08.05.1985
Neðri deild: 65. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 4998 í B-deild Alþingistíðinda. (4259)

5. mál, útvarpslög

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég efa ekki að upplýsingar hv. þm. Friðriks Sophussonar um framlagningu till. eru réttar. En hitt er staðreynd að þegar við ræddum þessi mál í þingflokki okkar, þá var ekki minnst á þá till. og mér var ekki ljóst að hún væri komin fram. Mér var hins vegar ljóst að það væri komin fram till. frá Bandalagi jafnaðarmanna. En það var eingöngu um hina tvo kostina sem við ræddum, þ. e. algert bann eða eins og frv. er. Á því byggist sá misskilningur sem rætt hefur verið um.

Ef frv. verður breytt í deildinni frá því sem samkomulag var á milli stjórnarflokkanna þegar það var lagt fram og þegar það var afgreitt frá menntmn., þá mun þingflokkur Framsfl. taka afstöðu til framhalds málsins. Hann hefur ekki gert það enn þá. Ég trúi því nú ekki að frv. verði breytt eins og samkomulag varð um það. Mér heyrist ýmislegt benda til þess að svo verði ekki. En Framsfl. mun taka afstöðu til málsins ef til kemur.