24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

83. mál, Verðlagsráð sjávarútvegsins

Flm. (Kolbrún Jónsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil benda 6. landsk. þm., Karli Steinari, á að það er ekki verið að leggja til að Verðlagsráðið verði allt lagt niður. Lagt er til að 10. gr. laganna falli út og þá stendur Verðlagsráðið eftir og ekkert annað. Er þá ekki nóg að hafa bara yfirnefndina? Af hverju leggur hv. þm. ekki fram frv. um að það sé ein yfirnefnd og ekkert meir? Hv. þm. talar alltaf eins og það sé verið að leggja allt Verðlagsráðið niður. Ég er eingöngu að leggja til að þeir menn sem sitja í Verðlagsráði semji um lágmarksfiskverð án afskipta ríkisvalds. Og hv. þm. má segja hvað sem er um mig sem 1. flm., að ég hafi ekki vit á því sem þarna er á döfinni. (KSG: Það sagði ég ekki.) Það sagðir þú samt eða allavega skildist mér það á þínum orðum. (Forseti: Við skulum muna eftir að þm. talast ekki við á þennan hátt í umr.) — Einnig minntist hv. þm. á að Húsvíkingar fengju lægra verð fyrir fiskinn. Ég veit ekki betur en að á Húsavík hafi verið greitt yfirverð fyrir fisk til þess að fá bátana heim. Það hafa ýmsar fiskverkunarstöðvar víða um land haft efni á því að borga yfirverð. Það er hv. þm. örugglega kunnugt um. Ég heyrði líka í fyrra að það væri verið að leggja til að Verðlagsráðið yrði lagt niður. Ég vil ekki sætta mig við þá rökfræði.