08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4983 í B-deild Alþingistíðinda. (4254)

5. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég fagna því að þetta mikilvæga frv. er hér komið til umr. á nýjan leik. Í öðru lagi vil ég vekja athygli á mikilvægi þess að málið sé rætt efnislega. Í þriðja lagi tel ég mér skylt að kveðja mér hljóðs vegna þeirra umr, sem stefnumót okkar hæstv. forsrh. hefur vakið. Þó að ekki verði allt rakið úr okkar samtölum og samskiptum þá er mér a. m. k. óhætt að segja að samkomulag er gott.

Í annan stað hefur samkomulag vitanlega verið gert. Það sem vakið hefur mönnum óróa er skilningur á því um hvað samkomulagið sé. Niðurstaðan er einfaldlega sú að í báðum stjórnarflokkunum greinir menn á um eitt atriði. Það hefur verið unnin mjög mikilvæg vinna í menntmn. þessarar hv. deildar að því að undirbúa afgreiðslu þessa máls og það hefur verið gert mikilvægt samkomulag milli hv. 5. þm. Vestf. og hv. 2. þm. Norðurl. e. um sameiginlega afgreiðslu úr nefnd á þessu máli. Eins og hv. 5. þm. Vestf. gerði grein fyrir viðtökum þessa samkomulags í sínum flokki er það einnig mála sannast að í Sjálfstfl. eru líka skiptar skoðanir og þá nákvæmlega um þetta sama atriði, auglýsingarnar í báðum tilvikum.

Nú vil ég skýra í hverju þessi margnefndi skilningur eða misskilningur er fólginn. Við hæstv. forsrh. erum sammála um það að menn séu ósammála um auglýsingarnar. Þess vegna er það alveg ljóst að menn greiða atkvæði eftir sinni sannfæringu. Það gera þeir líka um samkomulagið. Menn greiða ævinlega atkvæði eftir sinni sannfæringu. Þegar menn greiða atkvæði með tilteknu samkomulagi er það vegna þess að mönnum finnst það skynsamlegt.

En að því er auglýsingarnar varðar greinir menn á. Í Sjálfstfl. hafa menn alltaf haft fyrirvara á varðandi þá grein í frv. sem um auglýsingar fjallar. Það er grundvallarsjónarmið Sjálfstfl. að rétturinn til að afla fjár og gefa upplýsingar í fjölmiðlum með auglýsingum sé frjáls, einungis háður þeim reglum sem almenn lög setja. En að því er Framsfl. varðar hef ég skilið það svo að ágreiningurinn væri fólginn í því að þar voru einhverjir hv. þm. þeirrar skoðunar að alls ekki bæri að leyfa auglýsingar annars staðar en í Ríkisútvarpinu. Þ. e. í Framsfl. vildu menn hafa auglýsingaákvæðið þrengra en í frv. felst en í Sjálfstfl. vildu menn hafa auglýsingaheimildina víðari en í frv. felst. Í þessu liggur munurinn. Þegar svona stendur á er ekkert annað að gera en láta Alþingi skera úr um þetta.

Hins vegar eru mörg efnisatriði í frv. sem eru niðurstaða margra manna, eru einfaldlega málamiðlun. Það er ekki það sama og að menn hafi þar fengið öllu því framgengt sem þeir framast vildu hver og einn. Það er t. d. svo um sjálfstæðismenn að það voru miklar efasemdir upphaflega um hugmyndina um menningarsjóð útvarpsstöðva. Ég fyrir mitt leyti sé hins vegar marga kosti við þá hugmynd. En um þetta atriði var töluvert rætt í okkar flokki og menn höfðu ýmsar efasemdir. Ég tel að þetta sé eitt af því sem við höfum náð saman um að standa með og þetta er eitt af málamiðlunaratriðunum.

En til þess að menningarsjóðurinn geti gegnt hlutverki sínu verður hann að fá tekjur af auglýsingum. Það er fjármögnun þessa menningarsjóðs. Ef við leyfum ekki auglýsingar er þessi hugmynd um menningarsjóð fallin un sjálfa sig. Það er því samhengi þarna á milli. Ég tel ekkert á móti því og að það geti verið jákvætt að stofna til slíks sjóðs ekki síst fyrsta kastið eftir að þessi grundvallarbreyting á útvarpslögum yrði framkvæmd. Hann gerir kleift að styrkja efni sem ég tel að þurfi að fá miklu meira rými í dagskrá útvarps- og sjónvarpsstöðva, ekki einungis Ríkisútvarpsins heldur og annarra stöðva. Að sjálfsögðu verður meginuppistaða þess starfs þó væntanlega hjá Ríkisútvarpinu, en hér á ég við fræðsluefni.

Ég er sannfærð um að það er skynsamlegt í okkar landi að taka upp starfsemi sem sums staðar hefur verið kölluð „opinn háskóli“ í sjónvarpi. Það er hægt að hugsa sér slíka starfsemi á framhaldsskólastigi og einnig á yngri skólastigum. Ég held einnig að þetta væri mikilvægasta framlag til fullorðinsfræðslu sem hægt væri að hugsa sér. Það er þetta sem nútímatækni býður upp á í fræðslu. Vissar stofnanir í landinu hafa með höndum athugun núna vegna slíkra hugmynda. Þar á ég við Námsgagnastofnun þar sem menn eru sérstaklega að kynna sér gerð fræðsluefnis fyrir myndbönd og til þess að nýta einmitt svona tækni, sjónvarp og útvarp, í þessu skyni.

Það væri langt mál að víkja að hinum víðtæku möguleikum sem þarna eru. En ég held að einmitt þarna verði mjög mikilvæg verkefni sem hægt er að styðja með þessum títtnefnda menningarsjóði sem aftur á móti þarf að lifa á auglýsingum.

Þá er ég farin að tala efnislega um málið og víkja frá samkomulagsmálum og stefnumótun okkar hæstv. forsrh., enda er nú aðalatriðið að við tökum skynsamlega á efni þessa máls og afgreiðum það eins skynsamlega og unnt er við þessar aðstæður. Og hvaða aðstæður? Við þær aðstæður að við erum að fara inn í alveg nýtt tímabil, ef svo má segja. Hér er um mikilvæga nýjung í menningarefnum að ræða. Þegar svo stendur á eru alltaf einhverjir hópar manna sem óttast nýjungar. Það er í eðli mannsins að óttast hið óþekkta. Við þessu er ekkert að segja. En það er hins vegar nauðsynlegt fyrir nútímamanninn að búa sig undir að taka hinu nýja, taka hinu nú óþekkta og færa sér það í nyt á þann hátt að til gagns og gleði og menningar verði fyrir þá sem efnið geta nýtt sér. Það er þetta sem ég tel að frv., sem við erum að fjalla um nú, geti orðið til þess að opna fyrir okkur. Það er þess vegna líka að hér er um nýtt efni að ræða, að í raun og veru er gert ráð fyrir aðlögunartímabili. Það má því segja að þetta skref sé stigið varlega. Það eru ýmsir varnaglar og það er aðlögunartímabil, gert ráð fyrir endurskoðun innan skamms tíma og vitanlega gefur Alþingi hvenær sem er gert breytingar ef alvarlegir agnúar koma í ljós.

Að því er varðar það efnisatriði sem ég hef þegar rætt, auglýsingarnar annars vegar og menningarsjóðinn hins vegar, vil ég taka fram að það er mín skoðun að í reglum, sem settar verði um auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi almennt, þurfi að vera sams konar ákvæði sem gera kröfur til efnis auglýsinga, íslensks máls og annarra atriða sem íslensk lög gilda um. Þessu held ég að sé unnt að framfylgja með því að auglýsingarnar séu afmarkaðar frá öðru efni eins og reyndar gert er ráð fyrir í þeim hugmyndum sem um þetta hafa komið fram. En á þessu stigi þykir mér ástæða til þess að leggja áherslu á það sem ég tel að sé aðalatriðið í þessu máli þó að vissulega séu agnúar á málinu hér og hvar. Engum dettur í hug að frv. um nýtt mál eins og þetta geti orðið fullkomið við fyrstu gerð. Það er öldungis ljóst að hér verður reynslan að kenna okkur alveg eins og öðrum þjóðum sem farið hafa inn á þessa braut. Þar hafa menn af þó nokkurri reynslu að miðla en við höfum reynslu af vissum þætti sem margar aðrar þjóðir hafa ekki, þ. e. að við höfum rekið hér auglýsingaútvarp í mörg herrans ár og þekkjum það mætavel hvernig hægt er að snúast við slíku. Aðrir hafa ekki auglýsingaútvarp, en að því ráði er verið að hverfa núna í flestum löndum sem ég þekki til.

Það sem flestir eru sammála um er að það sé aðalatriðið í þessu máli að fleiri eigi að hafa aðgang að því að nýta sér þennan fjölmiðil og að reka útvarp en Ríkisútvarpið sjálft. Og það er að mati flestra þm. að ég held, eins og nú er komið tækni á okkar dögum, sem leiðir til að afnema verður einkarétt Ríkisútvarpsins til að starfrækja hljóðvarp og sjónvarp og auka frelsi annarra.

Ég held að með slíkri breytingu, sem við höfum nú fyrir augum, séum við að stíga spor fram á þessa leið. Þetta framfaraspor verðum við að stíga ef við viljum halda í heiðri þá frelsishugsjón sem liggur að baki grundvallarhugmyndum í íslensku þjóðfélagi. Þetta er í raun og veru lýðræðiskrafa sem á rétt á sér vegna þess að með vaxandi þroska þjóðfélagsins má ætla að umburðarlyndi manna hljóti að aukast, eða m. ö. o. sagt, við hljótum að byggja á rétti manna til að njóta menningar eftir eigin ákvörðun, við hljótum að viðurkenna að það sé hlustandinn, áhorfandinn eða viðtakandinn sem ræður því við hverju hann tekur. Þetta er ein hlið á miklu stærra máli þar sem sú hugsun er grundvöllurinn að í okkar landi, eins og í öðrum löndum í okkar heimshluta, verði menn að læra að lifa saman í friði og sæmilega sáttir án þess að einn hópur ráði lífi og starfi annarra, eins og er með nokkrum hætti þegar um einkarétt til fjölmiðlunar er að ræða.

Þjóðfélag umburðarlyndis og gagnkvæmrar virðingar fyrir réttindum annarra, það ætti að verða okkar framtíðarþjóðfélag. Breyting á því fyrirkomulagi, sem er á málefnum útvarps í landinu, bæði hljóðvarps og sjónvarps, er eitt skref í átt til að ná settu marki. Frelsið á ekki bara að gilda fyrir einhverja tiltekna heldur alla sem þeim skilyrðum fullnægja sem lög landsins setja. Þegar okkur hefur skilist þetta í sambandi við þessa tegund fjölmiðlunar erum við komin þar á svipaða leið og við erum nú í sambandi við bóka- og blaðaútgáfu. Það dettur engum í hug að ríkið eigi að hafa einkarétt á útgáfu dagblaðs t. d., það væri hægt að hugsa sér þingkjörna nefnd sem hefði eftirlit með efni í ríkisútgefnu dagblaði. Það mundi spara margar vinnustundir að hafa eitt ríkisútgefið dagblað, það gæti vafalaust orðið — (Gripið fram í: Lögbirtingur.) Lögbirtingur er því miður ekki dagblað. Það væri kannske nóg að hafa það. Þó að hér væri til ríkisrekið fréttablað gæti það verið aldeilis prýðilegt blað. Ég upplifði það á haustdögum að vera í nokkurn tíma í Kínaveldi. Þar kom út, meira að segja í breskri þýðingu eitt dagblað sem hét China Daily og var aldeilis ágætis blað. Þetta blað var 4–6 síður eftir atvikum. Þarna stóð bókstaflega allt sem máli skipti um veröldina. Við vorum að velta því fyrir okkur, Íslendingar, hvað við værum að gera með öll þessi mörgu blöð sem taka allan þennan mannafla og allan þennan tíma, bæði af vinnustundum manna og frístundum og ríkisstyrki og hvað eina. Ósköp væri það nú miklu einfaldara að gefa bara út eitt blað,

Íslenska dagblaðið eða Íslenska morgunblaðið. En ég er ansi hrædd um að það þætti mörgum sneyðast um tjáningarfrelsi og það er það atriði sem við erum í raun og veru að fjalla um. Það er það sem máli skiptir í sambandi við það mál sem hér er á dagskrá. Við erum að auka tjáningarfrelsið í landinu, við erum að auka lýðræðið í landinu, við erum að auka möguleika fólks til innbyrðis skilnings. Þetta held ég að sé það mikilvægasta sem í þessu frv. felist.

Ég vona það, herra forseti, að við berum gæfu til að stíga þetta spor í átt til betra, fjölbreyttara og umburðarlyndara samfélags. Að því miðar þetta frv. og um það fjallar sú grundvallarhugmynd sem að baki þessu liggur.