01.04.1985
Efri deild: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4008 í B-deild Alþingistíðinda. (3329)

324. mál, alþjóðasamningar um örugga gáma

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Ég hleyp í skarðið fyrir formann samgn. sem gat ekki komið því við að mæta til fundar í dag.

Til umræðu er frv. um gáma sem allir vita hvað eru og hafa mjög rutt sér til rúms í flutningastarfsemi. Lagt er til í frv. að staðfestar séu alþjóðasamþykktir um þær öryggiskröfur sem gera verður til gáma og varðandi meðhöndlun þeirra. Fer ég ekki frekar út í það.

Samgn. er sammála, eins og kemur fram á þskj. 636, og mælir með því að frv. verði samþykkt með brtt. sem er á sama þskj.

1. gr. orðist svo:

Ráðherra þeim, sem fer með siglingamál, er heimilt að setja reglur til að framfylgja alþjóðasamningi, sem Ísland er aðili að, um gáma.

Í öðru lagi, sem er nokkuð óvanalegt, verði fyrirsögn frv. breytt og hún verði þannig: Frumvarp til laga um framkvæmd alþjóðasamninga um gáma.

Eins og þm. sjá á frv. er undirfyrirsögn: „um framkvæmd alþjóðasamninga um örugga gáma“. Nefndin taldi fara betur á að sleppa orðinu „öruggur“.