15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5310 í B-deild Alþingistíðinda. (4603)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja örfá orð um þetta frv. hér við 1. umr. Hér er ekkert smámál á ferðinni. Hér er um stórmál að ræða fyrir íslenskan landbúnað og í raun og veru íslenski þjóðfélag, frv. til laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum.

Hæstv. landbrh. lét þess getið að ekki væri vanþörf á því að endurskoða þessi lög. Það er rétt. Lögin eru að stofni til frá 1947 og hafa gilt að meginefni til fram á þennan dag. Að vísu hafa verið gerðar á þeim nokkrar veigamiklar breytingar, aðallega tvær. frá því um 1960 og síðan 1979, þegar nokkur stjórn var tekin upp á búvöruframleiðslunni.

Ég verð að játa það að ég hef ekki kynnt mér þetta frv. nákvæmlega. Þó hef ég fylgst dálitið með undirbúningi þess. Ég hygg, miðað við stærð þessa málefnis. að þetta sé nokkuð snöggsoðið. Ég efast ekki um að þeir menn, sem að þessu frv. hafa unnið, hafi starfað af samviskusemi og vandvirkni. Þeir eru taldir upp á bls. 16 í upphafi grg. Það eru ágætir menn sem bera skyn á þessi mál. En það þarf dálitið meira til að koma. Ég er ansi hræddur um að þetta frv. hafi ekki verið kynnt eins vel og í raun og veru þarf fyrir bændastéttinni og þeim mönnum sem við það eiga að búa.

Landbúnaðurinn og bændastéttin hafa átt undir högg að sækja á undanförnum árum. Bændur hafa orðið að þola tíðar árásir úr ýmsum áttum. Það hafa margir talið sig hafa efni á því að kasta steini að þeim. Þeir hafa þó yfirleitt ekki svarað fyrir sig að neinu ráði nema með því að viðurkenna að þetta vandamál er nokkuð stórt. Ég tel að bændur hafi viðurkennt það bæði í orði og verki, ekki síst á þann hátt að vinna af heilum hug að því að takmarka landbúnaðarframleiðsluna. Það er rétt, sem síðasti ræðumaður gat um. hv. 4. þm. Norðurl. e., að á skömmum tíma hafa bændur t. d. fækkað fé sínu úr 900 þús. niður í 700 þús. Og haft í frammi fleiri tilraunir til þess að draga úr landbúnaðarframleiðslunni. Þess vegna tel ég að þetta mál þurfi að athugast mjög gaumgæfilega.

Það er sagt að í þessu frv. sé mikið vald flutt til ráðh. sem hefur verið dreift áður. Við höfum misjafna reynslu af þeirri stefnu, satt að segja. þó að margir góðir menn hafi fyrr og síðar setið í ráðherrastól.

Mig hefur nokkuð undrað hvað forsvarsmenn bænda á hv. Alþingi hafa tekið létt á því máli að draga stórlega úr útflutningsbótum á skömmum tíma, miðað við það hvað þetta var mikil trygging fyrir alla bændastéttina þegar ákvæði um þetta efni voru sett í lög. Á sama hátt undrast ég hvað margir menn hafa ánetjast þeirri stefnu að draga úr, jafnvel fella allar niðurgreiðslur niður á fáum árum eða skömmum tíma. Það er þó mála sannast að niðurgreiðslur hafa oft komið að miklum notum. bæði framleiðendum og neytendum. Nú, það er rétt að við verðum auðvitað að horfa til þeirrar áttar að takmarka framleiðslu okkar við innanlandsmarkað. En við megum samt ekki loka þeim dyrum sem hægt er að horfa út um til annarra átta.

Ég efast um að ég hafi efni á því að gagnrýna þetta frv. mikið meira lið fyrir lið á þessu stigi. Ég mun að sjálfsögðu athuga það gaumgæfilega á þann hátt sem ég hef framast tök á á þeim skamma tíma sem meðferð þess á að taka. Ég mun athuga m. a. hvort það samræmist þeirri byggðastefnu sem ég hef reynt að hafa fyrir augum á undanförnum árum, hvort það miðar í rétta átt hvað byggðaþróun í landinu varðar. Ef ég kemst að raun um að þetta frv., skoðað frá ýmsum hliðum horfi íslenskri bændastétt og íslenskum landbúnaði til heilla, þá mun ég styðja það. en ekki nema ég sannfærist um þessi atriði við nánari kynni.