20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3705 í B-deild Alþingistíðinda. (3038)

98. mál, sóknargjöld

Frsm. meiri hl. (Haraldur Ólafsson):

Virðulegi forseti. Í máli hæstv. fjmrh. komu fram nokkrar athugasemdir við þetta frv. til l. um sóknargjöld. Hlýtur það að koma nokkuð á óvart að þær komu ekki fram fyrr en við 2. umr. þessa máls, einkum og sér í lagi þar sem skattasérfræðingur rn. hefur komið á fund nefndarinnar og auk þess verið leitað hjá honum upplýsinga og óskað eftir athugasemdum. Og reyndar hafa sumar þær athugasemdir sem hann gerði verið ræddar í nefndinni. En ég held að það verði að fá meira ráðrúm til að athuga þessar athugasemdir áður en tekin er afstaða til þeirra. Ég vil þó aðeins minnast á örfá atriði.

Fyrsta atriðið sem nefnt var er um það að ýmsir aðilar, sem lagt er á útsvar hér, eru ekki búsettir á landinu og ættu þar af leiðandi að vera lausir við að greiða til þjóðkirkjunnar, Háskólasjóðs eða trúfélaga. Ég held að það sé alveg séð fyrir þessu þar sem það er skattstjóri sem leggur þessi gjöld á og ætti að vera í lófa lagið að leiðrétta slíkar álagningar ef af yrði. En það er sjálfsagt að athuga það nánar milli 2. og 3. umr. hvort rétt er að setja eitthvert slíkt ákvæði inn í lögin.

Annað atriði sem nefnt var er um heimildina til lækkunar. Ég get ekki séð neinn ókost við það þó að það komi fyrir á tveim stöðum. Það undirstrikar miklu fremur þann rétt sem sóknarnefndir hafa til þess að fella niður sóknargjöldin.

Um innheimtuaðferðir var talsvert mikið rætt. Meðal annars kom Ásgeir Pétursson bæjarfógeti, formaður Dómarafélagsins, á fund nefndarinnar. Hann taldi einsætt að heppilegasta orðalagið væri það sem kemur fram í brtt. meiri hl. nefndarinnar.

Þar styðjumst við því við aðila sem eru nákunnugir þeim málum.

Í brtt. við 5. gr. er einmitt tekið fram að hækkun umfram 0.4% skuli ekki lenda á þeim sem eru utan þjóðkirkjunnar. Er það í samræmi við athugasemdir hæstv. fjmrh. um það atriði.

Loks var það eitt atriði enn sem minnst var á og það er kannske ástæða til að athuga það nánar. Það er um hinn skamma frest sem er til álagningar. Má vera að vegna þess hve málið hefur dregist í nefnd sé nauðsynlegt að athuga hvort unnt sé að láta lögin taka gildi nú. Eins og er sé ég ekki neitt beinlínis því til fyrirstöðu. En það er sjálfsagt að athuga þetta atriði eins og önnur sem þar voru nefnd.

Svo að vikið sé að öðrum atriðum sem fram hafa komið þá hefur hv. 4. þm. Vestf. komið með ýmis rök gegn hugmyndinni um sérstakt jöfnunargjald. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að kirkjan hafi sem mest ráð á sínum eigin tekjum. M. a. gæti ákvæði um jöfnunarsjóð orðið til þess að ýmsar kirkjur mundu greiða talsvert mikið til annarra. En flestir söfnuðir eru nú þannig staddir að þeim veitir ekki af þeim tekjum sem kirkjan aflar. Ég held að það væri ákaflega vafasamt að taka upp slíkt kerfi og gæti valdið ýmsum ófyrirséðum leiðindum í samskiptum sóknar og kirkju. Hins vegar eru það ákvæðin um héraðssjóði. Ég er alveg sammála hv. 2. þm. Austurl. um að þar er merkilegt nýmæli. Og ég er viss um að það á eftir að verða mikil lyftistöng kirkjulegu starfi.

Ég vil ekki gera neina tillögu um það að atkvgr. verði frestað en mun leggja kapp á að milli 2. og 3. umr. verði rækilega athugaðar þær athugasemdir sem komið hafa fram og kannað hvort hér sé ekki einungis um tæknileg atriði að ræða sem auðvelt er að leysa eða jafnvel eru leyst í þessu frv. Ég á eftir að kanna það hvort frumvarpsgreinarnar sjá ekki fyrir ýmsu af því sem fram kom í máli hæstv. fjmrh.

Að endingu vil ég aðeins segja það að ég legg mikla áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga. Ég tel að það gæti orðið mikil lyftistöng fyrir kirkjuna og kirkjulegt starf í landinu. Ég hlýt að álíta að kirkjan hafi miklu og mikilvægu hlutverki að gegna og því beri að styðja hana með því að veita henni rýmri fjárráð en hún hefur nú og gefa auk þess söfnuðunum meiri möguleika til að hafa áhrif á kirkjulegt starf með því að taka virkan þátt í ákvörðunum sem varða t. d. hækkun á sóknargjöldum. Það er mál sem heyrir undir söfnuðina vissulega og gegnum sóknarnefndirnar. Ég óttast ekki að þau ákvæði sem hér eru um tvöföldun á sóknargjöldum verði misnotuð. Ég held miklu fremur að þau verði aðeins notuð í vissum tilfellum þegar raunveruleg þörf er á og söfnuðirnir eru sammála um að svo skuli gert.