15.05.1985
Efri deild: 74. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5268 í B-deild Alþingistíðinda. (4551)

5. mál, útvarpslög

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég get verið stuttorð. Mínar hugmyndir um skipan útvarpsmála hafa áður komið fram hér á hæstv. Alþingi. Ég hef gert rækilega grein fyrir þeim og sé ekki ástæðu til að endurtaka þær hér og nú. Þær eru hv. þm. væntanlega enn í fersku minni. En ég vil láta það koma fram að afstaða mín í þessum málum grundvallast á þeirri sannfæringu minni að nauðsyn sé að breyta í frjálsræðisátt í skipan útvarpsmála eins og menn hafa iðulega tekið hér til orða. Það er einnig mín sannfæring og ég hef gert grein fyrir því hvaða leiðir ég vil fara í þeim efnum í því frv. sem hefur verið til meðferðar í hv. menntmn. Ed. síðan 13. febrúar s. l.

Hvað það frv. varðar eða safn tillögugreina sem hingað hefur verið skilað frá hv. Nd. og er hér nú til 1. umr. er það fljótsagt að því er ég andvíg. Ég er andvíg því vegna þess að það tekur ekki tillit til þess að útvarp er þjónusta við landsmenn en ekki „bisness“ eins og hæstv. fjmrh. orðar það fyrirbæri gjarnan hér úr ræðustól. Ég er andvíg því vegna þess að það tekur eingöngu mið af því hver megi standa fyrir útvarpi hér á landi, ekki hvernig útvarp við viljum stuðla að að hér blómstri. Ég er andvíg því vegna þess að það tekur ekki mið af því að við erum fámenn þjóð í stóru landi og að nauðsynlegt er að gæta jafnaðar milli landshluta og, sem ekki skiptir minna máli, tryggja rétt þeirra sem minni hluta skipa á hvaða sviði sem er. Ég er andvíg því líka vegna þess að á meðan ég tel það algjörlega nauðsynlegt að við nýtum okkur það besta sem völ er á úr menningu annarra þjóða og í eins miklum mæli og framast er kostur, þá ber okkur skylda til að reyna að sjá til þess að það sé það verðugasta sem aðrar þjóðir hafa fram að færa sem við nýtum okkur og til þess tekur þetta frv. ekki.

Virðulegi forseti. Ég gæti tiltekið fjölda margt fleira sem skilur á milli minnar afstöðu í þessum málum og afstöðu hæstv. menntmrh. en það hefur þegar margsinnis komið fram hér á hæstv. Alþingi svo og á síðum dagblaða og öldum ljósvakans og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það fyrir þá fáu þm. sem sjá ástæðu til að hlýða hér nú á þessa umræðu.

Ég vil taka undir það, sem kom fram í máli hv. 5. landsk. þm., að þetta frv. ber að hér í hv. Ed. með þeim hætti að ljóst er að hreinn meiri hluti var ekki fyrir því í Nd. Þótt ekki væri annað þá gefur það okkur tvímælalaust ástæðu til að staldra við og íhuga okkar gang gaumgæfilega. Að rasa að jafn veigamiklum málum og þessum og við þær aðstæður að aðeins fáir þm. geta heilshugar staðið að því er fásinna og vinnubrögð sem ekki eru sæmandi hæstv. Alþingi.

Ég á sæti í þeirri hv. nefnd sem fær þetta mál til meðferðar. Ég vil láta það koma hér fram að ég tel einsýnt að þetta mál verði að skoða mjög vel í nefnd og ég mun fara fram á að það verði skoðað þar ásamt því frv. sem ég hef flutt áður og vísað var til nefndarinnar 13. febrúar s. l. Ég mun æskja þess að þessi tvö frv. verði skoðuð í samhengi og gaumgæfilega bæði tvö.