13.05.1985
Efri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5129 í B-deild Alþingistíðinda. (4395)

486. mál, virkjun Fljótaár

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér frv. til laga um breytingu á lögum nr. 98 frá 3. maí 1935, um virkjun Fljótaár í Fljótum í Skagafirði. Með frv. þessu er að því stefnt að gera Rafveitu Siglufjarðar, sem rekur Skeiðsfossvirkjun í Fljótum, jafnt setta, að því er varðar greiðslu opinberra gjalda, öðrum orkufyrirtækjum, sbr. 16. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, 13. gr. laga nr. 66/1976 um Orkubú Vestfjarða, 14. gr. laga nr. 100/1974 um Hitaveitu Suðurnesja og 4. gr. laga nr. 26/1977 um virkjun Hvítár í Borgarfirði. Þá er í 4. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, sambærileg ákvæði um skattafríðindi orkuvera sem reist verða skv. þeim lögum. Geta ber þess að Rafmagnsveitur ríkisins njóta enn víðtækari fríðinda í þessu efni en nefndar orkuveitur, þar sem Rafmagnsveitur ríkisins eru einnig undanþegnar opinberum gjöldum af húseignum sínum, sbr. 77. gr. orkulaga nr. 58/1967. Telja verður sanngirnis- og réttlætismál að Skeiðsfossvirkjun verði skattlögð með sama hætti og önnur orkuver í landinu.

Frv. þetta er flutt að tilmælum Siglufjarðarkaupstaðar sem er eigandi virkjunarinnar. Rn. hefur leitað umsagnar nokkurra þeirra aðila sem málið varðar, m. a. þeirra er verða munu fyrir tekjumissi skv. frv., þ. e. fjmrn. vegna ríkissjóðs, sýslumannsins í Skagafjarðarsýslu vegna sýsluvegasjóðs og hreppsnefndar Holtshrepps vegna sveitarsjóðs Holtshrepps. Umsagnir ofangreindra aðila eru fylgiskjöl með frv. þessu.

Eins og fram kemur í fylgiskjölum með frv. eru fjmrn. og sýslumaðurinn í Skagafjarðarsýslu meðmælt efni frv. Hreppsnefnd Holtshrepps er hins vegar að hluta til andvíg efni frv. Hreppsnefndin óskar að fram komi skylda Rafveitu Siglufjarðar til greiðslu fasteignaskatta af öllum húseignum, þ. m. t. rafstöðvarhúsi. Orðalagið, sem lagt er til í frv., er eins og fyrr greinir samhljóða 16. gr. laga um Landsvirkjun um skattskyldu þess fyrirtækis. Umrædd 16. gr. hefur verið skilin á þann veg að stöðvarhúsin eru talin til húseigna og því skattskyld. Skv. því ætti orðalag frv. að koma til móts við sjónarmið hreppsnefndar Holtshrepps.

Ég vil geta þess að ég tel þetta sanngirnismál. Allt annað mál er svo þessi óregla sem er í skattlagningu, t. a. m. sú að Rafmagnsveitur ríkisins hafi sérákvæði um að greiða engin fasteignagjöld af húsum sínum. Það er annað og seinni tíma mál að samræma skattalög og það þyrftum við að taka okkur tíma til. Þetta litla mál er búið að velkjast í kerfinu í ellefu ár. Það var fyrst, held ég, farið fram á það 1974 við orkuráðh. að þessu yrði kippt í liðinn. Meðan þetta ástand varir, sem nú höfum við um skattgreiðslur raforkufyrirtækja, þá kemur ekki annað til greina en að þessari litlu virkjun sé sýnd sama regla og meðferð og öðrum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þegar þessari umr. lýkur verði málinu vísað til 2. umr. og iðnn.