi viðhorf, sem fram komu á umræddum fundi, til þess hver eigi að eiga svonefndar boðveitur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Menn voru almennt sammála um að breytingum á einkarétti Pósts og síma í þá átt að leyfa öðrum aðilum uppsetningu boðveitukerfa yrði að fylgja það skilyrði að haldið verði við hina svokölluðu „common carrier“ reglu, þ.e. þá meginreglu í fjarskiptum Pósts og síma að allir hafi jafnan aðgang að þjónustunni án tillits til þess hvort menn rita heimskuleg bréf eða nota ljótt orðbragð. Leyfisveitingu verði að binda þessu grundvallarskilyrði auk ýmissa tæknilegra skilyrða til þess að tryggja samræmingu og sem víðtækust not af kerfinu. Hægt er að búa þannig um hnútana við leyfisveitingar til einkaaðila, en hver sá sem kemur upp kapalkerfi hefur í raun fengið forgangsrétt á því svæði er kapalkerfið nær til og til langs tíma um ýmiss konar boðmiðlun.

Á fundinum var líka rætt um það sem meginstefnu, er byggir á framangreindri „common carrier“ reglu, að óæskilegt sé að eigendur kapalkerfa séu jafnframt framleiðendur eða seljendur dagskrárefnis. Í grein, sem höfundur þessarar skýrslu ritaði í 6. tölublað Sveitarstjórnarmála 1982 og nefndi „Boðveitur sveitarfélaga“, er vakin athygli á því að þótt löggjöf um fjarskipti hér á landi verði breytt á þann veg að einkaréttur Landssíma Íslands verði afnuminn, þá hafi lagning kapalkerfa á vegum einkaaðila þann ókost að kerfin verði ósamstæð og tæknilegar kröfur til þeirra verði með ýmsu móti.“

Þetta var tilvitnun í greinargerð frá Birni Friðfinnssyni en hann hallast að því að lagning boðveitna gæti vel hentað sem verkefni fyrir sveitarfélög og einkum þá í þéttbýli á sama hátt t.d. og rafveitur, vatnsveitur, og hitaveitur. Slíkt kemur að mínu mati vel til álita, en nauðsynlegt er að náið samráð sé um þessi efni milli yfirstjórnar Pósts og síma og sveitarfélaga.

Í till. okkar Alþb.-manna er gert ráð fyrir því að lagaramminn kveði á um opinbera eigu, en undir því orðalagi geta í senn rúmast sveitarfélög og stofnanir ríkisins. Reynslan yrði síðan að skera úr um hvernig verkaskipting yrði æskilegust milli þessara aðila og nánari ákvæði að koma í reglugerð.

Ég hef þá gert grein fyrir brtt. á þskj. 516 nema undir tölul. 9 og ákvæði til bráðabirgða. Í brtt. undir tölul. 9, sem er við 14. gr., er gert ráð fyrir að komi ný málsgr. þannig:

„Útvarpsráð skal beita sér fyrir reglubundnum könnunum á því hvernig hlustað er á hljóðvarp og horft á sjónvarp, jafnt varðandi Ríkisútvarpið sem og aðrar útvarpsstöðvar er leyfi fá skv. 3. gr.

Hér er um að ræða mjög mikilsvert atriði sem nauðsynlegt er að hafi lagagrundvöll að okkar mati í Alþb. og til þess að tryggja að það tímabil, sem væntanlega fer í hönd með útvarpsstöðvum utan Ríkisútvarpsins, verði markvisst notað og hægt verði að líta á það í raun sem eins konar tilraunatímabil fram að þeim tíma sem gert er ráð fyrir endurskoðun laganna og að sem fyllstar upplýsingar fáist á þessum tíma m.a. með reglubundnum könnunum, eins og hér er lagt til.

Í ákvæði til bráðabirgða gerum við ráð fyrir að inn verði tekið sem nýtt ákvæði umfram það sem er í frv. að engin ný leyfi til útvarpsrekstrar taki gildi fyrr en frá og með 1. janúar 1986 hið fyrsta, þ.e. að það skapist svigrúm frá því að Alþingi gengur frá löggjöf um þessi efni þar til nýjar útvarpsstöðvar fengju leyfi til starfsemi. Þetta ætti að vera svo sjálfsagt atriði að vart þyrfti um að fjalla eða rökstyðja í löngu máli. Það mun ég heldur ekki gera. Það er eðlilegt að aðilar, sem hyggja á útvarpsrekstur, hafi svigrúm og það gangi þar nokkuð eitt yfir alla og það verði ekki eingöngu t.d. fjársterkir aðilar, sem hafa þegar undirbúið þátttöku í útvarpsrekstri, sem þarna komi við sögu heldur einnig og enn frekar aðrir þannig að nauðsynleg fjölbreytni verði þarna á ferðinni.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu ákvæði til bráðabirgða að kosin verði sérstök nefnd af Alþingi ekki síðar en haustið 1987 til að vinna að endurskoðun laganna, en skv. frv. er gert ráð fyrir endurskoðun þeirra innan þriggja ára frá lagasetningunni.

Ég ætla þá að víkja hér aðeins að fáeinum atriðum í brtt. annarra sem skilað hafa áliti við þetta frv., en takmarka mig þar við örfá atriði. Ég vík fyrst að brtt. frá meiri hl. menntmn., hef að vísu þegar nefnt ýmis atriði sem tengjast þeim um leið og ég hef gert grein fyrir brtt. mínum. En ég vil sérstaklega vekja athygli hér á einum þremur atriðum sem meiri hl. gerir till. um og það þá fyrst sem varðar 2. gr., 3. mgr., þ.e. undir tölul. 2. í brtt. meiri hl., en þar segir:

„Útvarpsréttarnefnd skipa sjö menn. Skulu þeir, ásamt jafnmörgum varamönnum, kosnir hlutfallskosningu á Alþingi til fjögurra ára.“

Þetta er breyting sem fram kemur í þessu frá frv. sem gerir ráð fyrir því að menn í útvarpsréttarnefnd verði kosnir hlutfallskosningu á Alþingi eftir hverjar alþingiskosningar. Það er sú regla sem gert er ráð fyrir skv. frv. Við það eru engar brtt. gerðar af meiri hl. menntmn. að útvarpsráð verði kosið eftir hverjar alþingiskosningar svo að hér skýtur skökku við. Hér á ekki hið sama að gilda um útvarpsréttarnefnd. Sætir það vissulega nokkrum tíðindum að meiri hl. menntmn. skuli standa að slíkri till.

Í ákvæði til bráðabirgða skv. till. meiri hl. menntmn. er einnig gert ráð fyrir því og alveg sérstaklega tekið fram að sú útvarpsréttarnefnd, sem kosin yrði að settum lögum, skuli sitja fram á árið 1989. Ég tel að Alþingi verði í rauninni að velja á milli annars tveggja, að útvarpsréttarnefnd og útvarpsráð sé kosið að loknum einhverjum alþingiskosningum og það er sú tilhögun sem ég hef gert hér till. um. En vissulega kæmi hitt til greina, að báðar þessar nefndir eða ráð séu kosin til fjögurra ára í senn. En afar óeðlilegt og fráleitt er að vera að gera þarna greinarmun á.

Í þessu sambandi kemst ég ekki hjá að rifja upp breytingu á útvarpslögum sem gerð var að tilhlutan sams konar hægri helmingaskiptastjórnar Sjálfstfl. og Framsfl. á öndverðu ári 1975. Þá varð sú eina breyting gerð á úfvarpslögum frá 1971 að kosning í útvarpsráð, kosning aðalmanna og varamanna, skuli verða eftir hverjar alþingiskosningar. En með setningu nýrra útvarpslaga nr. 19/1971, þeirra sem að meginstofni eru í gildi óbreytt frá þeim tíma, var gert ráð fyrir að útvarpsráð yrði kosið til fjögurra ára. Þessi breyting, sem ekki virðist stórvægileg og gerð var á útvarpslögum í febr. 1975, varð tilefni mikilla umr. hér á Alþingi, enda málatilbúnaður allur hinn kyndugasti.

Ég veit að þeir hv. alþm., sem sátu á þingi á þessum tíma, muna eftir þessari umr. og tilefni hennar og ég ætla ekki að fara langt út í þessa sálma. Ástæðan var sú að einn fulltrúi í útvarpsráði á þessum tíma var ekki lengur stuðningsmaður viðkomandi stjórnarflokka. Eitt ár var eftir af kjörtímabili útvarpsráðs og það var talin svo brýn nauðsyn af stjórnarflokkunum að fá þennan fulltrúa út úr ráðinu að það varð tilefni sérstakrar lagasetningar og kúvendingar frá þeirri stefnu sem tekin hafði verið, ég hygg að allvel skoðuðu máli, þegar ný útvarpslög voru sett 1971. Mættum við kannske eiga von á einhverju slíku í brtt. varðandi útvarpsréttarnefndina ef veður skipuðust í lofti varðandi fulltrúa sem í hana væru kosnir af núverandi ríkisstjórnarmeirihluta? (HBl: Er ekki rétt að halda því opnu?) Ég tel rétt að lágmarks samræmis sé gætt í þessu efni, hv. þm. Halldór Blöndal, þó að ég sé við öllu búinn frá þér og þínum skoðanabræðrum í þessum efnum. Þá munaði ekkert um að efna til sérstakrar lagabreytingar vegna eins manns sem ekki réð þó neinum meiri hl. í útvarpsráði árið 1975 því að hann var tryggður eftir sem áður. Þetta var einn þátturinn í till. meiri hl. sem ég taldi rétt að vekja sérstaka athygli á og vænti þess að menn hlaupi nú ekki til að fylgja eftir þessari till. Það teldi ég Alþingi til lítils sóma.

Þá vil ég nefna brtt. meiri hl. við 3. gr. þar sem gert er ráð fyrir að breyting verði á frv. frá því horfi sem þar er ákveðið, að útvarpsréttarnefnd geti veitt sveitarfélögum og félögum, sem til þess eru stofnuð, tímabundið leyfi til útvarps fyrir almenning á afmörkuðum svæðum. Hér er gerð till. af meiri hl. um að út verði tekið „félögum, sem til þess eru stofnuð“ og sett „og öðrum lögaðilum“. Skv. þessari brtt. getur hvaða fyrirtæki sem er sótt um leyfi til útvarpsrekstrar, hvaða lögaðili sem er. Hlutafélagið Árvakur t.d. gæti sent inn slíkt leyfi. Ég er ekki að spá því, þar sem það hefur nú komið ár sinni fyrir borð innan samsteypunnar Ísfilm, en ég nefni þetta aðeins sem dæmi. Hvaða viðskipta- og verslunarfyrirtæki sem er gæti sótt um slíkt leyfi. Ég spyr: Hvernig líst hv. alþm. á að fara að opna fyrir slíkt skv. lögum að fjárreiður í sambandi við útvarpsreksturinn væru ekki skýrt aðgreindar heldur einhvers staðar inni í ársreikningum og bókhaldi hvaða verslunarfyrirtækis eða viðskiptafyrirtækis sem er? Ég vara mjög við lagasetningu af þessu tagi og breytingu frá frv. og vona að til hennar komi ekki, að hún fái hér ekki meirihlutastuðning.

Þá vek ég athygli á tölul. 6 í brtt. meiri hl. við 7. gr. Niðurlag hennar, síðasta mgr., er þannig: „Útvarpsréttarnefnd getur afturkallað leyfi til útvarps séu reglur brotnar,“ — og meiri hl. menntmn. bætir við: „enda sé um alvarleg og ítrekuð brot að ræða.“ Það á ekki að vera í frjálsu mati útvarpsréttarnefndar hvort aðili, sem leyfi hefur fengið, teljist hafa brotið gegn því þannig að ástæða sé til að svipta viðkomandi leyfi, heldur skal sá varnagli sleginn í lögum að um alvarleg og ítrekuð brot sé að ræða. Skulu svo hv. alþm. velta því fyrir sér hvaða möguleika útvarpsréttarnefnd í rauninni hefur til að svipta aðila útvarpsrekstrarleyfi sem veitt hefur verið með svo teygjanlegu orðalagi en þó ákvarðandi í lögum.

Það eru vissulega mörg önnur atriði í till. meiri hl. sem ég hefði talið ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við. Talsmaður meiri hl., hv. þm. Halldór Blöndal, gat þess sérstaklega í sambandi við eitt eða tvö atriði í framsöguræðu sinni að engar athugasemdir hefðu verið gerðar við þetta og þetta innan menntmn. Mátti skilja á því að hann væri að koma því að að menn væru þar með að samþykkja eða leggja blessun yfir viðkomandi till. Ég gat þess hér í upphafi máls míns á mánudag að tillögur meiri hl. komu ekki fram fyrr en fyrir hálfum mánuði í menntmn. Þá fyrst birtust þessar tillögur. Svigrúmið til að fjalla um þær og áhuginn á því að um þær yrði fjallað efnislega var enginn af hálfu meiri hl. nefndarinnar, það skyldi bara út úr nefndinni með málið. Það var engin viðleitni til að samræma þar sjónarmið, enda býst ég við að það hefði orðið nokkuð torvelt. En það hefði vafalaust tekist um ýmis atriði ef í það hefði verið lögð vinna. En upp á atriði, eins og þarna var tilvitnað af hv. þm. Halldóri Blöndal, m.a. varðandi stjórnarfyrirkomulag á Menningarsjóði útvarpsstöðva, var ekki skrifað með einum eða öðrum hætti af mér t.d. innan menntmn. Ég hygg að svipað gildi um aðra sem minnihlutaálitum hafa skilað, en þeir gera að sjálfsögðu grein fyrir slíkum þáttum.

Ég þarf vart að taka það fram að ákvæði, eins og í ákvæði til bráðabirgða hjá meiri hl. menntmn. um að lögfesta rekstur útvarps á vegum bandaríska hernámsliðsins hér, erum við Alþb.-menn ekki líklegir til að veita stuðning hér á Alþingi. Það er kapítuli út af fyrir sig, sem ég ætla ekki að fjölyrða um hér að sinni, að komin er till. um þetta efni, ekki aðeins frá meiri hl. heldur líka frá 3. minni hl. nefndarinnar, hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni.

Varðandi álit og till. frá 1. minni hl. hef ég þegar gert þau atriði að umtalsefni sem ég tel þörf á á þessu stigi mála varðandi auglýsingar o. fl. Ég ífreka aðeins að það gætir ekki samræmis í hugmyndafræðinni að öllu leyti í þessari tillögugerð og ekki allt ljóst sem þar er fram sett. T.d. varðandi tölul. 4, sem varðar dreifikerfi útvarpsstöðva, þar sem segir:

„Sveitarstjórnir hafa einkarétt á uppsetningu kapalkerfa, en heimilt skal sveitarstjórn að framselja þennan rétt til einstaklinga eða félaga með samningum.“

Það verður ekki ljóst af þessu orðalagi hvort verið er að lögfesta eignarhald sveitarfélaga á kapalkerfum eða hvort það er bara vinnan, framkvæmdin við uppsetningu, sem þarna er átt við.

Varðandi tillögur 3. minni hl., hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar, vil ég almennt segja að margt í þeim tillögum fer saman við tillögur sem ég stend að og Alþb. Það er engin djúp gjá á milli tillagna frá Alþfl. í mörgum greinum — og raunar að meiri hluta til — og Alþb. þó að engar tilraunir hafi verið gerðar sérstaklega til að hefla þessar tillögur saman af hálfu flokkanna eða fulltrúa þeirra í menntmn. En það er þó eitt atriði sem skilur verulega á milli og það er undir tölul. 12, stafl. d. í 17. gr. eða sem gert er ráð fyrir að verði 17. gr. Þar segir í síðari mgr., með leyfi forseta:

Menntmrn. setur í reglugerð gjaldskrá þar sem kveðið er á um árlegt leyfisgjald fyrir sendistöðvar útvarpsfélaga. Útvarpsfélög, sem reka eigin sendistöð, mega afla sér tekna með birtingu auglýsinga skv. nánari reglum sem úfvarpsréttarnefnd setur.“

Hér skilur á milli. Það er ekki aðeins heimildin til auglýsinga heldur þetta sérkennilega árlega leyfisgjald. Ég á afar erfitt með að sjá rökin fyrir því að hið opinbera fari að rukka inn sérstakt leyfisgjald frá útvarpsleyfishöfum. Ég átta mig ekki á því að það geti talist eðlilegt. Hér er sérstaklega miðað við þær tillögur eins og ég hef lagt þær fyrir af hálfu Alþb. Sama gildir raunar um þá hugmynd, sem sett er fram í tillöguformi, um að félögin setji tryggingu að fjárhæð 5 millj. kr. til tryggingar fyrir ábyrgð félagsins á útsendingum. Þetta eru dálítið sérkennilegir skilmálar miðað við það að ætla að ná dreifðu frumkvæði í þennan rekstur sem ég vænti að sé hugsun fulltrúa Alþfl. að baki hans tillögum.

Þá eru það brtt. frá hv. þm. Friðrik Sophussyni varaformanni Sjálfstfl. sem hér liggja fyrir og eru fyrst og fremst þess eðlis að opna allt upp á gátt varðandi auglýsingar. Ég þarf ekki að eyða frekar orðum að þeim till. Álit mitt á þeim liggur fyrir. En á hinu vek ég aftur athygli að hér er komin fram brtt. við tillögur meiri hl. menntmn. flutt af varaformanni Sjálfstfl. Það boðar að mínu mati ekki mikla festu í því samkomulagi sem birtist í till. meiri hl. að því er stjórnarliða varðar. Ég hef svo sem ekki áhyggjur af því. Ég vona að það verði margir þm. úr þessum flokkum sem átta sig á að sá annar bræðingur er ekki vænlegur til að veita sérstakan stuðning.

Herra forseti. Ég get farið að stytta mál mitt. Ég vil aðeins vekja athygli á því undir lok míns máls með hve ólíkum hætti staðið er að undirbúningi lagasetningar hér annars vegar og á öðrum Norðurlöndum hins vegar. Mér þykir það mjög miður að við undirbúning þessa máls skuli ekki hafa verið horft til nágranna okkar í sambandi við rýmkun á útvarpsrétti. Ég veit ekki hvað hv. þm. hafa kynnt sér þessi efni. Nokkuð er að þessum málum vikið í grg. með frv., en það eru gamlar upplýsingar og úreltar í flestri grein því að þessi mál hafa verið í örri þróun á hinum Norðurlöndunum og tekin allt öðrum tökum en hér er lagt upp með.

Ég vil aðeins nefna dæmi frá Danmörku varðandi stöðuna þar. Þar hefur staðið yfir tilraunatímabil frá því 1. apríl 1983 sem stendur í þrjú ár með svæðisbundið hljóðvarp og sjónvarp. Engin grundvallarbreyting hefur verið gerð á dönsku útvarpslögunum. Yfirlýst markmið með þessu tilraunatímabili, sem lagaheimildar var aflað fyrir, er að afla nauðsynlegrar reynslu til að átta sig á því hvort setja eigi lög er heimili til frambúðar svæðisútvarp utan við danska ríkisútvarpið. Áður höfðu raunar staðið yfir tilraunir í Danmörku í kapalútvarpi á árunum 1974–1977. En þær tilraunir voru ekki taldar gefa fullnægjandi vitneskju til þess að unnt væri að taka málið upp og breyta útvarpslögunum á grundvelli þeirra. Sérstök svæðisútvarpsnefnd starfaði frá því í lok sept. 1981. Hún var sett þá á laggirnar um leið og mótuð var stefna um þetta tilraunatímabil. Henni var ætlað ekki ósvipað verkefni og útvarpsréttarnefnd skv. því frv. sem hér er um að ræða. Veittar voru sex millj. danskra króna — ætli það séu ekki um nálægt 20 millj. íslenskra — til stuðnings tilraunaútvarpi frá danska ríkinu gegn því að sama upphæð fengist frá sveitarfélögum. Það getur verið fróðlegt að koma því hér á framfæri að þessar sex millj. danskra kr. höfðu verið notaðar til fulls 1. júní 1984 og sundurliðuðust þannig: Til stuðnings útvarpsstöðvum sem leyfi höfðu fengið, samtals 43 stöðvum, voru veittar 4.8 millj. danskra króna af þessum sex millj., til útleigu á hljóðvarpsbúnaði hafði verið veitt hálf millj. danskra króna og til hlustendakannana og áhorfendakannana, bæði sem sagt í hljóðvarpi og sjónvarpi, hafði verið varið 700 þús. dönskum krónum. Fjöldi úthlutaðra leyfa þann 1. júní 1984 í Danmörku var 136.

Eins og ég hef áður getið hafa allir vinstri flokkar í Danmörku verið á móti því að heimila auglýsingar í útvarpi utan danska ríkisútvarpsins. Það hefur raunar ekki heldur auglýsingar á sinni dagskrá. Síðast þegar ég frétti var talið fullvíst að nú væri áfram meiri hl. gegn auglýsingum í svæðisútvarpi í Danmörku hvað sem síðar kann að gerast, því að þrýstingurinn frá viðskiptalífinu á þm. þar er gífurlegur að opna fyrir auglýsingar.

Hvernig eru þessi mál í Noregi? Þar stendur yfir á sama hátt og í Danmörku sérstakt tilraunatímabil sem talsvert er eftir af. Það hefur skipst í tvo þætti, hinn fyrri til haustsins 1984 og þá hófst annar þáttur þessa tímabils. Fyrra tímabilið var í rauninni bara til þess að undirbúa það að marktækar athuganir gætu farið fram á seinna skeiðinu. Þessi tilraunarekstur er undir eftirliti þriggja manna nefndar sem á að fylgjast með og meta dagskrárefni og gefa rn. umsögn og tillögur til rn. Yfirlýst markmið í Noregi er sameinað undir einu hugtaki. Hvað ætli það sé? Fjölbreytni. Mangfold. Það er markmiðið. Aukinn plúralismi eins og þeir orða það að láta fleiri spreyta sig, lofa mörgum formum í útvarpi að blómstra.

Svæðisútvarpsnefndin norska lagði á síðasta ári mat á rekstur eða tilraunir 35 leyfishafa í hljóðvarpi og veitt höfðu verið að auki 7 leyfi til sjónvarpsrekstrar. En ég hygg að aðeins tveir aðilar hafi haldið áfram rekstri þegar skýrsla var gefin um þetta efni á síðasta ári, sem sagt ekki allir haldið áfram.

Í Svíþjóð mun vera nýkomið fram eða er að koma fram sérstakt frv. um þessi efni að loknu löngu tilraunatímabili, frv. um svæðisútvarp þar sem ekki er gert ráð fyrir auglýsingum þar sem vinstri flokkar eru sammála um það meginatriði varðandi fjármögnun og einnig hluti af miðflokkum styður þá stefnu, a.m.k. hingað til. Þarna hefur farið fram um lengri tíma tilraunarekstur fjölda stöðva. Alls eru það skv. upplýsingum, sem ég hef úr NT frá 20. febr., 678 aðilar sem hafa tekið þátt í svæðisútvarpi. Þar af eru 32% eða um þriðjungur trúarsamtök af ýmsu tagi. Sama mun raunar uppi á teningnum í Noregi, það eru trúfélög sem eru aðili að mörgum þeim tilraunum sem þar hafa farið fram.

Þetta eru nokkrar ábendingar um það hvernig á þessum málum hefur verið tekið í grannlöndum okkar. Og það væri betur að menn fetuðu í þau spor hér við breytingu á útvarpslögum og ég hefði sannarlega verið reiðubúinn að taka undir slíkar tillögur. Brtt. okkar Alþb.-manna við frv. eru mjög í svipaða átt og fram hefur komið á hinum Norðurlöndunum, að varna því að svæðisútvarp lendi fyrst og fremst í höndunum á fjársterkum aðilum, verði viðfangsefni fjársterkra aðila sem ýta öðrum til hliðar og koma þannig í veg fyrir það sem á að vera meginmarkmið, aukið lýðræði, aukið tjáningarfrelsi, aukin fjölbreytni í útvarpsrekstri. Það er það markmið sem Alþingi Íslendinga ætti að tryggja með endurskoðaðri löggjöf. En því miður eru þær tillögur, sem hér hafa verið kynntar undir merkjum meiri hl. menntmn. og að hluta til í fyrirliggjandi frv., ekki til þess fallnar að þessum markmiðum verði náð. Því er ég andstæðingur mjög margra og veigamikilla þátta í þeim tillögum og hef gert grein fyrir því í máli mínu eftir föngum.