08.05.1985
Efri deild: 66. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4965 í B-deild Alþingistíðinda. (4204)

146. mál, sjómannalög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir þau orð hv. þm. Sigríðar Dúnu að lög eru til þess að tryggja réttindi, en þar sem ég sé ekki að hægt sé að tryggja konum réttindi með þessari brtt. er ég henni ekki meðmælt. Það er einfalt mál. Allt í kringum landið eru útgerðarfélög það lítil að þau hafa ekki fleiri störfum til að dreifa en á sjó. Jafnvel ekki á línu. Þar væri ekki hægt að færa konu í beitningarskúra. Þar væri ekki betra fyrir hana að vera en á sjó, að mínu mati. Togaraútgerðir eru kannske með skrifstofu. Væri þá hægt að koma konunni fyrir inni á skrifstofu, jafnvel með því að vísa annarri konu frá? Ég sé ekki rökin fyrir því að þetta bæti hag kvenna nema þá hjá Sambandinu eða stórum fyrirtækjum sem hafa margvíslegan rekstur á sínum snærum.