18.04.1985
Sameinað þing: 72. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4349 í B-deild Alþingistíðinda. (3669)

353. mál, afnám misréttis gagnvart konum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það er rétt, sem fram kemur hjá hæstv. utanrrh., að samningur sem þessi leysir ekki pólitískan ágreining eða matsatriði á því hvað þurfi til að koma til að jafnrétti í sambandi við jafna stöðu karla og kvenna verði uppfyllt. Um það greinir menn eflaust á milli flokka og einstaklinga hér eftir sem hingað til. Hitt hlýtur að vera eðlilegt, að sú nefnd sem fjallar um þessa þáltill. leggi mat á þá staðhæfingu ríkisstj. og flm. till. að nú þegar séu uppfylltar þær lagaskyldur sem samningur þessi gerir ráð fyrir. Í framhaldi af því er einnig eðlilegt, að mínu mati, og nauðsynlegt að fram fari á því sérstök gaumgæfileg úttekt, hvernig löggjöf hérlendis og starfshættir standist þann mælikvarða sem lagður er á í samningi þessum. Ég mun verða hvetjandi þess að það verði gert af þinginu fyrr en seinna eftir að samningur þessi hefur verið staðfestur.