08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4987 í B-deild Alþingistíðinda. (4255)

5. mál, útvarpslög

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa mörg orð í þessari umr. um þetta mál. Ég ætla aðeins að takmarka mig við það sem mest er deilt um í þessu sambandi, þ. e. auglýsingarnar og hvernig þeim skuli háttað í öðrum stöðvum en hjá Ríkisútvarpinu.

Ég vil aðeins, áður en ég vík að málsmeðferðinni sem ég ætlaði nú að hafa að meginefni míns máls, ítreka það í hverju þessi ágreiningur liggur. Ástæðan fyrir því að ég vil ítreka það er sú að ég er enn þá að lesa greinar í dagblöðum þar sem því er haldið fram og menn belgja sig af óskaplegri hneykslun yfir því að þetta frv. feli í sér algert auglýsingabann hjá þeim stöðvum sem reknar séu af einkaaðilum. Ég les jafnvel leiðara í dagblöðum enn þá þar sem að því er látið liggja að þetta frv. sé haldið þeim mikla ágalla að bannað sé með öllu að birta auglýsingar og afla tekna með auglýsingum í öðrum stöðvum en þeim sem Ríkisútvarpið rekur. Auðvitað þarf ekki að gera hv. þm. grein fyrir þessu, en ég vil samt hér úr þessum stól ítreka að þetta er rangt. Það er einungis gert ráð fyrir því í þessu frv. að þær sjónvarpsstöðvar eða hljóðvarpsstöðvar sem geta tekið við áskriftargjöldum, sem eru fyrst og fremst svokallaðar kapalstöðvar, fái ekki aflað tekna með auglýsingum. Hljóðvarp eða sjónvarp sem sendir út á öldum ljósvakans, alveg sama í eigu hvers það verður, hvort sem eru einkaaðilar eða aðrir aðilar, hefur samkvæmt þessu frv., eins og það liggur fyrir, fulla heimild til auglýsinga. Ágreiningurinn stendur sem sagt fyrst og fremst um það hvort kapalsjónvarp eða -hljóðvarp, stöðvar sem geta tekið áskriftargjöld, eigi að fá heimild til þess að birta auglýsingar eða ekki. Ég er þeirrar skoðunar og hef ávallt verið að þær eigi að fá heimild til þess. En ég vildi hins vegar, hér úr þessum ræðustól, reyna að skýra og afmarka þetta ágreiningsefni enn betur en gert hefur verið, af gefnu tilefni, vegna þess að maður er að lesa dag eftir dag fullyrðingar í blöðum um hið gagnstæða.

Ég varð til þess við 2. umr. þessa máls að gera grein fyrir því að hæstv. menntmrh. hefði lýst því yfir í þingflokki sjálfstæðismanna að það hefði orðið að samkomulagi milli hennar og hæstv. forsrh.þm. stjórnarflokkanna hefðu óbundnar hendur um þennan þátt málsins, þ. e. um auglýsingarnar. Ég lýsti því jafnframt yfir að í ljósi þess samkomulags mundi ég greiða atkvæði þeirri till. sem hv. 2. þm. Reykv. Friðrik Sophusson hefur flutt og er að finna á þskj. 514. Nú er það dregið í efa að þetta samkomulag hafi verið gert. Hæstv. menntmrh. hefur ítrekað það að það hafi verið samkomulag um það að menn greiddu atkvæði eins og þeim byði best við að horfa um þetta atriði málsins, en hæstv. forsrh. hefur sagt að hér sé um einhvern misskilning að ræða. Nú háttar þannig með mig eins og hv. 2. þm. Reykv. og sennilega líka hv. 5. þm. Vestf. að við erum ekki alltaf staddir þar sem þau eiga stefnumót, hæstv. menntmrh. og hæstv. forsrh., og getum ekki skýrt hvað þeim fer á milli. Hins vegar finnst mér rétt, vegna þess að þetta mál er komið á þetta stig, að gera grein fyrir því hér hvers vegna og hvernig þessi yfirlýsing, sem ég gaf, varð til.

Þetta mál kom hér til umræðu í hv. deild á mánudegi að því er mig minnir og ég hringdi í hæstv. menntmrh. að morgni til að spyrja hvort mér væri heimilt hér úr þessum ræðustól að gefa þá yfirlýsingu og skýra frá því sem hún hefði greint þingflokknum frá. Hún var varfærin eins og hún á vanda til, bað mig um að bíða með þá yfirlýsingu þangað til hún hefði rætt við hæstv. forsrh. aftur og fengið þetta staðfest. Ég kom hér niður í þing klukkan tvö og við ræddum saman, hæstv. menntmrh. og ég, og hún tjáði mér að hún hefði ekki enn náð sambandi við forsrh. Hann kom hér stuttu síðar inn úr dyrunum. Hún gekk til hæstv. forsrh. og ræddi við hann þar sem hann sat hér í sínu sæti, gekk síðan yfir til mín þar sem ég sat í mínu sæti og sagði: „Ég staðfesti að þetta samkomulag var gert.“ Sem sagt að þm. stjórnarflokkanna hafa óbundnar hendur um þennan þátt málsins. Að því loknu steig ég í þennan ræðustól og skýrði frá þessu. Ég vildi skýra frá því hvernig þetta gerðist í þessum smáatriðum vegna þess að hér er verið að brigsla mönnum um svik og brigsla mönnum um að fara með rangt mál, en ég tel að svo sé ekki í þessu máli. Auðvitað hlýtur hæstv. forsrh. að skýra frá því í hverju það samkomulag var fólgið sem þarna var gert á milli hæstv. menntmrh. og hæstv. forsrh. úr því að hann vill nú ekki kannast við að það hafi verið um þetta efni sem ég greindi frá og hæstv. menntmrh. hefur reyndar ítrekað hér úr þessum ræðustól í dag. Ég tek því heldur ekki frá hv. 5. þm. Vestf. að við, sem stóðum að samkomulagi meiri hl. menntmn., séum að hlaupast frá því samkomulagi eða svíkja það samkomulag, eins og okkur er brigslað um, með því að greiða þeirri till. atkvæði sem lýtur að meira frelsi í auglýsingum en frv. nú gerir ráð fyrir.

Þeir hv. þm. 2. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Vestf. höfðu forgöngu um þetta mál af hálfu okkar stjórnarliða í hv. menntmn. og ég held að þar hafi verið unnið af fullum heilindum á báða bóga og samstarf gott um þennan þátt málsins. En ég held að það hafi ávallt legið fyrir að um þetta atriði var ágreiningur. Og það var auðvitað það sem átt var við þegar rækilega er hnykkt á því í lokasetningu nál. meiri hl. menntmn. á þskj. 509 þar sem segir, þegar búið er að rekja efnisþætti samkomulagsins:

„Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja brtt. eða fylgja þeim sem fram kunna að koma.

Alþingi, 19. febrúar 1985. Halldór Blöndal, form., frsm., Ólafur Þ. Þórðarson, Birgir Ísl. Gunnarsson, Ólafur G. Einarsson.“

Þetta var það sem við undirrituðum og þessi fyrirvari er auðvitað fullgildur. Þess vegna hef ég tekið þá ákvörðun að greiða þessari till. atkvæði og tel það í fullu samræmi við það nál. sem við skiluðum og það samkomulag sem gert var innan nefndarinnar á sínum tíma.