18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4348 í B-deild Alþingistíðinda. (3668)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm., sem til máls hafa tekið, undirtektir undir þessa þáltill. og vænti þess því að hún eigi greiðan gang í utanrmn. og í Sþ., þegar nál. liggur fyrir, og verði fljótlega samþykkt.

Ég tel mig hafa svarað þeim fsp. sem til mín bar beint þegar þessi þáltill. var hér fyrst til umr., en þó gerði hv. 11. þm. Reykv. það að umræðuefni að einn þáttur till. snerti starfssvið mitt, þ. e. það sem sagt er í formála með þáltill. um að „efling heimsfriðar og öryggis, slökun spennu í alþjóðamálum, gagnkvæm samvinna allra ríkja óháð félagslegu og efnahagslegu kerfi þeirra“ sé eitt af þeim verkefnum sem nauðsynlegt sé að vinna að. Spurt var stórt, hvað ég hygðist gera til að framfylgja þessu stefnumiði. Ég þykist hafa gert grein fyrir stefnu minni í þessum málum við ýmis tækifæri og mun auðvitað gera þessi mál að umræðuefni þegar við ræðum skýrslu mína um utanríkismál sem ég vænti að verði nú um mánaðamótin.

Ég vil svo segja það og ítreka, sem ég sagði síðast þegar við ræddum þessi mál, að það má vel vera að í aths. hefði farið betur á að segja: Ekki er talin þörf frekari lagasetningar né annarra formlegra ráðstafana. En þetta orð, „formlegra“, hefur fallið niður. Það sem um er að ræða þarna er það, að löggjöf okkar eins og hún er úr garði gerð fullnægir ákvæðum þessa milliríkjasamnings.

Hitt býst ég svo við að sé ekkert deilumál, að það sé þörf ýmissa ráðstafana til þess að við framfylgjum efnisinnihaldi þessa samnings, eins og varðandi launamun karla og kvenna, endurbætur í dagvistarmálum eða fæðingarorlofsmálum o. s. frv. En þar eru spurningar ýmsar þótt markmiðin séu hin sömu og kann að vera að okkur greini á um leiðir til að ná þeim markmiðum.