16.04.1985
Sameinað þing: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4204 í B-deild Alþingistíðinda. (3557)

343. mál, listiðnaður og iðnhönnun

Fyrirspyrjandi (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. svör hans. Það kom fram að hæstv. menntmrh. hefur nú sett nefndinni það markmið að hún muni skila áliti fyrir 1. ágúst n. k. Er það vel að starf þessarar nefndar skuli nú hafa verið tímasett. Ég tek fyllilega undir þau orð sem hæstv. ráðh. sagði hér áðan um mikilvægi þess að listin tengist iðnaði okkar í eins ríkum mæli og mögulegt er. Við vitum að ýmsar þjóðir — ég nefni Finna t. d. — hafa náð mjög langt á þeirri braut að tengja saman iðnað og list og þar með eflt finnska menningu, veitt finnskum listamönnum tækifæri til að tjá sig og veitt þeim verkefni, auk þess sem það hefur orðið mjög til þess að efla finnskt atvinnulíf og gert Finna að mjög virtri útflutningsþjóð á sviði listræns iðnaðar. Ég treysti hæstv. ráðh. fyllilega til að koma þessu máli í höfn og ítreka þakkir mínar fyrir svörin.