03.05.1985
Neðri deild: 63. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4805 í B-deild Alþingistíðinda. (4059)

77. mál, byggingarlög

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka þessi orð hæstv. ráðh. Og vegna þess að hann kvaðst gleðjast yfir þessum áhuga mínum þá skal ég upplýsa hann um að þetta er miklu meira en áhugi. Flm. þessa frv. er sárkvalinn yfir þeim subbuskap sem viðgengst, þrátt fyrir allar byggingarnefndir landsins, kringum opinberar stofnanir og atvinnufyrirtæki, beinlínis sárkvalinn. Nú kann vel að vera að fólk hafi mismunandi næma tilfinningu fyrir umhverfi sínu. En það verður þá að játast að hér er þm. sem hefur orðið fyrir þeirri ógæfu að taka slíkt nærri sér.

Mér er ljóst að þetta frv. verður eflaust ekki samþykkt frekar en mörg önnur góð, einkum frá stjórnarandstöðuþm. En ég vil þá að lokum mælast til þess við hæstv. félmrh., sem mér er ekki grunlaust um að kunni að vera illa haldinn af þessu sama og flm., beiti sér fyrir því á allan mögulegan máta að fylgst sé með því að frá umhverfi opinberra bygginga og atvinnufyrirtækja sé gengið.

Ég vil að lokum benda hv. þm. á að ræða við rafmagnsveitustjórann í Reykjavík. Hann er sem yfirmaður stofnunar til algjörrar fyrirmyndar í þessum efnum. Rafmagnsveita Reykjavíkur hefur um langt skeið, áratugaskeið verið til yndis og ánægju Reykvíkingum vegna einstaklega fagurs umhverfis. Og ég hygg að forstjóri þeirrar stofnunar mundi upplýsa hv. þm. um að það borgar sig að ganga frá umhverfi bygginga.

Það borgar sig í beinhörðum peningum sé það kunnáttusamlega gert. Og hann skal hafa heiður fyrir héðan úr ræðustóli Alþingis það sem hann hefur lagt til þessara mála þó að fæstir virðist vilja fara að hans dæmi.