07.05.1985
Sameinað þing: 80. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4870 í B-deild Alþingistíðinda. (4152)

12. mál, leit að brjóstakrabbameini

Frsm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. til þál. um kerfisbundna leit að brjóstakrabbameini í konum. Leitað var umsagna um þetta mál hjá heilbrigðisyfirvöldum og allar umsagnir voru jákvæðar hjá þeim aðilum sem tjáðu sig um málið. Segja má að sú stefna í heilbrigðismálum sé stöðugt að vinna á að reyna að vinna sem mest að fyrirbyggjandi aðgerðum. Og þessi þáltill. er einmitt á þann veg.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa nál. frá allshn.: „Nefndin hefur fjallað um tillöguna og leitað umsagna frá eftirtöldum aðilum: Krabbameinsfélagi Íslands, Læknafélagi Íslands, landlækni og heilbr.- og trmrn.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. , Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Birgir Ísl. Gunnarsson, Eggert Haukdal og Pétur Sigurðsson.“

Undir þetta nál. skrifa Ólafur Þ. Þórðarson, Stefán Benediktsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Guðrún Helgadóttir.

Með leyfi forseta vil ég einnig lesa hér upp tillögugreinina eins og nefndin leggur til að hún verði orðuð: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því svo fljótt sem verða má að komið verði á kerfisbundinni leit að brjóstakrabbameini hjá konum með brjóstamyndatöku (mammografi).“