06.05.1985
Neðri deild: 64. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4830 í B-deild Alþingistíðinda. (4105)

5. mál, útvarpslög

Ellert Schram:

Herra forseti. Það frv. sem hér er á dagskrá er ekki nýtt af nálinni. Það var samið fyrir fjórum eða fimm árum. Það hefur verið lagt fram áður á Alþingi og nú í haust var það lagt fram af hæstv. menntmrh. þar sem gert var ráð fyrir að frv. yrði að lögum 1. nóv. s. l. Það kom úr hv. menntmn. einhvern tíma rétt fyrir áramótin og núna eru um sex vikur liðnar síðan 2. umr. fór fram og auðvitað hefur almenningur og þm. einnig verið sífellt meira undrandi á því hvílíkur dráttur hefur orðið á afgreiðslu þessa máls. Þær skoðanir hafa verið uppi að hér sé verið viljandi að þvælast fyrir, hér sé gerð tilraun til að draga málið og drepa því á dreif, þæfa það og salta þannig að það komist ekki til afgreiðslu. Það er náttúrlega fyrir neðan allar hellur ef Alþingi getur ekki mannað sig upp í að taka afstöðu til þessa máls sem svo mjög hefur verið á dagskrá í vetur. Og nú loks þegar 3. umr. hefst, öllum er í meginatriðum ljóst um hvað þetta mál snýst, brtt. hafa legið fyrir lengi, það hefur ekkert nýtt komið fram í þessu máli, þá standa hér upp tveir þm. að mér skilst fyrir hönd tveggja þingflokka og krefjast þess að málinu sé frestað.

Er það þannig, herra forseti, að ef menn bregða sér úr landi annaðhvort í opinberum erindagerðum eða í einhverjum öðrum tilgangi, þá geti þeir komið skilaboðum í gegnum síma um það að málum sé frestað meðan þeir dvelja erlendis? Og hvernig væri það ef orðið er við þessari beiðni og svo skreppur einhver annar þm. út í næstu viku og hann sendir þau skilaboð í gegnum síma að hann óski eftir því að máli sé frestað og afgreiðslu frestað þangað til hann komi allra náðarsamlegast heim aftur? Þetta eru náttúrlega algerlega óverjandi vinnubrögð og er útilokað að mínu mati að taka tillit til slíkra beiðna. Það er ekki hægt að skilja þessa beiðni öðruvísi en svo að hér séu yfirlýsingar fluttar um það af hálfu þingflokks framsóknarmanna og Alþb. að koma skuli í veg fyrir að þetta mál fái afgreiðslu á þinginu.