13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 2. minni hl. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það eru nokkur atriði sem fram hafa komið hér í umr. frá því að ég mælti fyrir mínu nál. sem 2. minni hl. menntmn. sem ég vildi víkja hér að. Þau varða m.a. athugasemdir sem fram hafa komið við mitt mál og brtt. sem ég hef flutt við þetta frv. en auk þess örfá almenn atriði sem ég tel rétt að komi hér enn skýrar fram af minni hálfu í sambandi við þetta útvarpslagafrv.

Það er í fyrsta lagi sú notkun hugtaka sem fram hefur komið, bæði hér í umr. af hálfu einstakra ræðumanna og einnig úti í þjóðfélaginu. þegar rætt er um svokallað frjálst útvarp. Verið er að tala um það að með þessu frv. sé verið að opna fyrir frjálsan útvarpsrekstur og sá rekstur verði ekki frjáls og rísi ekki undir nafni nema heimilað verði óskorað frelsi nýrra svæðisstöðva varðandi auglýsingar til tekjuöflunar. Ég get út af fyrir sig skilið þessa hugtakanotkun hjá þeim flokkum sem hafa það grundvallarsjónarmið að markaðurinn og fjármagnið skuli ráða ferðinni á nánast hvaða sviði sem er. Þar er Sjálfstfl. vissulega fremstur, a.m.k. í orði, þó að það liggi við borð að Bandalag jafnaðarmanna slái hann út þegar kemur til þessa máls sérstaklega og auglýsinganna sem þeir hafa lýst sem alveg sérstöku tæki til upplýsingar og telja sem sagt að öllu leyti að auglýsingar séu af hinu góða og því beri að opna fyrir þær óhindrað.

Hitt er erfiðara að skilja þegar fréttamenn ríkisfjölmiðlanna fara að éta upp þetta hugtak um frjálst útvarp og frjálsan útvarpsrekstur eftir talsmönnum ákveðinna stjórnmálaafla og hefur slíkt gerst mjög ítrekað við þessa umr. Ég get nefnt sem dæmi viðtal sem fór fram í sjónvarpinu þann 15. febr. s.l. þar sem fréttamaður sjónvarpsins tók sér þetta hugtak í munn oftar en einu sinni í því viðtali.

Við hljótum að spyrja þegar farið er að beita slíkum hugtökum: Er ríkisútvarpið okkar ófrjáls fjölmiðill? Líta menn svo til að meginútvarp landsmanna hafi verið ófrjálst og starfi ófrjálst? Það hlýtur að vera andstæðan. Einhver hlýtur andstæðan að vera við hinar svokölluðu blessuðu, frjálsu stöðvar sem hér á að fara að heimila. Ég vara við hugtakanotkun af þessu tagi og ég bendi á að talsmenn auglýsingafrelsisins, óhefts markaðs- og viðskiptafrelsis í sambandi við útvarpsrekstur, nota þetta til að gylla sínar hugmyndir um það að lögmál markaðarins fái að njóta sín óheft og til fulls í útvarpsrekstri.

Það kom mjög skýrt fram hjá hv. 6. þm. Reykv., Ellert Schram, í ræðu sem hann flutti hér á síðasta fundi deildarinnar og einnig hjá hv. 4. þm. Reykv., Birgi Ísl. Gunnarssyni, að þeir teldu að bann við auglýsingum í svæðisútvarpi jafngilti nánast að eyðileggja alla möguleika á slíkum rekstri, jafngilti því að aðrar útvarpsstöðvar en Ríkisútvarpið fengju ekki notið sín. Ég held að hv. þm. Ellert Schram hafi orðað hugsun sína m.a. á þá leið að án verulegra tekna af auglýsingum sé vonlaust að reka útvarp. Hann sagði einnig nokkurn veginn efnislega að ýmislegt í frv. reisi skorður og takmarki samkeppnismöguleika við Ríkisútvarpið.

Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að átta okkur á þessum málflutningi og hvað á bak við hann liggur. Það er sem sagt verið að biðja um það hér og leggja það til með tillögu meiri hl. menntmn. og enn frekar með brtt. varaformanns Sjálfstfl. að farið verði að opna fyrir viðskiptaútvarp hér óheft, að farið verði að líta á það sem samasemmerki á milli þess að opna ljósvakann fyrir öðrum en Ríkisútvarpinu og afnema einkaleyfi þess, að setja samasemmerki á milli þess og fyrirtækjareksturs. Ef það verði ekki heimilað að reka slíkar svæðisstöðvar etir lögmálum markaðarins þá sé þetta einskis vert.

Ég hef fyrr í umr. bent á reynslu nágrannaþjóða okkar í þessum efnum og hvernig þær hafa tekið á þessum málum. Á hinum Norðurlöndunum eru ekki heimilaðar neinar auglýsingar í svæðisstöðvum og raunar ekki ríkisútvarpi þeirra landa nema að einhverju leyti í Finnlandi. Telja menn þó að tilraunin sé ómaksins verð og í takt við tímann. Ég hygg að sænska ríkisstj. sé að leggja fram sérstaki stjfrv. sem byggir á tilraunarekstri með svæðisútvarpi um árabil þar sem ekki er gert ráð fyrir neinum auglýsingum eða tekjuöflun með auglýsingum. Eru þessar grannþjóðir okkar svona þröngsýnar að mati þeirra sem tala um samasemmerki milli auglýsinga í útvarpi og frelsis í útvarpsrekstri eða rýmkunar á einkarétti ríkisútvarps? Að mínu mati er það ekki, heldur eru menn einfaldlega að taka þarna markvisst skref til að auka fjölbreytni án þess að opna fyrir flóðgáttir fjármagnsins í þessum rekstri. Það er sjónarmið út af fyrir sig að líta á útvarpsrekstur sem bisness, sem viðskipti, sem gróðamöguleika. En það er sjónarmið sem ég er andsnúinn og hef varað við fyrr í umr. og geri það enn hér.

Þessi hugmynd, að jafna samkeppnisaðstöðuna við Ríkisútvarpið, eins og hv. þm. Ellert Schram orðaði það, lýsir einmitt inn í þann hugmyndaheim sem þarna er að baki, þ.e. að þessar svæðisstöðvar geti orðið virkur samkeppnisaðili við ríkisfjölmiðilinn og knésett hann eftir lögmálum hinnar óheftu samkeppni. eins og um hana er gjarnan rætt í þessu samhengi. Það er það sem Sjálfstfl. vill fá fram í þessu máli. Hann vill geta opnað hér fyrir Ísfilm fyrst og fremst, fyrir þann fjölmiðil sem íhaldið ásamt forustunni í Sambandi ísl. samvinnufélaga hafa sameinast um og á að verða keppinauturinn við Ríkisútvarpið og er ætlað það hlutverk að knésetja Ríkisútvarpið sem fjölmiðil í útvarpsrekstri hér á þéttbýlissvæðinu a.m.k. til að byrja með. Ég undrast það að þm. Framsfl. skuli ætla sér að taka þátt í þeim leik með þeim hætti sem lagt er til i till. meiri hl. menntmn., þ.e. að heimila — að því marki sem þar er — auglýsingar í svæðisstöðvum.

Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, 5. þm. Vestf., leiddi raunar nánast hjá sér að ræða nokkuð um auglýsingaþáttinn. Hann rétt tæpti á því, svo feiminn var hann við þetta. Hann komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri eina færa leiðin, ef ég hef skilið hann rétt og hann afgreiddi tillögur okkar Alþb.-manna um það að auðvelda svæðisstöðvum tekjuöflun með því að skipta afnotagjaldi með Ríkisútvarpinu með útúrsnúningum. Hann sagði að menn gætu auðveldlega gefið upp rangar upplýsingar, villandi upplýsingar og þannig yrði kökunni rangt skipt.

Okkar till. um það að innheimta afnotagjöld sameiginlega þar sem notandinn getur valið úr tiltekna svæðisstöð til viðbótar við Ríkisútvarpið og tryggt þannig tekjuöflun til hennar er ekki hugsuð sem svo að það sé neinni tilviljun háð, heldur merkir viðkomandi notandi einfaldlega við þá stöð sem hann vill að fái fjórða part hugsanlega af heildarafnotagjaldi á móti Ríkisútvarpinu. Það rennur til viðkomandi stöðvar.

En tekjumöguleikarnir eru auðvitað fleiri með frjálsum framlögum og með beinum stuðningsgreiðslum þeirra aðila sem hafa áhuga á að nota sér ljósvakann til að koma sínum hugmyndum á framfæri af hugsjónaástæðum, af hugmyndalegum ástæðum. Það er það sem gerst hefur á Norðurlöndum á undanförnum árum í þeim rekstri sem þar hefur farið fram í „närradio“ eða í svæðisstöðvum. Það er þannig sem fjölbreytnin kemur. það er þannig sem ekki koma upp fjölmiðlarisar á þéttbýlissvæðum sem mylja aðra undir sig eftir lögmálum markaðarins.

Það er þó vissulega fróðlegt að verða var við að það er ekki alveg búið að knésetja Framsfl., ekki gersamlega beygja hann í duftið þó að það sé búið að hálfu leyti í þessu máli. Þeim hnykkir þó aðeins við þegar blekið er ekki þornað undir samkomulagi meiri hl. menntmn. og hér kemur inn í þingið brtt. frá varaformanni Sjálfstfl. sem yfirlýst er síðan af talsmönnum úr menntmn., sem að þessu samkomulagi standa, að þeir muni styðja og það hafi verið gert samkomulag milli forsrh. og menntmrh. þess efnis að það verði óátalið látið. Það hefur þó komið fram frá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni og formanni þingflokksins Páli Péturssyni í þessari umr. að Framsfl. ætli ekki að una því að verða lagður alveg í duftið til viðbótar þeirri hneigingu sem hann hefur gert fyrir markaðsöflunum með samkomulaginu sem fyrir liggur í frv. sjálfu og í till. meiri hl.

Ég tel það fullvíst að það eru ekki aðeins þessi atriði um auglýsingafrelsið sem Sjálfstfl. hefur tryggt inn í þetta meirihlutasamkomulag, þó að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson létist tala með nokkrum fögnuði um brtt. sem ég er nokkurn veginn viss um að hann hefur ekki skrifað undir með glöðum huga. Hann lét þó svo að þar horfðu til bóta atriði eins og að breyta frá texta frv. eins og það liggur nú fyrir varðandi það atriði í upphafi 3. gr., að mig minnir, að eingöngu sérstökum félögum, sem stofnuð eru um útvarpsrekstur, sé heimilt að sækja um leyfi til slíks rekstrar. En brtt. meiri hl. hnígur að því að í staðinn fyrir sérstök útvarpsfélög komi „lögaðilar“. Hvaða lögaðili sem er, Árvakur hf., getur sent inn sína umsókn fyrir útvarp, Frjáls fjölmiðjun hf. getur sótt um slíkt án þess að greina það að nokkru leyti frá sínum almenna rekstri.

Hv. þm. greip til þess ráðs til að rökstyðja hvað það væri mikið snjallræði að gera þessa breytingu frá fyrirliggjandi texta frv. að segja sem svo: Hvernig líst ykkur á ef Alþýðusamband Íslands — og þar var hann raunar að vitna til brtt. BJ — fær ekki samtímis að gefa út fréttabréf og standa að útvarpsrekstri?

Ég vil að það komi fram að ég er þó hlynntur þeim texta sem er í frv. um þessi atriði, tel hann mun frambærilegri en hina óframbærilegu till. meiri hl. vegna þess að það er eðlilegt að þeir aðilar, sem eiga að fylgjast með útvarpsrekstrinum, hvernig leyfin eru notuð, hafi fyrir sér skilgreindan aðila sem eingöngu fáist við viðeigandi rekstur. Í þessu tilviki Alþýðusambands Íslands t.d. liti málið þannig út að það þyrfti að standa að stofnun félags um útvarpsrekstur á sínum vegum. Það tel ég ofur eðlilega tilhögun.

Margar af athugasemdum hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar varðandi brtt. sem ég hef flutt við frv. voru það léttvægar að tæpast er ástæða til að gera þær að umtalsefni. Ég nefni hér bara sem dæmi um misskilning eða útúrsnúning af hálfu þm. þegar hann taldi að í því sjónarmiði, sem fram kemur í brtt. tölusett 1 á þskj. 516 um að sveitarstjórnir á svæðum þar sem stofna skal útvarpsstöð hafi átt kost á að veita um það umsögn til útvarpsréttarnefndar, felist það að við ætlum sveitarstjórnum að hafa neitunarvald um slíkt. Þetta er alger misskilningur eða vísvitandi útúrsnúningur af hálfu þm. Við erum eingöngu að tryggja með þessu atriði að sveitarstjórnum berist vitneskja um það, það sé tryggt með því að það verði skylda að leita umsagnar sveitarstjórna skv. lögunum, að sveitarstjórnir hafi vitneskju um hvað er að gerast á þeirra svæði í þessu efni og hafi möguleika til umsagna þar að lútandi. Við tökum hins vegar ekki undir texta frv. sem mælti svo fyrir um að skilyrði fyrir leyfi til svæðisútvarps væri að sveitarstjórnir á svæðum þar sem stofna skal útvarpsstöð mæli með veitingu leyfis. Þannig var og er textinn í fyrirliggjandi frv. Ég hef ekki tekið undir slíkt skilyrði um samþykki viðkomandi sveitarstjórnar.

Ég hef hér vikið að nokkrum atriðum, herra forseti, og sé ekki ástæðu til að elta ólar við minni háttar athugasemdir sem hafa'komið fram við tillögur Alþb. sem ég hef gert grein fyrir í fyrri ræðu minni. Ég hef hér enn frekar vakið athygli á því hvað felst á bak við tal manna um frjálsan útvarpsrekstur, tal krossriddara viðskiptalífsins sem mæla fyrir slíkum rekstri og sem forstjóravaldið í SÍS hefur tekið saman við í fyrirtækinu Ísfilm. Það virðist vera sem það séu þau sjónarmið og það bandalag sem nær hér inn í sali Alþingis þegar um er að ræða sjónarmið og gerðir þm. Framsfl. í þessu máli, því miður.

Það dregur væntanlega að því að atkvæði verði greidd um einstaka þætti frv. við lok 2. umr. Þá kemur það í ljós hvert fylgi er við till. um það að heimila viðskiptalífinu óheftan aðgang og ítök í auglýsingaútvarpi.

Ég vísa á bug sem blekkingum einum fullyrðingum sem komu fram hér fyrr í umr., bæði frá hv. 4. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. um það að ef ekki kæmu til auglýsingar þá fyrst gætu fjársterkir aðilar farið að skipta sér af slíkum rekstri. Ég spyr: Hafa menn trú á því að þeir sem ganga fyrir gróðasjónarmiðum, sjónarmiðum rekstrarins og hagnaðarins standi lengi í slíkum rekstri sem rekinn væri með tapi út frá viðskiptalegum sjónarmiðum? Það getur verið að það henti einhverjum að reyna að brjótast inn í slíkt rétt fyrir kosningar til þess að koma sínum áróðri á framfæri en ég hef ekki trú á því að kapítalistarnir, sem hv. 6. þm. Reykv. nefndi svo í sinni ræðu, hafi mikinn hug eða úthald til að standa í slíkum tapútvarpsrekstri. Með tali í þessa átt er einungis verið að villa um fyrir mönnum. Ég vænti þess að hv. alþm, varist að stíga þau skref sem lagt er til varðandi auglýsingaútvarp. Niðurstöðunnar í því efni verður vafalaust beðið með eftirvæntingu af mörgum.