14.05.1985
Neðri deild: 69. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5242 í B-deild Alþingistíðinda. (4534)

355. mál, starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Herra forseti. Þetta frv. sem hér er nú til einnar umr. var flutt af hv. heilbr.- og félmn. þessarar deildar að beiðni hæstv. heilbr.- og trmrh. Það er nú komið frá Ed. þar sem gerðar voru á því nokkrar minni háttar breytingar sem mér þykir rétt að gera grein fyrir í örstuttu máli.

Í fyrsta lagi voru gerðar við 2. gr. lítils háttar breytingar: einu orði breytt í 1. mgr., 2. mgr. er orðuð með markvissari hætti en áður og svo er bætt við nýrri mgr. í lok 2. gr.mgr. er svohljóðandi:

„Gerist Ísland aðili að milliríkjasamningi um gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum heilbrigðisstétta er undir lög þessi falla skal fara eftir ákvæðum þessarar greinar eftir því sem við getur átt og samrýmst viðkomandi milliríkjasamningi.“

Þetta er viðbótin.

Síðan er hér breyting við 6. gr., en þar er felld brott 3. mgr. sem var svohljóðandi:

„Með mál sem kunna að rísa vegna brota á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.“

Þessi mgr. er óþörf þar sem viðurlög við brotum eru í læknalögum og ákvæðið sem er í 6. gr. varðandi það atriði er talið nægja.

Þá falla niður í 8. gr., lokagreininni, orðin „með síðari breytingum. að undanskildum ákvæðum um tannsmiði í lögum nr. 39/1980.“

8. gr. verður þá svohljóðandi þegar þetta hefur verið fellt brott:

„Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 64/1971 um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir.“

Rökin fyrir því að ákvæðið um tannsmiði gildi ekki áfram eru þau að í fyrsta lagi eru lög 64/1971, um tæknimenntaðar heilbrigðisstéttir, numin úr gildi með 8. gr. þessa frv., ef að lögum verður, og getur því ákvæðið um tannsmiði naumast staðið eitt og sér. Þess vegna er rökrétt að fella þessi orð niður. Það skal skýrt tekið fram til þess að fyrirbyggja hugsanlegan misskilning að réttarstaða tannsmiða breytist ekkert við þessa breytingu. Ákvæði um tannsmiði eru í reglugerð um iðnfræðslu nr. 558 frá árinu 1981. 6. gr.

Heilbr.- og trn. hefur kannað þessar breytingar, sem ég hef hér gert grein fyrir og gerðar voru í hv. Ed., og nm. eru þeim samþykkir. Þá hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. greint mér frá því í viðtali að hann fallist á þessar breytingar fyrir sitt leyti, en hæstv. ráðh. situr ekki á þingi um þessar mundir og vildi ég því koma þessari skoðun hans á framfæri.