08.05.1985
Efri deild: 67. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4975 í B-deild Alþingistíðinda. (4223)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Stefáni Benediktssyni að flytja brtt. við það frv. sem hér er til umr. Hún hljóðar svo:

„Við 5. gr. Greinin orðist svo:

Þeir sem heilbrrh. hefur veitt löggildingu skv. lögum þessum skulu ganga fyrir þegar ráðið er til þeirra starfa sem lög þessi taka til.“

Ég tel þetta nægilegt til að vernda rétt þess fólks sem hefur öðlast menntun til þeirra starfa sem hér er fjallað um og óskilgreind eru, en ég tel ekki rétt að hafa í lögum „Óheimilt er að ráða til þeirra starfa, sem undir lög þessi heyra, aðra en þá sem heilbrrh. hefur veitt löggildingu skv. lögum þessum og reglugerðum sem settar kunna að verða skv. þeim“, eins og er í frv. sem hér liggur fyrir. Ég tel að strax og þetta frv. verður að lögum þyrfti að brjóta lög eða veita undanþágur. Og eins og ég sagði við 2. umr. og vitnaði í bréf Vinnuveitendasambands Íslands, sem barst nú nýlega, tel ég að þetta brjóti í bága við 69. gr. stjórnarskrárinnar, um atvinnufrelsi.