13.03.1985
Neðri deild: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3561 í B-deild Alþingistíðinda. (2902)

5. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Ég hlýt að þakka hv. menntmn. þessarar deildar fyrir mjög ítarlega umfjöllun um þetta mál. Það er að vonum, þegar gerð er breyting á fyrirkomulagi starfsemi sem rekin hefur verið í landinu um langan aldur, að menn vilji athuga sinn gang vel og velta fyrir sér hvað breytingar beri í skauti sér. Dæmi um slíkt þekkjum við auðvitað mörg í áranna rás, en engu síður verðum við að bregðast við nýjum möguleikum, nýjum kröfum og veita fólki ný tækifæri til menningar og til fróðleiks og til afþreyingar ef því er að skipta. Allt getur þetta þrennt stundum farið saman sem betur fer.

Aðalatriðið í þessu frv. er að fleiri en Ríkisútvarpið hafi tækifæri til að nota hina nýju og vaxandi tækni til fjölmiðlunar. Menn skilja æ betur að það er ekki ástæða til þess að ríkið sitji eitt að slíkum upplýsingamiðli öllu lengur. Aðgangur fleiri aðila að slíkri starfsemi getur veitt miklu meiri fjölbreytni inn í líf manna en nú er, meiri gleði inn í líf þeirra sem um fátt hafa að velja. eru bundnir e.t.v. á heimilum sínum eða það sem er erfiðara e.t.v. á sjúkrahúsum. Í ýmsum slíkum tilvikum gefur nýtt fyrirkomulag nýja möguleika. nýtt val og færir heiminn fyrir utan hinn þrönga markaða hring nær mönnum sem ekki geta sótt þangað sjálfir. Þess vegna tel ég það vera mjög mikið menningarmál, sem við erum hér að fjalla um, að opna þessar dyr, og það er meginmálið.

Það er í sjálfu sér ekkert einkennilegt að menn greini á um með hvaða hætti þetta skuli gert og það er heldur ekkert einkennilegt að það hljóti að verða málamiðlunarlausn sem Alþingi velur þegar að því kemur að breyta lögum í þessu skyni. En á það er að líta að hér er, eins og fram hefur komið í máli margra ræðumanna að sé í mörgum löndum, um tilraunafyrirkomulag að ræða. Það segir í sjálfu frv. að lögin skuli endurskoðuð ekki síðar en þrem árum eftir gildistöku þeirra og að leyfin. sem fyrst eru veitt, skuli ekki veitt til lengri tíma. Mörg tækifæri gefast því til að læra af reynslunni. Við gætum bæði lært af okkar reynslu og e.t.v. líka annarra og við getum miðlað öðrum okkar reynslu. Svo er t.d. í sambandi við títtnefndar auglýsingar.

Nú er komin upp mjög mikil umræða um það í ýmsum nágrannalöndum okkar, sem ekki hafa rekið auglýsingaútvarp, að hverfa að því ráði að leyfa slíkt. Menn hafa sem sé komist að þeirri niðurstöðu að til þess að tryggja að ýmsar nýjar stöðvar hafi ráð á því að bjóða upp á gott og menningarlegt efni, innlenda framleiðslu þar sem innlendir listamenn koma fram og þurfa auðvitað að fá sína greiðslu fyrir verkefnin, þurfi einhver fjárhagslegur bakhjarl að vera. Tryggingin sem við höfum fyrir því að það séu ekki einungis fyrir fram fjársterkir aðilar sem eru í stakk búnir til að sinna slíku er einmitt möguleikinn til auglýsinga. Ég veit að afstaðan til þessa máls er einstaklingsbundin. Menn hafa misjafna afstöðu til þessa og það er sjálfsagt að menn hafi það og breyti samkvæmt því við afgreiðslu þessa máls. En ég vil láta persónulega skoðun mína koma fram á þessu atriði, að ég tel að það sé um jafnréttismál að ræða að þessi aðferð til fjármögnunar sé heimil. Við getum ekki ætlast til þess að stöðvar bjóði upp á innient framleitt efni, gott efni, nema eitthvert fé sé til til að greiða það. Sé slíkt efni á boðstólum er auðvitað meira hlustað á stöðina. Þarna er um atriði að ræða sem ég tel að horfi til menningarauka. Það er vel hægt að haga þessu svo að þarna sé um afmarkaða auglýsingaþætti að ræða, eins og er hjá Ríkisútvarpinu, þannig að það þurfi ekki að trufla einstakar útsendingar eins og gerist sums staðar í veröldinni.

Um einstök önnur atriði í frv. er það að segja að ég get afar vel fellt mig við það samkomulag sem meiri hl. n. hefur gert. Ég segi ekki að við hefðum ekki mörg getað hugsað okkur eitthvert annað form á sumum þáttum. En ég hygg að það sé alveg sjálfsagt að láta það standa sem samkomulag er um, enda er líklegt að þar sé um niðurstöðu meiri hluta Alþingis að ræða og að það ráði hvernig hið nýja fyrirkomulag verður þegar að þessu verður horfið.

Ég vil að endingu ítreka þakklæti mitt fyrir að mjög vandlega hefur verið um þetta mál fjallað. Mér virðist vera almennur skilningur á því í þinginu að hér sé um að ræða byrjunaraðgerðir. Við ætlum að stíga fyrstu skrefin af nokkurri aðgát. Við ætlum að miða við þrjú ár til að byrja með. Við ætlum að læra af reynslunni. Það held ég að verði til góðs. Það hefur þótt sjálfsagt í mörgum löndum Evrópu að veita mikinn fjölda útvarpsleyfa. Í ljós kemur að þær stöðvar skera sig fljótlega úr sem lifa og verða sterkar og með góðri dagskrá. Ég hygg að sú verði raunin hér þó að það leiði að sjálfsögðu af fámenninu hér að það verður ekki um eins mikinn fjölda að ræða og t.d. í Noregi og Danmörku, en þar þykja þessar ráðstafanir sjálfsagðar.

Ég hygg, herra forseti, að að lokinni þeirri ítarlegu umfjöllun sem málið hefur hlotið í deildinni sé ekki ástæða til þess að ég fjalli um einstakar brtt. málsins að öðru leyti en því að ég tek undir það sem meiri hl. hv. menntmn. hefur lagt til.