16.04.1985
Sameinað þing: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4243 í B-deild Alþingistíðinda. (3596)

335. mál, frelsi í innflutningi á olíuvörum

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég verð að segja að eftir að ég las grg. með þeirri till., sem hér er til umr., gerði ég mér grein fyrir því að flm. till. virtust ekki hafa fylgst með eða gert sér grein fyrir því hver væri staða þessara mála, svo mjög er rangt með farið í grg., svo mjög er fullyrt skakkt í grg., en þegar ég hlusta svo á hv. 3. þm. Reykn., fyrrv. hæstv. viðskrh., koma hér í ræðustólinn og flytja þá ræðu sem hann flutti áðan keyrði að mínum dómi alveg um þverbak í málflutningi eins og hann birtist, hvort heldur er í grg. eða í þeirri ræðu sem haldin var áðan, og ég er ansi hræddur um að ef ætti að taka hvert atriði, sem á var minnst hér af hv. 1. flm. þessarar till. áðan, og leiðrétta, hvort heldur eru talnalegar vitleysur eða efnislegar fullyrðingar, þá yrði að halda mjög langa ræðu. Ég skal reyna að hafa það sem ég hér segi eins stutt og mögulegt er, en ég vildi strax í upphafi setja þennan fyrirvara.

Hann hóf ræðu sína á því að segja að hann hefði ekki orðið var við að Sjálfstfl. hefði ályktað neitt um frelsi á nýafstöðnum landsfundi í þessum málum, eins og hann orðaði það, og fannst harla skrýtið að viðskrh. úr röðum Sjálfstfl. væri að haga hlutum í samræmi við það sem áður hefur verið gert um áratuga skeið í sambandi við innflutning á olíuvörum og útflutning á sjávarafurðum frá Íslandi. Sjálfstfl. ályktaði um frelsi. Ef hv. þm. hefur ekki gert sér grein fyrir því hver er grundvallarstefna þess flokks er að sjálfsögðu hægt að útvega honum gögn í þeim efnum, en hann m. a. s. ályktar um olíuinnkaup undir vissum kringumstæðum og er þá ekki að ræða um innflutningsverslun, heldur á grundvelli þess að við séum ekki of háðir einum aðila í innflutningi.

Ef við aðeins rekjum þetta mál, þ. e. efni till. á þskj. 533, og þau efnisatriði sem þar við koma, þá er það fyrst að segja að hér hugsa menn sér stjórn landsins með nokkuð óvenjulegum hætti. Við höfum stjórnarskrá sem segir okkur hvaða samkoma það sé sem setji landinu lög sem eftir skuli farið og stjórnað. Sumum hefur stundum fundist vera einum of af því gert að Alþingi afsalaði sér valdi sínu til ráðh. og sagt sé í lögum að þessum málum skuli skipað með reglugerð. Nú er komin ný aðferð. Nú ætlar Alþingi að fara að stjórna landinu með þál. Hér flytur þm. till. til þál. um hvernig skuli háttað olíuinnkaupum í landinu, hvernig skuli háttað útflutningi frá landinu, vék að því áðan í mörgum atriðum, og það skuli þá í framtíðinni óþarfi að breyta lögum, það sé auðvelt að breyta reglugerðum með ályktunum Alþingis og þannig skuli þessu stjórnað. Ég skal ekki fara út í stjórnlagalegar umr. hér, vitna í fræðirit eða neitt slíkt, en mér er til efs að samþykkt á slíkri till. yrði talin með þeim hætti að ríkisstj. eða ráðh. bæri þar að skrifa undir eins og hér er lagt til. Alþingi hefur í vaxandi mæli komið fram skoðunum sínum, vilja sínum, viljayfirlýsingum sínum og ríkisstjórnir reynt að verða við því eftir því sem efni og aðstæður eru fyrir hendi á hverjum tíma, en hér er um að ræða að mínum dómi alveg nýja aðferð til þess að stjórna. Kannske er það frelsið sem hér er lagt til grundvallar. Kannske er það frelsið, sem hv. þm. talaði um áðan og saknaði úr yfirlýsingu Sjálfstfl. á nýafstöðnum landsfundi, sem er grundvöllurinn að því að þessar tillögur eru fluttar.

Þetta vildi ég segja um formið á því, sem við erum hér að fjalla um, hvort breyta eigi til um innflutning á olíuvörum og þá í leiðinni breyta um í sambandi við viðskiptamál því að það er öllum ljóst sem til þekkja að þessum hlutum er hagað svo vegna viðskiptahagsmuna þjóðarinnar allrar.

Þá komum við að því sem till. leggur til, að mér verði falið að breyta reglugerð nr. 172 20. mars 1980. Þessi reglugerð er byggð á lögum nr. 63 frá 31. maí 1979. Hver skyldi nú hafa staðið fyrir lagasetningunni sem reglugerðin er byggð á nema flm. sjálfur? Áður en reglugerð nr. 172 20. mars 1980 var gefin út hafði önnur reglugerð verið í gildi svo til eins að efni til, a. m. k. varðandi liðina 27.09.00, 27.10.19, 27.10.60 og 27.10.70. Hver skyldi svo hafa gefið þá reglugerð út nema 1. flm. þessarar till.? Ekki það að ég sé ekki reiðubúinn til þess að aðstoða flm. við að leiðrétta og lagtæra þær villur sem hann hefur gert á sinni hvort heldur er þingmannstíð eða ráðherratíð. Þó verð ég að segja að hv. þm. bar sem viðskrh. á sínum tíma skylda til að skoða þessa hluti miklum mun betur en mér sýnist að hann hafi þá gert, miðað við það sem er grundvöllurinn að reglugerðinni og löggjöfinni sem sett var.

Hvers vegna breytti ekki hv. þm., þáv. viðskrh. þessum málum? Hvers vegna var reglugerðin gefin út með sama hætti og á sömu forsendum og gert hafði verið allt frá 1953? Vel má vera að það hafi orðið hvati að þessu öllu saman að honum hafi fundist að Sjálfstfl. væri að missa af eða láta falla niður úr sinni stefnuskrá frelsi og það sem því tilheyrir og hann hafi þess vegna talið eðlilegt að Alþfl. og Alþfl.-þm. yrðu að taka það upp og þess vegna flutt þessa till. hér. Ég hef ekki þá trú að sú hafi verið ástæðan. Ég bendi á að það eru ekki liðin mörg ár síðan hv. þm. gegndi ráðherraembætti og gerði það í þó nokkurn tíma og hefði á þessum tíma einmitt getað lagtært allt það sem hann var áðan að segja að væri í ólagi. En hann gerði það ekki. (Gripið fram í: Hann hefði gert það ef hann hefði getað.) Hér er komin skýring, að hann hafi ekki getað það. Nú hefur hann hins vegar borið upp till. og lagt til að aðrir menn gerðu það og að sjálfsögðu treystir hann sjálfstæðismönnum til að gera það. Ég vildi, vegna þess sem þm. úr Alþfl. eru að leggja til að verði breytt, minna á hverjir það voru sem stóðu að þeim hlutum á þeim tíma þannig að ljóst sé að hér er hv. þm. vinsamlegast að fara fram á við mig að ég lagtæri og leiðrétti það sem hann á sínum tíma gerði. Nú er það ekki svo að allir menn eigi rétt á að leiðrétta sig og breyta um skoðun og annað eftir því og það er ekkert við því að segja, en ég held að sá málflutningur sem fylgir till. í grg. og það sem var sagt áðan sé ekki nægjanleg rök fyrir því að leggja til þá breytingu sem hér er lögð til.

Það er öllum ljóst, sem fylgst hafa með í þessum málum, að um langan tíma hefur þessum málum verið þannig háttað að innflutningur á olíuvörum hefur verið háður leyfum. Viðskiptahagsmunir okkar eru með þeim hætti að þeir sem farið hafa með stjórn landsins hafa verið reiðubúnir að leggja til að þetta væri svo, þannig að hagsmunir viðskiptaaðilanna íslensku gætu náð fram að ganga. Við skulum gera okkur grein fyrir því að við þurfum að sjálfsögðu að hafa viðskipti við margar þjóðir. Þróunin á undanförnum árum í hinum frjálsa heimi hefur verið frelsi í viðskiptum og við höfum staðið þar í fararbroddi, en við viljum skipta við þær þjóðir sem ekki hafa þá skoðun að slíkir skyldu viðskiptahættir þeirra vera og þess vegna gert viðskiptasamninga og nýtt okkur þá sölu á okkar eigin varningi og keypt vörur í staðinn. Þannig hefur því verið varið með þá samninga sem gerðir hafa verið við Sovétríkin allt frá því á árinu 1953.

Að nú allt í einu sé skynsamlegt að gera þessa hluti, að nú allt í einu muni menn fá ódýrari vöru með því að gera ekki slíkan samning, að nú allt í einu geti menn komið vörum sínum fyrir á markaðinum og þurfi ekki að gera neina slíka samninga, það eru ekki rök sem duga. Þar verður eitthvað annað að koma til til þess að hægt sé að telja það trúverðugt, en ekkert vildi ég frekar en að við gætum átt frjáls viðskipti með olíu og frjáls viðskipti með síld hvar sem við gætum komið því við. (GJG: Það þýðir nú engin óskhyggja í þessu.) Það þýðir engin óskhyggja, sagði þm. Mér sýnist að þessir hlutir hafi verið með nokkuð svipuðu sniði það lengi að menn hafi gert sér grein fyrir því að það þýðir ekki nein óskhyggja og menn þess vegna viljað horfast í augu við raunveruleikann og þess vegna hafi hver viðskrh. á eftir öðrum verið reiðubúinn að standa að slíkum viðskiptasamningum eftir því sem ástæða hefur verið til á hverjum tíma.

Í grg. segir, með leyfi forseta:

„Tilgangur þessarar till. er að stuðla að verðlækkun á bensíni og olíum með því að gefa innflutning á þessum vörum frjálsan og koma þannig á samkeppni í þessum mikilvægu viðskiptum.“

Svo sagði þm. að um 80% af olíuinnkaupum kæmu frá Sovétríkjunum og nú bið ég hann um að leiðrétta mig ef ég hef ekki tekið rétt eftir því að alltaf getur það verið að manni sjáist yfir. (Gripið fram í.) Í skýrslu sem utanrrh. hefur nýlega lagt fyrir Alþingi kemur skýrt fram á bls. 43, í kafla um utanríkisviðskipti að 56.4% af heildarinnflutningi allra olíuvara koma frá Sovétríkjunum. (Gripið fram í.) 56.4%. Og þá spyr ég: 43.6% eru keypt á frjálsum markaði og hver hefur verið verðlagningin á þeim hluta? (Gripið fram í: Hvað hefur verið prósentan?) Fyrir utan það allt saman. En hver hefur verið verðlagningin og hver hefur verið viðmiðunin? Það hefur verið nákvæmlega sama viðmiðun í verði, hvort heldur olíuvörurnar hafa verið keyptar frá Sovétríkjunum, frá Portúgal eða annars staðar. Það er Rotterdam-markaðurinn sem þar segir til. Menn hafa áður reynt að hverfa frá honum og farið í það að kaupa olíu annars staðar vegna þess að menn vildu ekki vera of háðir sem er auðvitað alveg hárrétt. Ég er ansi hræddur um að niðurstaðan af því hafi ekki verið eins jákvæð og menn hefðu óskað. Við verðum að gera okkur grein fyrir því; hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að á síðustu fjórum árum hefur þetta verið hagstæðasta verðið sem við höfum getað fengið olíuvörur á. Sagt er að olía hafi hækkað hér. Hún hefur hækkað í krónutölu á Íslandi. Það er alveg rétt. En ef við tökum heimsmarkaðsverð og ef við miðum við Rotterdam-verð í föstum gjaldeyri, sem við kaupum þetta í, hefur orðið 30% lækkun á olíu til Íslands á þessu tímabili.

Í hv. Ed. flutti ég í desembermánuði frv. um breytingu á verðlagningu olíunnar innanlands. Ég gerði nokkra grein fyrir því í hverju það væri fólgið og þar fannst mönnum að viðskrh. stigi ekki nægilega stórt skref í átt til frelsis. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Þetta var frv. sem ríkisstj. flutti og ég tók heils hugar undir það þegar allir ræðumenn, sem þar komu í ræðustólinn, sögðu: Við verðum að breyta þessu. Við verðum að fá meira frelsi. — Þetta var í desember. Nú er komið fram í apríl og þar hefur ekki enn verið gefið út nál. En ég veit að nefndin hefur unnið mjög mikið í þessu máli, hefur aflað sér mikilla gagna, fengið upplýsingar. Ég er ansi hræddur um að menn þar geri sér örlítið betri grein fyrir því að þær upphrópanir, sem hafa verið í sambandi við þessi mál, þegar breytingar hafa átt sér stað, hafa ekki allar átt við rök að styðjast. Ég mun að sjálfsögðu óska eftir því að allar þær upplýsingar, sem sú nefnd hefur fengið, verði sendar til þeirrar nefndar sem um þetta mál fjallar í Sþ. þannig að menn geti gert sér grein fyrir því hvernig staða þessara mála er.

Ef við höldum svo áfram með grg., með leyfi forseta: „Verð á olíum og bensíni er mun hærra á Íslandi en í nágrannalöndunum.“ Það kannast nú einhver við þessa setningu utan veggja Alþingis. „Bensín er yfirleitt 20–40% dýrara hér en í öðrum Evrópulöndum og oft er til þess vitnað að íslensk fiskiskip greiði 40–50% hærra verð fyrir gasolíu hérlendis heldur en þegar þau kaupa hana í evrópskum höfnum.“

Ég lét gera sérstaka könnun á því hvaða verð væri á olíum og bensíni allt í kringum okkur. Mér komu ekkert á óvart þær upplýsingar sem ég fékk. Sú fullyrðing að verðmismunurinn sé 20–40% dýrari olía hér en í öðrum Evrópulöndum fær ekki staðist, a. m. k. ekki miðað við þær upplýsingar sem ég fékk.

Ég óskaði eftir því að það væru ekki þeir aðilar sem hér selja olíuna og flytja hana hér inn sem öfluðu upplýsinga, heldur gerði það sá aðili sem við auðvitað leitum til, okkar eiginn sendimaður á staðnum, sem hefur aðgang að þessu.

Ef við horfum til okkar næstu landa kemur í ljós að olían er sums staðar dýrari. Mér var alltaf ljóst að bensínið væri dýrara á Íslandi. Því gerði ég mér grein fyrir. Það stafar ekki af innflutningnum. Það stafar af skattlagningunni hjá okkur sjálfum. Ég man ekki eftir því að í tíð hv. 3. þm. Reykn. sem viðskrh. væri verið að tala um lækkun í þeim efnum. Ég hef undir höndum ítarlega grg. um verð á gasolíu. Við skulum taka Danmörku. Lítrinn af olíu kostar 11,10 kr. sem er verð sem tók gildi 22. febr. miðað við birgðir í landinu 20. febr. Miðað við verð í Danmörku 22. febr. og miðað við að gengi dönsku krónunnar sé 3,53 kr. kostar olíulítrinn á Íslandi 11,10 kr., en í Danmörku 12,97 kr. Innkaupsverð hér er 8,13 kr., verð frá olíuhreinsunarstöð þar 8,03 kr. Ef við tökum svo dreifingarkostnaðinn með og ekkert annað er hann hjá okkur 1,12 kr., en í Danmörku 1,33 kr. Sambærilegur verðgrundvöllur með fob-verði og dreifingarkostnaði er 9,26 kr. hér hjá okkur, en 9,36 kr. í Danmörku. Það er kannske ekki alveg sanngjarnt að taka ekki einhvern flutningskostnað með í verðið í Danmörku þar sem um er að ræða verð frá olíuhreinsunarstöð þar, þannig að hráolían hefur komið þangað og þarf að hreinsast, en að það sé meiri flutningskostnaður en 10–15 aurar á lítra get ég ekki ímyndað mér þegar flutningskostnaðurinn til Íslands er 0,32 kr., þannig að verðið er nákvæmlega það sama og þegar skoðað er verðið í Danmörku.

Hér eru tölur, sem ég hirði ekki að lesa upp, jafnvel frá Bretlandi. Þar er talað um ákveðna tegund af olíu sem er 40–50% ódýrari undir ákveðnum kringumstæðum. Þá kemur dæmið þannig út að um er að ræða rétt innan við 11 kr. þegar við erum með 11,10 kr., Noregur með um 10,89 kr., Vestur-Þýskaland 13,02. Þetta eru staðreyndir og þessar upplýsingar liggja allar hjá fjh.- og viðskn. Ed. Þær munu að sjálfsögðu koma til þeirrar nefndar sem fær þessi mál til umfjöllunar í Sþ.

Fram kemur í grg. að haldið sé uppi óhagstæðum viðskiptum við Sovétríkin. Ég veit að þm. gerir sér grein fyrir að það er ekki rétt. Við fiskum síld sem betur fer aftur og við viljum koma þeirri afurð á markað. Þm. sagði áðan að það ætti að finna upp nýjar pakkningar, vera ekki að salta í tunnur eins og voru í gamla daga. Það er vissulega merkilegt að það skuli vera sömu umbúðir og sama meðferð á þessu hráefni, en ég er ansi hræddur um að þó við færum víða yfir kæmumst við að þeirri niðurstöðu að það væru svo margir sjálfum sér nógir með síld á mörkuðum, sem við mundum leita til, að það væri ekki fyrir okkur að bæta á.

Í skýrslu utanrrh. á bls. 43 er gerð ítarleg grein fyrir hver þessi viðskipti hafa verið á s. l. ári og hvernig þróunin hefur þar verið. Við skulum gera okkur grein fyrir því að það hefur ekki verið jafnvægi í viðskiptum Sovétríkjanna og Íslands. Það hefur hins vegar verið minna ójafnvægi á s. l. ári heldur en áður.

Ég nefndi í upphafi að forsenda þess hvernig þessum málum hefur verið háttað er viðskiptalegs eðlis af okkar hálfu. Þetta er ekki spurningin um hvort við viljum hafa frjálsan innflutning eða ekki. Þetta er spurningin um hvort við viljum beina viðskiptum með ákveðnar vörutegundir frá okkur sjálfum til ákveðinna viðskiptalanda. Það er ljóst að þeir aðilar sem að þessum málum vinna og stunda síldarsöltun gera sér grein fyrir að hér er um hagstæð viðskipti að ræða. Um 3/4 hlutar af saltsíldarframleiðslu okkar hafa verið seldir til Sovétríkjanna, frystur fiskur, hvort heldur er flök eða heilfrystur, ullarvörur og lagmeti. Allt hefur þetta verið til útflutnings og eftir því sem a. m. k. mér er kunnugt hafa framleiðendur ekki séð möguleika til sölu á þessum afurðum og þess vegna fylgt þeirri aðferð sem hér er við höfð og hv. 3. þm. Reykn. og fyrrv. viðskrh. stóð að á sínum tíma sem ráðh. í ríkisstj. Hvort við vildum hafa hlutina einhvern veginn öðruvísi, það er allt annað mál, en ég held að það að hér sé um að ræða ákveðna vörutegund til innflutnings undir ákveðnum kringumstæðum vegna hagsmuna í útflutningi geti enginn talið til ófrelsis. Hér er um að ræða, eins og ég sagði áðan, að menn telja skynsamlegra að haga sér með þessum hætti frekar en einhvern veginn öðruvísi.

Því er haldið fram að þessir viðskiptasamningar hafi kostað þjóðfélagið hærra verð á olíu og lélegri gæði. Þetta held ég að ég hafi sýnt fram á að er ekki rétt hvað snertir verð. Það er samdóma álit þeirra sem þekkja til þessa innflutnings að gæði þeirrar olíu sem inn er flutt frá Sovétríkjunum séu meiri og betri en olíu sem annars staðar fengist. Það hefur verið talið nauðsynlegt fyrir okkur að kaupa olíu með þeim gæðum sem þarna fást.

Á undanförnum mánuðum hefur nokkuð dregið úr nýtingu á svartolíu sem stafar sjálfsagt af því að þar hefur verðhækkunin orðið töluvert meiri en búist var við. Hins vegar liggur ljóst fyrir að eftir að verkfalli kolanámumanna í Bretlandi lýkur, sem þarna hafði áhrif, má reikna með að þar verði snúið við í þeim efnum og sá verðmismunur muni minnka aftur og þannig geti menn nýtt sér hagkvæmara verð á svartolíu sem keypt hefur verið frá Sovétríkjunum.

Í lok grg. þeirrar till. sem þm. talaði fyrir áðan segir, með leyfi forseta:

„Núverandi fyrirkomulag hefur gilt um langa hríð.“ — Það er rétt. Sennilega eitt af því fáa sem er rétt í grg. að undanteknum tilvísunum í frv. og reglugerðir eða lög og reglugerðir sem fyrrv. ráðh. gaf út eða stóð að að samþykkt voru. — „Það hefur skilað okkur miklu dýrari olíuvörum en gildir í nágrannalöndunum.“

Ég minnist þess, eins og ég sagði áðan, að það var gerður út leiðangur til kaupa á olíuvörum undir öðrum kringumstæðum, við aðrar verðmiðanir. Ég held að sú niðurstaða sem þar fékkst hafi ekki skilað því sem hefði getað orðið til þess að breyta um fyrirkomulag, a. m. k. gerðu það ekki þeir aðilar sem þá fóru með þessi mál. Í lok grg. segir:

„Þá er rétt að breyta fyrirkomulaginu og leita nýrrar skipunar í samræmi við það sem gildir í grannlöndunum.“

Er þá meiningin að sækja fyrirkomulag til nágrannanna sem jafnframt hafa hærra verð? Það er það sem lagt er til hér í grg. Þar segir:

„Með innflutningsfrelsi og samkeppni á að stuðla að verðlækkun á olíum og bensíni.“

Ég er reiðubúinn að stuðla að verðlækkun á olíum og bensíni. Þm. vék að því áðan og sagði að ég hefði orðað það á s. l. ári að lækka skyldi olíuverð 1. okt. Ég man að hann orðaði þetta einhvern tíma við mig frammi á gangi og spurði. Ég sagði við hann að ef hann héldi því fram að ég hefði sagt það færi hann ekki rétt með. Um var að ræða að verð á olíu skyldi endurskoðað fyrir 1. okt. Það var það sem sagt var. Það skyldi endurskoðað.

Ég er hér með lista yfir verð á olíum alveg frá 1. jan. 1978 til 1. okt. 1984. Eitthvert tímabil á þessu blaði gæti ég heimfært undir viðskiptaráðherratíð hv. þm. og ég gæti jafnvel tekið margfeldið af verðinu á olíunni og bensíninu þegar hann byrjaði og þegar hann endaði og þann tíma sem ég hef verið ráðh. Sá samanburður er a. m. k. ekki til framdráttar þeim málflutningi sem viðhafður var áðan, að ég nú minnist ekki á eina skiptið sem olía og bensín hefur lækkað sem var eftir að ég tók við embætti viðskrh. Þó að það stæði ekki í langan tíma gerðist það þó. Það er meira en hægt er að segja um þá sem á undan voru, hvort heldur það er hv. þm. sem hér talaði áðan eða aðrir.

En endurskoðunin fór fram. Hins vegar hefur ekki enn náðst að tryggja lækkun eða niðurfellingar á gjöldum sem eru á olíu. Vonandi verður það áður en langt um líður. Það getur vel verið að menn telji 2% ekki neitt, en það eru þó a. m. k. 2% og getur haft sitt að segja og hafði það a. m. k. þegar þessi mál voru til umræðu og menn vildu reyna að leysa vandamál þeirra aðila sem hér þurfa við að búa, þ. e. útgerðarinnar, og reyna að tryggja að hennar rekstrargrundvöllur geti verið sem bestur.

Það er hins vegar engum betur ljóst en einmitt útgerðarmönnum að þeir þurfa að selja sína síld. Sú leið hefur verið farin sem ég ræddi um. Menn hafa ekki fundið aðra betri. Á meðan hún finnst ekki vilja menn a. m. k. ekki kasta verðmætum, t. d. 20 000 tunnum af síld, rakleiðis í sjóinn og segja að það sé ekkert í okkar þjóðarbú, við getum bara látið vera að veiða síldina. Þegar síldveiðar voru stöðvaðar eftir ofveiðina á áratugnum 1960–1970 fannst mönnum það ansi slæmt. Það var mikill fengur þegar síldveiðin var leyfð aftur. Ég trúi því að þeir útgerðarmenn a. m. k. sem hafa tækifæri til að stunda síldveiði vildu ekki vera án þess.

Þm. orðaði það svo áðan að ekki væri neitt mál að gera þetta. Það mætti breyta reglugerðinni. Þeir sem yrðu þá að búa við breyttar aðstæður yrðu að reyna fyrir sér á öðrum mörkuðum og hann tryði ekki öðru en að ef þetta gerðist lækkaði olíuverð og við fengjum lægra verð til að tryggja okkar sjávarútvegi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri. Ég segi það enn á ný: Það stendur ekki á mér að standa að málum með þeim hætti að þar ríki frelsi. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því hvað hér er um að ræða. Ég met svo að það séu þjóðarhagsmunir fyrir okkur að eiga viðskipti við Sovétríkin eins og aðrar þjóðir. Við metum hvernig aðstæður eru hjá hverri þjóð fyrir sig og við verðum að haga okkar viðskiptum eftir því hvernig stjórnskipulag er og hvaða stefna er í viðskiptamálum hjá hverri þjóð fyrir sig. Ég kysi að sjálfsögðu að við gætum haft fríverslun í þessum málum eins og öðrum. Ég er viss um að hv. 3. þm. Reykn. hefði hvorki staðið að þeirri löggjöf sem um þessi mál gildir í dag né skrifað undir reglugerð sem var á undan þeirri sem gildir um þessi mál ef hann hefði haft trú á því að honum gæti tekist að koma fram þessum málum betur en var. Ég er sannfærður um að hefði hann treyst sér til þess að gera það hefði hann gert það þó það væri ekki til annars en að skreyta sig með þeim fjöðrum sem hann af því hefði haft. En að koma til Alþingis og hugsa sér að stjórna þýðingarmiklum málum í inn- og útflutningi með þál. tel ég mjög vafasamt og frá stjórnlagalegu sjónarmiði tæplega hægt. Ef flokksmenn hans hafa áhuga á því að koma þessum málum fram hafa þeir tækifæri til þess. Í Ed. er frv. sem þeir geta gert við sínar brtt., lagt þær þar fram og fundið þar hvert fylgi þær hafa til þess að verða að lögum.