16.04.1985
Sameinað þing: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4236 í B-deild Alþingistíðinda. (3590)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ein ástæða þess að dregist hefur að flytja þessa þáltill. er sú að rannsókn hefur farið fram á því hvort þörf væri sérstakrar lagasetningar á hinum ýmsu sviðum er snerta aðstöðu kvenna og rétt þeirra áður en staðfesting færi fram. Það voru vangaveltur um nokkur atriði í þessu sambandi og voru þau könnuð. En ég leit svo á eftir að mér höfðu verið kynnt þau atriði, að það væri ekki ástæða til að fresta staðfestingu samningsins vegna þeirra og rétt væri að staðfesta samninginn til þess að hann væri grundvöllur okkar til þess að framfylgja jafnrétti kynjanna. Þess vegna er e. t. v. ekki rétt orðað að segja í innganginum: „Ekki er talin þörf frekari lagasetningar né annarra ráðstafana til þess að geta framfylgt samningnum.“ Þótt ekki sé talin þörf frekari lagasetningar kann vissulega að vera þörf annarra ráðstafana. En það sem þarna er átt við er að ekki sé þörf annarra „formlegra“ ráðstafana, en eftir sem áður þurfum við með mismunandi hætti og á mörgum sviðum auðvitað að fylgja eftir og fylgjast með að ákvæði samningsins séu haldin.

Þegar spurt er um einstaka þætti eins og fæðingarorlof eða dagvistunarstofnanir þá kemur auðvitað margt til greina og sjónarmið geta verið mismunandi hvernig þeim málum verður best háttað. Það er í þeim efnum spurning um fjárhagsgetu á hverjum tíma. Það er í þeim efnum spurning um verkaskiptingu milli sveitarfélaga og ríkisins. Það er í þeim efnum einnig spurning um fjármögnun, bæði bygginga og reksturs og þannig mætti lengi telja. Ákvörðun í þessum efnum, afstaða í þessum málum getur verið mismunandi þótt allir virði þennan samning og jöfn réttindi kynjanna. Ég hygg þess vegna að það verði að koma fram í afgreiðslu þessara mála á þingi hvernig við viljum haga úrlausn þeirra á mismunandi sviðum. Og þá er ágætt að hafa sem grundvöll og forsendu framkvæmdar og löggjafar þann samning sem við hér erum að gera till. um að verði staðfestur.

En með því að ósk hefur komið fram um það að umr. væri frestað læt ég máli mínu lokið og þótt ég vildi gjarnan ræða um einstaka þætti þessara mála þá heyra þeir eðli málsins samkvæmt fremur undir einstaka fagráðherra heldur en utanrrh.

Í þeim orðum mínum felst ekki að ég biðjist undan því að taka þessi mál nánar til meðferðar, en ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þessa þáltill. úr því að síðar verður fram haldið umr.