20.03.1985
Efri deild: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3706 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

98. mál, sóknargjöld

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil geta þess að frv. þetta var lagt fram á síðasta þingi og dagaði uppi í nefnd. Þá var Árni Kolbeinsson skrifstofustjóri fjmrn. kallaður á fund nefndarinnar og Lagði fram þau minnisatriði sem ég hef nú kynnt við þessar umr. En þegar frv. er nú tekið upp að nýju og er komið á afgreiðslustig, þá er það sem ráðuneytisstjórinn í fjmrn. tekur eftir því, ég hefði kannske átt að taka eftir því sjálfur hér við 1. umr. að ekkert af þeim athugasemdum hafði verið tekið til greina. Ég held að allir séu sammála um það að hæfari fagmaður í skattamálum almennt en Árni Kolbeinsson er vandfundinn. Þetta segi ég af því gefna tilefni að hér er vitnað í formann Dómarafélagsins, sem er líka ágætur og hæfur starfsmaður, en er starfandi sem innheimtumaður ríkissjóðs skv. þeim lögum sem fjmrn. verður að sjálfsögðu að fara eftir og reglugerðum sem það setur þar um. Það hefði nú verið betra að vitna í Árna Kolbeinsson beint í sambandi við málsmeðferð að þessu sinni.

En það sem ég ætlaði að láta koma fram hér í fyrri ræðu minni, en mér var bent á að ég hefði líklega gleymt, er það að ég legg þessar athugasemdir fram eins og ég kynnti við 1. umr. eða á síðasta fundi að ég mundi gera, til þess að nefndarmenn gætu fengið þær til athugunar á milli 2. og 3. umr. Og ég óska eftir því að sú till., sem hv. 4. þm. Vestf. gerði hér í þessa átt, verði tekin til greina. En ég sé ekki ástæðu til þess að fara að tefja afgreiðslu 2. umr. vegna þess arna. Það er ekki minn vilji eða ætlan að tefja fyrir framgangi þessa máls.