14.05.1985
Efri deild: 73. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5234 í B-deild Alþingistíðinda. (4526)

5. mál, útvarpslög

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Þetta mál á sér orðið nokkuð langa sögu hér í þinginu og það frv. sem nú er komið til þessarar hv. deildar er síður en svo nýtt af nálinni, og eins og fram kom hér m. a. í framsöguræðu hæstv. menntmrh. þá er það byggt í öllum meginatriðum á tillögum nefndar sem skilaði áliti árið 1982, þannig að að stofni til og kjarna þá er þetta frv. þriggja til fjögurra ára gamalt orðið og margt hefur nú gerst á þeim tíma sem liðinn er frá því að fyrstu hugmyndir útvarpslaganefndar voru settar á blað og margt hefur breyst.

Nú er það kapítuli út af fyrir sig, sem ástæða væri kannske til að huga sérstaklega að og ræða hér, hverja meðferð þetta mál hefur fengið á Alþingi. Þetta er þingmál nr. 5 sem var lagt fram hér þegar stormar blésu á haustdögum í verkfalli opinberra starfsmanna í kjölfar útgöngu starfsmanna útvarps og sjónvarps — sem ekki skal hér mælt bót nema síður sé — og starfsemi ólöglegra útvarpsstöðva sem þá skutu upp kollinum hér einkanlega á höfuðborgarsvæðinu. Þá þótti mikið liggja við að þetta mát yrði sem fyrst að lögum og ég minnist þess úr fréttum fjölmiðla á haustmánuðum og upphafsmánuðum vetrar að þá voru jafnan fréttir með reglulegu millibili hafðar eftir m. a. formanni menntmn. Nd., að nú væri frv. að koma úr nefnd. En það var nú öðru nær. Það er ekki fyrr en í gær, mánudaginn 13. maí, sem Nd. lauk endanlega umfjöllun sinni um þetta mál. Það er auðvitað ofur skiljanlegt og ofur eðlilegt að hv. deild hafi þurft nokkurn tíma til þess að fjalla um þetta mál ítarlega, en ég leyfi mér að hafa vissar efasemdir um það að vinnubrögðin hafi verið nægilega markviss og að þessu máli hafi nægilega vel verið unnið í hv. Nd.

Síðan gerðist það í gær, þegar þetta frv. er samþykkt til Ed., að það nýtur ekki meirihlutastuðnings í Nd. Það er út af fyrir sig mjög athyglisverð staðreynd. Samkomulag, sem stjórnarflokkarnir höfðu með sér gert, brast og þegar frv. er samþykkt í gær er það samþykkt með 16 atkv., 12 voru því andvígir og 11 sátu hjá. Ég held að það sé rík ástæða til fyrir okkur alþm., þegar þessi niðurstaða er uppi í hv. Nd., þar sem 40 þm. eiga sæti, að aðeins 16 þeirra treysta sér til að ljá málinu samþykki eins og það ber að, að staldra þá aðeins við og íhuga nánar hvert við erum að stefna. Er það ætlun okkar að afgreiða hér lög sem ekki njóta stuðnings meiri hluta þingsins? Ég held að það væri mjög misráðið að þrýsta þessu máli svo fram að ekki gefist eðlilegt ráðrúm, þannig að því sé hægt að gefa þann gaum sem vert er. Við erum að breyta fyrirkomulagi sem hefur verið við lýði í 55 ár. Og ég legg áherslu á að það er kominn tími til að breyta því fyrirkomulagi, það er bjargföst sannfæring mín og það eigum við að gera, við eigum að breyta þessu fyrirkomulagi í frjálsræðisátt, en það er andstætt eðli málsins að svona breytingar eigi sér stað í einhvers konar fáti og með tilheyrandi glundroða og taugaveiklun sem nú virðist hafa gripið um sig á stjórnarheimilinu.

Ég vek enn fremur athygli á því að í nágrannalöndum okkar alls staðar hafa verið gerðar margvíslegar tilraunir í þessa átt, utan við einkaréttarramma ríkisins, mjög athyglisverðar tilraunir með ýmsum hætti, ýmsum og mjög ólíkum hætti. Ég hef ekki orðið þess var á einum stað eða neinum að menn hafi hér reynt að tileinka sér þá reynslu sem aflað hefur verið í löndunum hér í kringum okkur, læra af þeim mistökum sem þar hafa verið gerð og njóta góðs af reynslunni þar í þessum efnum. Þess sér því miður hvergi stað í þessu frv.

Ég get skýrt frá því að nú fyrir skömmu var haldin ráðstefna í Árósum í Danmörku um staðbundið útvarp, það sem á skandínavísku hefur verið kallað Nær-radio. Ég átti tal við Íslending, sem sat þá ráðstefnu, og ummæli hans voru á þá leið að hann sagði: Menn eru að tala um allt aðra hluti þar heldur en það sem verið er að tala um hér. Ég hygg að þetta sé alveg rétt. Þar hefur þetta staðbundna útvarp verið staðbundið í eiginlegum skilningi, það hefur verið mjög opið, það hefur verið nánast torg tjáningarfrelsisins, menn hafa getað komið þangað, flutt sitt mál, hverjar skoðanir sem þeir höfðu, innan marka almenns velsæmis. Þannig hefur tjáningarfrelsið aukist, lýðræðið eflst. En ég hef það því miður alltaf á tilfinningunni að hér sé meira verið að tala um að opna möguleika fyrir einhverja fáa og þá fjársterka aðila til þess að reka býsna víðtæka útvarpsstarfsemi, án þess að það sé nokkur trygging fyrir því að hið raunverulega tjáningarfrelsi almennings aukist.

Hæstv. menntmrh. vék hér áðan að kapalkerfunum og eignarrétti á þeim. Það er svo, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, að eignarréttur á fjölmiðlum hann getur verið og er, ef eigendur kjósa að beita sínum rétti þannig, höft og hömlur á tjáningarfrelsi annarra. Það þekkja allir. Þetta er auðvitað misjafnt t. d. hjá ísl-enskum fjölmiðlum og hefur batnað, en þess eru auðvitað dæmi hér og kannske ekki mjög gömul að blöð hafna greinum til birtingar vegna þess að þær eru andstæðar skoðunum eigenda blaðsins. Þess eru dæmi, þetta vita allir. Þau eru sem betur fer ekki mörg. Og undir þessum formerkjum stendur eignarrétturinn í vegi lýðræðis og eðlilegs tjáningarfrelsis. Þess vegna er það meginatriði í þessu máli að þegar við rýmkum þær hömlur, sem við eigum að gera, þá aukist tjáningarfrelsi hins almenna borgara.

Ég sagði áðan að við hefðum lítið gert að því að kynna okkur reynsluna af því sem orðið hefur í grannlöndum okkar. Ég er hér með skýrslu frá því í júní 1984. Það er skýrsla frá útvarpsnefnd um staðbundið útvarp til norska menntmrn. og heitir „Mat á tilraunum með staðbundið útvarp og staðbundið sjónvarp í Noregi.“ Í þessari nefnd áttu sæti Torbjörn Vale, Liv Haugos og Ivar Eskeland sem Íslendingum er að góðu kunnur. Einn kafli þessarar skýrslu heitir á norsku „Mangfold elle bare mange.“ Og það er þetta sem er höfuðatriði málsins, hvort það er raunveruleg fjölbreytni sem við erum að sækjast eftir og viljum fá eða hvort það er bara fjöldi. Ég segi það alveg eins og er að ég tel mig ekki bættari þó ég geti hlustað á sömu poppmúsíkina, þessi sömu 30, 40 lög sem er verið að spila daginn út og daginn inn og eru í öllum vinsældaþáttum og óskalagaþáttum ungmenna og listapoppi og hvað þetta heitir, ég er ekkert bættari með því þó ég geti hlustað á þessi 30 lög í fimm eða tíu útvarpsstöðvum, það breytir engu. Þess vegna verðum við, þegar við hyggjum á þessar breytingar, að gera ráðstafanir sem tryggja það að þarna verði um raunverulega fjölbreytni að ræða, eða eins og segir hér í þessari skýrslu, sem ég vitna aftur til og leyfi mér að lesa hér fyrst nokkur orð, fyrst á norsku: „Hovedformålet med privat kringkastning er formulert i ett ord: mangfold.“ Sem sagt, megintilgangur með einkarekstri á útvarpssviði, hann byggist á einu orði, fjölbreytni. Þetta er algert höfuðatriði í þessu máli sem ekki má horfa fram hjá.

Hér hefur deilan staðið fyrst og fremst um það hvort slíkum stöðvum eigi að leyfa að birta auglýsingar. Nú skal ég játa það að ég hef borið nokkurn ugg í brjósti vegna þessa ákvæðis og af eftirgreindum ástæðum. Ég hef óttast að slíkar auglýsingar mundu draga verulega úr auglýsingum í Ríkisútvarpinu og þar með gera það að verkum að notendur Ríkisútvarpsins greiddu í rauninni fyrir starfsemi einkastöðvanna með hærra afnotagjaldi til Ríkisútvarpsins, sem þyrfti að hækka ef tekjur af auglýsingum lækkuðu mjög. Ég hygg að þær nemi í útvarpinu um eða yfir 60% og í sjónvarpinu í kringum 30% . Þetta er það atriði sem fyrst og fremst hefur vafist fyrir mér. En ég er þeirrar skoðunar að þær leiðir t. d. sem Alþb. hefur bent á í þessum efnum séu ekki raunhæfar og þess vegna held ég, þó að það sé nokkur áhætta gagnvart Ríkisútvarpinu, að eðlilegt sé að gera tilraun af þessu tagi og leyfa auglýsingar í þessum útvarpsstöðvum að einhverju marki. Það á ekki að opna allar gáttir í fyrstu lotu, við eigum að þreifa okkur svolítið áfram. Ég held að það sé eðlilegt að þær eigi þess kost að fjármagna rekstur sinn með þessum hætti.

Nú er mér það alveg ljóst, og á það hefur oft verið bent, að þessi skoðun mín fer ekki saman við skoðanir flokksbræðra minna á Norðurlöndunum. Ég hef alveg óhikað haldið mínu máli fram í viðræðum við þá, hvort sem það hafa verið ráðherrar eða aðrir, og lýst því eindregið að þeir muni ekki geta staðið gegn auglýsingum í útvarpi og sjónvarpi. Ég hygg líka að æ fleirum þeirra sé nú að verða það ljóst og að þessi afstaða sé að byrja að breytast. Ég held að þetta sé nauðsynlegt að gera. Það er að vísu hægt að hugsa sér útvarpsstöðvar sem ekki væru með auglýsingar en það væri þá þeirra val. En útvarpsstöðvar af því tagi sem við erum hér að tala um, að ég vona, sem ná til takmarkaðra svæða, mér finnst að þær eigi að eiga þess kost að fjármagna rekstur sinn með auglýsingum sem eru tengdar verslun og þjónustu á þeirra svæði. En í tengslum við þetta, og það er ekki eins óskylt mál þessu og hæstv. menntmrh. vildi vera láta hér áðan, vil ég víkja að hinum svonefndu kapalkerfum sem við höfum hér oft rætt og nú undir nafninu boðveitukerfi.

Það má auðvitað alveg styðja það rökum að ákvæði um slíkt eigi heima í fjarskiptalögum. En það má líka styðja það rökum, og ekki veigaminni, að slík ákvæði geti alveg eins átt heima í útvarpslögum. Ég treysti mér alveg til að rökstyðja það ef þess er frekar óskað. Þessi kerfi eru notuð, eins og nú er, til þess að senda sjónvarpsefni, útvarpsefni. Það er auðvitað hægt að nota þau fyrir ýmislegt fleira líka og það eru ýmsir aðrir valkostir í þessum efnum. sem ekki eru bundnir við kapal sem grafinn er í jörðu, heldur kerfi sem ferðast eða býr í loftinu, ef svo má segja, og er tiltölulega nýkomið til sögu. Nú vitum við það og höfum oft rætt það hér á hinu háa Alþingi að svona kerfi eru starfandi og það er ekki gott til þess að vita að það skuli gerast utan ramma laganna. Þess vegna ber nauðsyn til að um þessa starfsemi verði settar eðlilegar lagareglur þannig að hún fái að mótast og dafna. Þess vegna teljum við, Alþfl.-menn, alveg nauðsynlegt og meginforsendu í þessu máli að ákvæði verði sett til bráðabirgða, meðan verið er að endurskoða fjarskiptalög og meðan verið er að koma sér niður á hvernig endanleg útvarpslög eigi að vera. þá séu ákvæði sett um boðveitukerfi, og það verði ekki í eigu ríkisins, ekki í eigu Pósts og síma. heldur verði það í eigu sveitarfélaganna á hverjum stað, sem eru hinir eðlilegu aðilar til að eiga slíkt kerfi, og það verði dregin alveg skýr mörk milli þess aðila sem rekur sjálft kerfið og þeirra sem sjá fyrir dagskrárefni í kerfið. Þetta er algert grundvallaratriði, það sem á ensku hefur verið nefnt „common carrier“-reglan og þetta finnst mér vera höfuðforsenda málsins. Ef sami aðilinn á kapalkerfið, boðveituna og leggur til dagskrána í það, hvernig á þá að tryggja rétt hins almenna borgara gagnvart þessum aðila? Við skulum segja að það sé dagblað eða samsteypa einhverra fyrirtækja sem eru í útgáfu og öðrum rekstri. Ég sé ekki að það væri auðvelt. Ég mundi treysta slíku miklu betur undir forustu sveitarfélags, jafnvel þó ég væri annarrar pólitískrar skoðunar en sá meiri hluti sem réði fyrir sveitarfélaginu. Það skiptir ekki höfuðmáli. En ég held að þetta sé algert meginatriði í þessu máli. Þessi mál eru samtengd í grundvallaratriðum og það er ekki hægt að slíta þau í sundur.

Við erum hér með frv. sem er komið á fjórða ár. Það er búið að gera á því ýmsar breytingar og ég hef látið hafa það eftir mér að þetta sé að verða hálfgerður óskapnaður, og það ríkir mikill ágreiningur um marga þætti málsins, sbr. úrslit atkvgr. í hv. Nd. í gær. Mér finnst vel koma til athugunar að horf.a á fleiri möguleika í þessu máli til að leita samkomulags, til að freista þess að málið fái sæmilega skynsamlega afgreiðslu og framgang hér í þinginu. Ein af þeim leiðum sem mér hafa komið til hugar er sú, að aftan við núverandi útvarpslög yrði hreinlega sett ákvæði til bráðabirgða. sem gilti í þrjú ár, þar sem væri kveðið á nánar með hverjum hætti ætti að vinna að þessum málum á tilraunatímabili næstu þrjú árin. Þetta frv. var, eins og ég var að segja, kannske ekki mjög gott í upphafi. En það er búið að sæta illri meðferð og ég held að þær atkvæðatölur sem birtust í Nd. í gær sýni okkur svo ekki verði um villst hve feiknalega víðáttumikill ágreiningur er um málið í þinginu. Og ég segi það alveg hispurslaust og af fullri einlægni að ég vildi mega leggja mitt af mörkum til þess að freista þess að skapa einhvers konar breiðari samstöðu um þetta mál, sem ég tel mjög brýnt að nái fram að ganga fyrir þinglok. en jafnframt að það nái fram að ganga í þeirri mynd sem við getum sem flest sætt okkur við og sem við teljum að verði tjáningarfrelsinu, lýðræðinu og þróun fjölmiðlunarmála á Íslandi til góðs.

Við skulum ekki gera litið úr mikilvægi þessara fjölmiðla. Ég hygg að á haustdögum, þegar útvarp og sjónvarp hættu sinni starfsemi, hafi runnið allt í einu upp ný staðreynd fyrir ákaflega mörgum, kannske allri þjóðinni. Þegar við það bættist að blöð komu ekki út, þá rann upp sú staðreynd hvers konar bindivefur þjóðarlíkamans fjölmiðlarnir eru. Það var eins og þjóðfélagið losnaði í sundur þegar þessir fjölmiðlar hættu. fólk fylltist öryggisleysi. jafnvel mætti segja hræðslu. Það ástand sem þá skapaðist var mjög alvarlegt. Í rauninni held að að menn hafi aldrei gefið því nægilegan gaum hversu alvarlegt ástand skapaðist þessa daga og það ástand má auðvitað aldrei skapast aftur. aldrei.

Ég ætla ekki, virðulegi forseti. í löngu máli að gera grein fyrir þeim brtt. sem af hálfu Alþfl. voru fluttar við þetta frv. í Nd. Þær voru margar og ítarlegar og voru í rauninni að nokkru leyti nýtt frv. Sumar þeirra voru dregnar til baka. þær sem minna máli þóttu skipta, öðrum var haldið til streitu og þær voru látnar ganga til atkvæða og þar fór sem fór. Ég tel alls ekki fullreynt hvern byr þessar tillögur hafa hér í þessari hv. deild og verður að sjálfsögðu látið á það reyna þegar þar að kemur. En ég minntist á það hér áðan með hve ólíkum hætti við nálgumst þetta mál og t. d. Norðmenn. Þeir fóru nákvæmlega þá leið sem ég var að lýsa áðan. Þeir tóku ekki sín útvarpslög og umbyltu þeim. Þeir veittu heimild í gildandi lögum til að auka þetta frelsi og þar hófst fyrst tilraunatímabil með frjálst útvarp af þessu tagi. sem við erum vonandi að tala hér um. haustið 1981 og vorið 1982. Því tilraunatímabili lauk 1. sept. 1984. Þá höfðu 50 aðilar fengið leyfi til að reka í Noregi staðbundnar útvarpsstöðvar og staðirnir voru valdir þannig að þeir væru sem ólíkastir. Það var dreifbýli, það var þéttbýli. það var norðurlandið og það var suðurlandið og vesturlandið. Og hvaða aðilar voru það sem fengu leyfi til að reka þessar stöðvar? Ég get talið nokkur dæmi. Það voru ýmiss konar kristileg félög, það voru stjórnmálafélög, það voru mannúðarsamtök ýmiss konar, bindindisfélög, félög sem beita sér gegn notkun fíkniefna. það voru stúdentafélög, æskulýðsfélög, íþróttafélög, auk ýmissa annarra samtaka og einstaklinga.

Á þessu fyrsta tilraunatímabili, hverjum var þá synjað um leyfi? Dagblöðum, atvinnurekendum og landssamtökum, vegna þess að þeir voru að gera tilraunir með staðbundið útvarp. En Norðmenn létu ekki þar við sitja. þetta eina tilraunatímabil. Þegar hinu fyrra lauk 1. sept. 1984 þá hófst annað tilraunatímabil og það stendur til 1. sept. 1986. Þeir hafa skipt landinu í 91 útvarpssvæði og í 40 sjónvarpssvæði, 14 svæði þar sem leyft er að taka á móti sjónvarpi frá gervihnöttum og 12 svæði þar sem þeir hafa leyft útvarp sem þeir kalla æfingaútvarp, að mér sýnist, á norsku en mér er ekki alveg ljóst í hverju er fólgið. Þetta þýðir það að á þessu seinna tilraunatímabili fá 318 aðilar leyfi til útsendinga í útvarpi. 119 fá leyfi til að gera tilraunir með staðbundið sjónvarp á þessum 40 tilgreindu svæðum. Nú hefur sú breyting orðið á að dagblöð fá að vera aðilar að þessu og pólitískir flokkar hafa fengið leyfi til að stunda svona staðbundinn útvarps- og sjónvarpsrekstur. Norðmenn hafa því flýtt sér hægt í þessum efnum. Engu að síður hafa þó ýmsar keldur orðið á þeirra leið í þessum efnum og þess vegna m. a. hafa þeir ákveðið að hafa þetta seinna tilraunatímabil til að öðlast enn aukna reynslu. Það er t. d. ein af þeim keldum sem Norðmenn hafa lent í að þeir hafa bannað allar auglýsingar, þær eru bannaðar. En mannskepnan er nú þannig gerð að hún hefur oft lag á því að finna leiðir fram hjá boðum og bönnum ef hún hefur á því mikinn hug. Það vandamál hefur skotið upp kollinum í Noregi að þeir hafa selt tíma til dagskrárgerðar ýmiss konar samtökum. Við gætum nefnt samtök eins og samtök mjólkuriðnaðarins og bílgreinasambandið. Slík samtök hafa greitt þessum stöðvum fé og fengið að leggja til dagskrá. Þetta er afleitt fyrirkomulag og Norðmenn viðurkenna að þetta sé slæmt. Hvers vegna er þetta afleitt fyrirkomulag? Vegna þess að hlustandinn, neytandinn á heimtingu á að fá að vita hvenær hann er að hlusta á efni sem einhver hefur borgað fyrir að koma á framfæri, eða hvenær hann er að hlusta á dagskrá frá stöðinni. Þess vegna er þetta fyrirkomulag ekki af hinu góða.

Ég hef sömuleiðis séð þætti í sænska sjónvarpinu, hinu auglýsingalausa sænska sjónvarpi, sem voru hreinar auglýsingar. Það var látið heita að það væri kynning á bílum. Það hét það, en þátturinn í heild var ekkert annað en auglýsingar. Og raunar hafa Svíar byrjað með og hafa haft nokkuð lengi dagskrárþátt í sínu sjónvarpi sem mig minnir að heiti Anslagstavlan og er eins konar auglýsingaþáttur þó ekki sé kannske greitt fyrir þær auglýsingar.

Ég hef í blaðagreinum bent á að það séu líka ýmsar aðrar leiðir í þessum efnum sem við getum hugleitt. Þá hugsa ég út frá því að fjárfesting í útvarps- og sjónvarpsstöðvum er mikil og dreifikerfi dýrt. Ríkisútvarpinu hefur gengið nægilega illa að koma sinni dagskrá um allt landið. Og auðvitað þarf ekki að hugsa til þess að neinn einkaaðili reisi dreifikerfi sem nær til alls landsins. Það verður númer eitt í fyrsta umgangi að hugsa hér um Faxaflóasvæðið, það á sér sínar eðlilegu skýringar. En hvers vegna má ekki fara þá leið að nýta betur dreifikerfi Ríkisútvarpsins? Hvers vegna má ekki bjóða einhverjum aðilum, gegn hæfilegri þóknun, að senda út á kvöldin, á nóttunni þegar dreifingarkerfi Rásar 2 er ekki notað af Ríkisútvarpinu? Hvers vegna í ósköpunum má ekki bjóða einhverjum samtökum að nota fimmtudagskvöldin sem Ríkisútvarpið vill ekki nota? Af hverju má ekki leigja dreifikerfi sjónvarpsins á fimmtudagskvöldum þeim aðilum sem vildu reka einhvers konar öðruvísi sjónvarpsstöð? Af hverju má ekki leigja þetta dreifikerfi á morgnana, eftir hádegið, á laugardagsmorgnum og sunnudagsmorgnum? Ég er alveg sannfærður um að það mundu ýmsir hafa áhuga á því. Af hverju ekki að nota þetta dreifikerfi sem er til staðar en er ekki notað nema 6–7 klst. af þeim 24 sem eru í sólarhringnum? Það mætti þá nota þá peninga sem koma inn fyrir leiguna á dreifikerfinu til þess að efla innienda dagskrárgerð. Og þá erum við komin að atriði sem hér hefur verið vikið að, bæði af hæstv. menntmrh. og hv. 3. þm. Norðurl. v., sem talaði hér næstur á undan, eflingu innlendrar dagskrárgerðar.

Það er bjargföst sannfæring mín að á næstu árum verði íslenska sjónvarpið að leggja verulega meira fjármagn til innlendrar dagskrárgerðar, ekki endilega í sölum sjónvarpsins heldur með því að miðla því fjármagni út til íslenskra kvikmyndagerðarmanna, sem hafa sýnt og sannað á undanförnum árum hverju verki þeir geta valdið, ef við ætlum að halda okkar menningarlegu reisn í því flóði af þjóðlausu afþreyingarefni sem flæðir yfir okkur. Ég segi þjóðlausu, vegna þess að þó það sé kannske engilsaxneskt að framleiðslu til, þá er þetta orðið þjóðlaust efni. Ég er ekki að segja að það sé skaðlegt endilega, það er mest af því meinlaust, en við verðum líka að gæta þess að halda okkar reisn í menningarlegu tilliti.

Mig minnir að í fyrra eða hitteðfyrra hafi framboðið á sjónvarpsklukkutímum í Evrópu verið farið að nálgast 100 þúsund á ári. Á sama tíma var evrópsk kvikmyndaframleiðsla innan við 1000 klst. Og það segir sig auðvitað sjálft hvar þetta endar. Þetta er dýr framleiðsla í eðli sínu og áreiðanlega fer það líka vaxandi að við leitum samvinnu við aðrar þjóðir um ýmiss konar dagskrárgerð sem tengist okkur og íslenskri menningu þegar við teljum það ákjósanlegt. Slík samvinna hefur farið mjög vaxandi á undanförnum árum og fer enn, bara vegna þess að þessir hlutir eru að verða svo dýrir, ef þá á að vinna vel og af þeim myndarskap sem þarf, að það verður einstökum fyrirtækjum og í sumum tilvikum einstökum þjóðum ofviða. Þar þarf að gera gífurlegt átak á næstu árum. Og ég fullyrði það að innan Ríkisútvarpsins og í útvarpsráði er fullur vilji til að standa að því að efla innlenda dagskrárgerð. Ég hef verið talsmaður þess þar að þau verkefni sem unnin eru á vegum stofnunarinnar séu ekki endilega öll unnin í sölum sjónvarpsins, heldur séu notaðir kraftar þeirra manna sem gerst þekkja til verka og hafa sýnt og sannað hverju þeir fá áorkað.

Ég held, virðulegi forseti, að það sé ýmislegt í þessu máli sem við höfum afskaplega litið rætt og sem sé ákaflega brýn þörf að ræða. Þess vegna eigum við að auka þetta frelsi, við eigum að stíga fyrstu skrefin fremur varlega og fara með gát, það er hygginna manna háttur. Ég er ekki að gerast neinn úrtölumaður en ég vil heldur ekki að anað eða flanað sé að hlutunum. Ríkisútvarpið hefur sterka stöðu og ég er sannfærður um það að stjórnendur þess hafa fullan vilja og getu til þess að halda uppi reisn þess og virðingu í samkeppni við aðra. Ríkisútvarpið er og verður sá fjölmiðill sem tengir alla þjóðina saman, og sem er ekki aðeins menningarstofnun heldur líka mikilvægasta öryggisstofnun íslensku þjóðarinnar á tímum þegar vá steðjar að, eins og sýnt hefur sig á undanförnum árum. Þess vegna má það ekki gerast að þessi þróun dragi úr og geri Ríkisútvarpinu verulega erfiðara fyrir.

Ég sagði hér áðan, virðulegi forseti, að ég mundi ekki nota þennan tíma hér til þess að fjalla ítarlega um þær brtt. sem Alþfl. hefur flutt við útvarpslagafrv. Ég minni enn og aftur á það sem ég hef sagt um það sem nefnt hefur verið boðveitukerfi og hvernig ég tel að það tengist þessu máli, og jafnframt að það sé ekkert því til fyrirstöðu að slík ákvæði séu í útvarpslögum um sinn, meðan unnið er þá að endurskoðun fjarskiptalaga, ef það verður ofan á alfarið að menn telji að þetta eigi heima þar. Það eru ýmis atriði hér sem er enginn ágreiningur um, eins og móttaka sjónvarps frá gervihnöttum sem er ætlað beint til notenda. Það er a. m. k. enginn ágreiningur af okkar hálfu um það sem stendur í frv. varðandi það.

En ég ítreka það aftur og enn er ég nú lýk máli mínu, virðulegi forseti, að ég tel afar brýnt að reynt sé að tryggja víðtækari samstöðu hér í þessari hv. deild en raunin varð á í hv. Nd. Ég held að það skipti höfuðmáli fyrir framgang alls þessa máls að um það geti verið sæmilegur friður í þjóðfélaginu. Það held ég skipti öllu máli. Og ég held að við hér í hv. Ed. ættum að reyna að leggja okkur í lima til þess að það megi takast.