15.05.1985
Neðri deild: 70. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5333 í B-deild Alþingistíðinda. (4608)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég get tekið undir margt af þeim almennu hugleiðingum sem hv. 4. þm. Norðurl. e. flutti hér áðan og skal ekki endurtaka það sem við erum sammála um. En aðeins vegna spurningar hans um frestun á afgreiðslu frv. vil ég ítreka það sem ég sagði, að ég beini þeirri ósk til hv. landbn. að hún reyni að haga sínum vinnubrögðum þannig að unnt sé með góðu móti að afgreiða þetta frv. nú fyrir þinglok. Það hefur ekki verið settur neinn ákveðinn endapunktur enn þá á þann tíma. Það er vissulega rétt að þingmenn hafa haft nóg að gera við vinnu að málum að undanförnu. En það er æskilegt að hægt sé að koma áfram málum sem menn telja að standi til bóta.

Ég vil aðeins benda hv. þm. þó á að um félagsbúskap voru sett ákvæði í lög í fyrra og verið er að vinna að því að koma þeim til framkvæmda til þess að styrkja það rekstrarform. Þetta er því eitt af þeim dæmum sem við erum sammála um.

En ég held að rökin fyrir því að þetta frv. þurfi að ná fram að ganga sé núverandi staða sem mér heyrðist hv. 4. þm. Norðurl. e. ekki vera nægilega ánægður með. Þetta frv. á einmitt ekki að leiða til fækkunar bænda. Það á að reyna að finna önnur verkefni fyrir suma þeirra sem nú stunda hefðbundinn búskap til þess að allir geti haft nóg að starfa og nægilega stór bú til þess að hafa fulla vinnu með viðunandi afkomu. Ég held að þetta sé auðskilið svo að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um það.

Ég vil aðeins benda á í sambandi við ráðstöfun á fjármagni úr Framleiðnisjóði að vissulega er það möguleiki að Alþingi skipti þessu fjármagni. Ég vil þó benda á að það getur verið betra að hægt sé að haga þessu nokkuð eftir þörf á hverjum tíma en menn sjá kannske greinilega fyrir fram. En fjárhagsáætlun Framleiðnisjóðs er samþykkt af ríkisstj. í heild svo að það er ekki landbrh. einn sem mótar skiptingu fjármagnsins í grófum dráttum.

Ég vil svo ítreka þakkir fyrir þann áhuga sem fram hefur komið hjá ræðumönnum hér og vænti þess að málið fái farsælt framhald hér í þinginu.