12.10.1984
Sameinað þing: 4. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

Skýrsla ríkisstjórnarinnar um kjaradeilurnar

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Bandalag jafnaðannanna lagði til á seinasta þingi að tekið yrði upp beint útvarp frá Alþingi. Það er hart að íslensk þjóð skuli ekki eiga þess kost að fylgjast með þessum umr. nú og þá kannske sérstaklega þeim umr. sem hér fóru fram í gærkvöldi. Hér er verið að ræða mikilvægari mál en nokkru sinni fyrr á stuttri ævi þessarar ríkisstj. Við ræðum hér um skýrslu forsrh. um launadeilur og kjaramál. Þessi skýrsla er tilkomin vegna mjög alvarlegs ástands sem nú ríkir með íslenskri þjóð. Hver er uppruni þessa ástands, þ.e. þessa verkfalls og yfirvofandi verkfalla jafnvel, sem við nú upplifum? Hvað er hér um að vera í raun og veru?

Íslenskt launafólk hefur einfaldlega krafist endurgreiðslna þeirra peninga sem stjórnin tók að láni af launum þess í fyrra. Og hver eru svör ráðamanna? „Það er ekki hægt. Við erum búnir að eyða þessum peningum.“ Þeir hafa ekkert skapað. Það hefur ekkert áunnist. Og það er helst á ráðamönnum að heyra að eina úrræðið þessa dagana sé jafnvel og lækka launin eina ferðina enn.

Landsmenn horfa nú með hryllingi á þann árangur sem sést eftir ríkisstj. að loknu 15 mánaða starfi. Þessi árangur birtist í því að mæld verðbólga er í fyrsta sinn í sögu þessarar þjóðar í langan tíma reyndar ekki nema 15%. En þrjú önnur atriði þessa árangurs verður líka að nefna. Þau eru þess eðlis að það er ekki hægt að horfa fram hjá þeim.

Viðskiptahallinn er tvisvar sinnum hærri en í fyrra. Þjóðin skuldar 2 af hverjum 3 kr. sem hún aflar og það er fullyrt að ekkert svigrúm sé til launahækkana. Síðan koma þeir forsrh. Steingrímur og Þorsteinn og segja að þennan árangur beri að varðveita. Hvaða árangur ætla þeir að varðveita? Halda Steingrímur og Þorsteinn að fólk sé svo bláeygt að það trúi því enn að ekki sé um aðra kosti í stöðunni að ræða en hag heimilanna í skiptum fyrir hag þjóðarbúsins? Halda þeir virkilega að fólk trúi því að þetta ástand sé óumflýjanlegt? Eru mennirnir virkilega að halda því fram að stjórnvöld séu nákvæmlega til einskis gagns? Á fólk að trúa því? Halda þeir að fólk sjái ekki orðið að þessi stjórn er ekkert öðruvísi en ríkisstjórnir fyrri ára, þótt hún sé verri? Hún er ekkert öðruvísi því hún gerir lítið og getur lítið. Hver er munurinn í hugum Steingríms og Þorsteins á íslenskri fjölskyldu og íslenskri þjóð? Hvaða þjóðarhag eru Þorsteinn og Steingrímur að vernda þegar stór hluti íslenskra fjölskyldna eru gjaldþrota? Hvað á að kalla það fólk sem stendur frammi fyrir gjaldþroti? Eru það ekki Íslendingar? Er það ekki íslensk þjóð? Bera ekki stjórnvöld ábyrgð á sínum gerðum? Bera ekki stjórnvöld ábyrgð á því að framfylgja þeim markmiðum sem þetta þjóðfélag hefur sett sér og starfað að frá tilkomu lýðveldisins?

Hlutskipti launþega í dag er ekki þeim að kenna. Það er ekki þeim að kenna heldur stjórnvöldum. Þjóðin hefur ekki setið aðgerðarlaus í 11/2 ár, heldur stjórnvöld. Nei, þjóðin hefur ekki setið aðgerðarlaus. Aldrei hefur þessi þjóð þurft að leggja harðar að sér til að standa undir þeim kostnaði sem henni er gert að standa undir. Sá kostnaður sem hér um ræðir er í grófum dráttum þríþættur. Það er í fyrsta lagi dagleg neysla fjölskyldunnar, það er í öðru lagi fjárfesting fjölskyldunnar og það er í þriðja lagi opinber gjöld þessarar sömu fjölskyldu.

Venjuleg fjölskylda getur dregið úr daglegri neyslu sinni niður að vissu marki, það er rétt. En það er og hefur verið lengi að því stefnt hér á landi af öllum stjórnmálaflokkum að fólk eigi sitt húsnæði og því fær fólk ekki hjá því komist að fjárfesta í eigin húsnæði. M.ö.o ., það eru útgjöld sem ekki verða umflúin. En íslensk stjórnvöld hafa nú sem fyrr brugðist hlutverki sínu í þessum efnum, e.t.v. enn frekar en öðrum.

Það er æviverk að koma yfir sig þaki, en fólk á ekki að þurfa að fórna ævi sinni til þess. Nei, fólk á að hafa ævi sína fyrir sér til að sinna því verkefni með eðlilegri vinnu. Þetta þýðir á mannamáli að húsnæðislán eiga að vera há, löng og með lágum vöxtum. Einfaldur sannleikur. Ég nefni þetta hér í umr. um kjaramál vegna þess að það er sýnilegt að þótt laun fólks með 20–30 þús. kr. á mánuði yrðu hækkuð um 100% í dag, þá réði 4–5 manna fjölskylda ekki við þau lán sem hún þyrfti til húsbyggingar á þeim kjörum sem nú bjóðast. Ég bið menn að minnast þess að 60% húsvirðisins verður þessi fjölskylda að taka að láni í bankakerfinu með verðtryggingu + 10-15% vöxtum. Vextirnir eru að vísu frádráttarbærir til skatts, en verðtryggingunni verður að vinna fyrir og þau laun eru skattlögð og þeirra launa verður að afla með síaukinni vinnu, þegar launin lækka en hækka ekki. Þetta fólk stendur ráðþrota í dag, því 30% meðaltalshækkun dugar því ekki. Það er því miður orðið þannig í dag að 15 þús. kr. laun eru ekki lág laun. Það eru engin laun. 25 þús. kr. laun eru lág laun.

1. þm. Suðurl., það er þessi sem hellir í glösin hjá Steingrími, segir: Engin lög vegna kjarasamninga. (Gripið fram í: Er hann ekki háttvirtur, 1. þm. Suðurl.?) (Gripið fram í: Það væri vel.) Þakka þér fyrir, herra varaforseti, háttvirtur. Gott og vel. Stjórnvöld eiga ekki að skipta sér af frjálsum samningum. En ófrjálst fólk gerir ekki frjálsa samninga nema að nafninu til. stjórnin hefur með aðgerðarleysi sínu rænt íslenskt launafólk frelsi sínu. Það þýðir ekkert að segja að allir skuli eiga rétt á eigin húsnæði og taka síðan launin af fólkinu og gera ekkert til að laga aðstæður þess að breyttum launakjörum. Samningar um laun eru ómarktækir á meðan þessum málum er ekki komið í það horf sem þekkist í nágrannalöndum okkar og það strax.

Tekjusköttum var ætlað að jafna kjör fólks, þ.e. færa frá þeim sem betur mega sín til þeirra verst settu. Því miður er þessi skattlagning orðin að tákni misréttis í þessu landi. Lífskjör fólks eru í beinum tengslum við möguleika þess að komast hjá tekjuskatti. Þess vegna styðjum við hjá Bandalagi jafnaðarmanna afnám tekjuskatts. Og ég á við algert afnám. Menn skulu athuga að það launabil sem nú er að finna í kjarasamningum, þ.e. sá mikli munur á hæstu og lægstu laununum, er ekki eingöngu til komið vegna mismunandi verðleika þess sem hæst er og lægst er launaður, heldur vegna þess að þetta mikla launabil hjálpar til að vega upp á móti áhrifum tekjuskattsinnheimtunnar. Tekjuskatturinn, sem notaður er til útjöfnunar, gerir það að verkum að útborguð laun að frádregnum gjöldum eru ekki eins mismunandi að upphæð eins og tölurnar í kjarasamningunum segja til um. Ef einhverjir skilja ekki hvað ég á við, þá á ég við það að maður sem hefur 80 þús. kr. í laun greiðir um 50 þús. kr. í skatt á mánuði, en maður sem hefur 20 þús. kr. í laun greiðir um 10 þús. kr. í skatt á mánuði. Munurinn á 20 og 80 þús. er 60 þús. en munurinn á 10 og 30 þús. er ekki nema 20 þús. Ef menn nú horfa á þetta sem peningastærðir en ekki sem prósentustærðir held ég að menn átti sig á því hvað ég er hér um að tala. Ég er að benda hér á það að afnám tekjuskatts, og þá á ég aftur við það sem ég sagði áðan, algert afnám tekjuskatts, kemur til með að hafa mjög mikil áhrif á launaþrep í samningum.

Eins og ég sagði áðan, þá mismunar tekjuskatturinn fólki vegna mismunandi möguleika þess til að komast hjá því að greiða hann. Og hann refsar fólki, t.d. því fólki sem verður að leggja á sig ómælda illa launaða vinnu til að standa undir verðtryggðri lánabyrði. Þetta er sérstaklega óréttlát refsing ef horft er til þess að meðferð verðtryggingarmála hér á landi eða verðtryggðra fjármuna er röng og ekki í samræmi við alþjóðlega venju. Ég kem að því síðar á þessu þingi.

Ég held að ég viti nokkurn veginn hvað sumir eru farnir að hugsa hér inni í þessum sal: Þarna er þeim rétt lýst, þessum stjórnarandstöðuþm. Það er ekki mikill vandi að ausa upp fjármunum og spreða þeim um allar trissur þegar maður er ekki í stjórn. Það er rétt, ég er ekki í stjórn. En ég er löggjafi og sem slíkur get ég reynt að nýta rétt minn til að segja þessari stjórn fyrir verkum. Það vill oft gleymast að það er ríkisstj. sem starfar í umboði þingsins en ekki öfugt. Sem vinnuveitendur ríkisstj. í stjórnarandstöðu munum við í Bandalagi jafnaðarmanna reyna til þrautar á þessu þingi hvort ekki megi stjórna þessu landi í þágu fólksins en ekki gegn því. Það eru til peningar í þessu landi og stjórnkerfi þessa lands er með þeim hætti að stjórnvöld ráða ferð þessara peninga að mjög miklu leyti. Þau ráða þeim gegnum fjárlög. Þau ráða þeim í gegnum lánsfjárlög, lánasjóði, Framkvæmdastofnun, Seðlabanka og ríkisbanka. Ríkisstj. ákveður ekki laun annarra en sinna starfsmanna. En ríkisstj. ræður gangi mikilla fjármuna og gangur þessara fjármuna ræður öllu á þessari stundu um það hvaða laun er hægt að greiða í þessu landi. Ef heilbrigt atvinnulíf skortir fjármagn til að ná þeirri verðmætasköpun að hún leyfi hærri laun, þá er það auðvitað rökleysa að flytja peningana frá launafólki til fyrirtækjanna, þ.e. ef markmiðið er það að greiða fólki hærri laun. Það leysir engin vandamál af því að vandamálið er að fólkið þarf hærri laun. En það eru ekki laun fólks í heilbrigðu atvinnulífi sem skapa glundroða í þessu þjóðfélagi.

Það er oft talað um neðanjarðarhagkerfi. Neðanjarðarhagkerfið er ólöglegt og það er ósiðlegt og það er tákn misréttis. En samt, svo undarlegt sem það má nú virðast, skapar það ekki glundroða í efnahagslegu tilliti. Það er stjórnkerfið sjálft sem skapar glundroða. Ríkisstj. ein ber ábyrgð á því að flytja fjármuni frá arðbæru atvinnulífi til óarðbærra fyrirtækja. Af því skapast glundroðinn í þessu þjóðfélagi.

Herra forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að illt væri að íslensk þjóð fengi ekki að heyra þá umr. sem hér fer fram, en þó sérstaklega ræðu forsrh. og hv. 1. þm. Suðurl. Málefnaleg fátækt þessara háu herra nægði til þess að sýna fólki að þessi ríkisstj. er í raun og veru dauð. Hún hefur ekki lengur neitt til málanna að leggja. Hún getur ekkert gert lengur. Og hvers vegna? Það er einfaldlega vegna þess að hún þorir ekki.

Ég talaði áðan um aðgerðarleysi stjórnvalda. Ég talaði líka um ofstjórn stjórnvalda. Þessi hugtök eru í raun og veru andstæð. En samt sem áður eiga þau við hérna vegna þess að aðgerðarleysi stjórnvalda birtist einkum og sér í lagi í því að hún vill ekki og getur ekki látið af þeirri ofstjórn íslenskra efnahagsmála sem hér hefur ríkt um áratuga skeið og ríkir enn og kemur til með að ríkja enn á meðan þessir gömlu flokkar eru við völd.

Við Íslendingar settum markmið okkar á velferðarríkið í upphafi þessa lýðveldis. Þegar við töluðum um velferðarríki sáum við fyrir okkur heilbrigðisþjónustu, menntaþjónustu, þjónustu við aldraða og þjónustu við alla þá þegna þessa þjóðfélags sem minna mega sín. Við töldum að okkur bæri skylda til að sinna þessum þörfum og þessum markmiðum til þess að uppfylla það sem almennt eru kölluð mannréttindi. Nú þrífst orðið í þessu landi annars konar velferðarríki eða velferðarkerfi. Það er velferðarkerfi fyrirtækjanna, fyrirtækjanna sem ekki lengur fá þrifist öðruvísi en undir verndarvæng arnarins eða valsins eða fálkans eða hvað hann nú heitir, þessi frægi fugl, og undir verndarvæng SÍS. Flokkarnir hafa tekið það á sig að bera ábyrgð á afkomu fyrirtækjanna. Gegn hæfilegu endurgjaldi í flokkslegri fylgispekt.

Það að hagsmunir stjórnmálaflokka tengist náið hagsmunum einhverra aðila í þjóðlífinu er ekkert vítavert í sjálfu sér. Við höfum hér inni á þingi t.d. einn slíkan flokk, sem gegnir mjög skýrum og tærum hagsmunum eins ákveðins hagsmunahóps í þjóðfélaginu, sem er Kvennalistinn. En hagsmunatengsl verða hættuleg, þau verða hættuleg lýðræðinu, sérstaklega í þingræðislandi, þegar hagsmunahringurinn lokast í framkvæmdavaldinu, þ.e. í ríkisstj. og löggjafinn verður að nokkurs konar afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið í samvinnu við hagsmunahópa. Þessir þrýstihópar þurfa ekki að vera nein stórkostleg voldug fyrirtæki úti í bæ. Þeir fyrirfinnast alls staðar. Það sem er aðalatriðið er það, að stjórnkerfið er mjög veikt fyrir þrýstingi utan frá ef sá þrýstingur kemur inn á réttum stöðum.

Ég ætla að minna á lítil lög sem fóru hér mjög hraðbyri í gegnum þing í fyrra með gífurlegum undirtektum nánast allra gömlu flokkanna. Ég minnist þess ekki að margir hafi sett sig upp á móti þeim allavega. Þetta voru lög um kjaradóm yfir opinberum starfsmönnum. Þannig var komið fyrir nokkrum gömlum embættismönnum ríkisins að þeir voru að komast á eftirlaun. Þeir vöknuðu þá allt í einu upp við þá skelfilegu hugsun að þeir mundu lækka líklega um það bil um 60% í launum, vegna þess að meira en helmingur þeirra launa sem þeir höfðu þegið frá ríkinu á starfsævi sinni hafði verið fenginn í ómældri eftirvinnu og risnu. Og eftirlaun taka ekki tillit til slíkra framhjágreiðslna. Þau taka bara tillit til þess launaflokks sem maðurinn var í þegar hann lauk starfi og hann fær að eftirlaunum ákveðinn hundraðshluta þess. Þessu máli varð að bjarga. Og þá var hlaupið til þess manns sem öllu bjargar þegar neyðin er stærst, þ.e. vinur litla mannsins, fjmrh., hins nýyfirlýsta andstæðings kerfisins. Hann hljóp af sér skóna fyrir kerfiskarlana til að koma þessum lögum hér í gegnum þing. Þá var ekki nein andstaða við kerfið á ferðinni.

Þegar svona er komið málum, þá gildir ekki lengur hin gullvæga regla að lög skuli ráða en ekki menn. Og nú er svo komið að þessi hagsmunatengsl sem hér er um að ræða, upp úr og niður úr, þvers og kruss, til hægri eða til vinstri, eru orðin svo lokað kerfi að stjórnmálaflokkarnir gömlu geta ekki lengur stjórnað. Því ætli þeir að reyna að stjórna, þá er barið á fingurna á þeim jafnóðum. Stjórnmálaflokkarnir taka þá þann kost sem vænstur er í þeirri stöðu, þ.e. gera lítið sem ekki neitt. Og síðan kalla þeir það atvinnuöryggi.

Ef núverandi stjórnarstefna væri línulega framlengd, þá er ekkert óralangt í það að mjög stór hluti launþega hér á landi ynni kauplaust til að halda niðri verðbólgu. Það er staðreynd að afkoma heimilanna er verri en hún var fyrir tveimur árum, en þá skömmuðumst við okkar fyrir að nefna íslenskar verðbólgutölur við nágranna okkar í austri eða vestri. Nú eru verðbólgutölurnar reyndar komnar í lag og við getum flíkað þeim hvar sem er. En nú skömmumst við okkar fyrir að nefna það upphátt utan landsteina okkar hvað fólk hefur hér í laun eða hvað það verður að greiða fyrir vöru og þjónustu. Á meðan stjórnvöld ráða ekki fram úr þeim vanda, á meðan stjórnvöld telja sér ekki fært að bjarga þeim málum í það horf að fólk búi hér við það sem kallast getur mannsæmandi kjör, þá hafa þau stjórnvöld ekkert að gera við stjórnvöl þessa lands.