24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

83. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka mönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir að hafa sýnt þessu máli einhvern áhuga og vil ítreka þá ósk mína að frv. verði tekið til efnislegrar umfjöllunar í n.

Hv. þm. Valdimar Indriðason minntist á lög frá 1961. Það hefur enginn lagt til að þau lög verði felld úr gildi, en breytingin á lögunum frá 1964, um oddamann frá Efnahagsstofnun eða Þjóðhagsstofnun, er kjarni þessa máls, að hætt verði afskiptum ríkisvaldsins í gegnum oddamann.

Satt er það að stofnuð var nefnd til að endurskoða lög um Verðlagsráð sjávarútvegsins og ég hef lesið þau drög sem hún skilaði frá sér. Ég er alls ekki frá því að þar sé ýmislegt til bóta. Ég vil þó benda á að það var ekki einhugur í þessari nefnd um oddamanninn. En við förum betur í gegnum það seinna og ég ætla ekki að fara nánar út í efnisatriði nál. hér.

Hv. þm. Björn Dagbjartsson var mjög efins um að þessi breyting hefði bætandi áhrif á ákvörðun um fiskverð og talaði um að Verðjöfnunarsjóður hafi verið notaður til að jafna sveiflur á lífskjörum í landinu. Ég vil beina einni spurningu til hv. þm.: Hvernig er hægt að nota þessa sjóði þegar búið er að tæma þá? Ég veit ekki betur en að það hafi verið ákveðið að 2% úr Verðjöfnunarsjóði deilist jafnt á allar fisktegundir vegna þess að fiskvinnslunum væri ekki ætlandi að standa undir fiskverðsákvörðun 1. febrúar, ef ég man rétt. 1. júní var bætt 4% við. Verðjöfnunarsjóður verður að geta staðið undir þessum auknu útgjöldum. Ég vil líka benda hv. þm. á að í samningum verður engin verðmætaaukning. Þar er verið að semja um skiptingu verðmæta á milli hagsmunaaðila. Þar tel ég að ríkisvaldið hafi enga ástæðu til að grípa inn í.