20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5433 í B-deild Alþingistíðinda. (4687)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Það er eins og fyrri daginn þegar saman koma miklir andans menn eins og hv. 5. þm. Vestf. að umræðan vill leiðast út um víðan völl og þannig er það hér. Þegar menn fara að ræða um nýtt frv. til l. um breyt. á lögum um stjórn efnahagsmála, þar sem meginefnið kemur fram í upphafsgreinum þess, sem sagt að úr gildi falli hvers konar ákvæði kjarasamninga sem byggja á framangreindum lagaákvæðum, þ. e. verðbætur á laun, þá fara menn að ræða þessi mál fram og til baka. Hv. 5. þm. Reykv. eyddi t. d. drjúgum hluta sinnar ræðu í það að fjalla fram og til baka um ástand og horfur í fiskiðnaði, launakjör fiskvinnslufólks og fleira í þeim dúr.

Hv. 5. þm. Vestf. flutti athyglisvert erindi, innlegg í hagfræðiumræðu, eins konar framsóknarhagfræði vaxtanna sem væntanlega og hugsanlega og kannske verður tekin upp sem kennslugrein eða valgrein við einhvern skólann. (SJS: Samvinnuskólann.) T. d. Samvinnuskólann, hv. þm. Ég ætlaði einmitt að koma því að að það gæti verið fróðlegt fyrir nemendur Samvinnuskólans að lesa þennan ágæta fyrirlestur 5. þm. Vestf. um vaxtamál. Raunar hafði ég hugsað mér að blanda mér nokkuð í þessar umr. áður en til mín var beint ákveðinni áskorun frá hv. 5. þm. Vestf. sem greinilega vildi gjarnan heyra mitt sjónarmið í þessum efnum. Raunar taldi ég að honum ættu að vera þessi sjónarmið mín nokkuð kunn, en víst skal ég ekki skorast undan því að reifa þau enn frekar í sölum hv. Alþingis.

Það sem bögglast helst fyrir brjóstinu á 5. þm. Vestf. var að raunvaxtastig á Íslandi væri hátt. Það sem menn þyrftu að greiða fyrir afnot af lánsfé væri hærra en honum þætti viðurkvæmilegt. Og hv. þm. var svo hugkvæmur að finna upp á nýrri viðmiðun við ávöxtun lánsfjár. Hann velti því fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að ávöxtunarkjör lánsfjárins miðuðust t. d. við verðlagsþróun á fasteignaverði hér í Reykjavík eða annars staðar í landinu. Þetta er að vísu ákaflega fróðleg og athyglisverð viðmiðun. Það kom fram í máli hans að á tilteknu tímabili hefði fasteignaverð á Reykjavíkursvæðinu lækkað um 6% og jafnframt hefði fasteignaverð á landsbyggðinni lækkað enn þá meira. Og hann spurði: Er ekki eðlilegt að hafa þetta allt saman til viðmiðunar? Ég veit ekki hvað hv. 5. þm. Vestf. finnst eðlilegt, en finnst honum eðlilegt að ávöxtunarkjör á sparifé almennings — og ég tala sérstaklega um sparifé almennings vegna þess að það er almennt launafólk sem stendur undir sparnaðinum í landinu — ráðist af duttlungum fasteignamarkaðar í Reykjavík, á Akureyri, í Bolungarvík eða einhvers staðar annars staðar? Vitaskuld ekki. Ef það væri þannig og við hefðum til viðmiðunar þau 6% sem hann talaði um, þá væri það fólk sem legði til hliðar fé til sparnaðar rænt um 6% af þessu fé á ári hverju og vitaskuld væru það ekki eðlileg ávöxtunarkjör. Ég get ekki ímyndað mér að 5. þm. Vestf. finnist það heldur.

Vitaskuld bögglast það fyrir okkur flestum að skilja hvers vegna máli sé þannig komið nú að við höfum horfið frá því að hafa neikvæða raunvexti og til þess að hafa mjög háa raunvexti, a. m. k. ef við miðum við ástand mála undanfarna áratugi, og við hljótum að velta fyrir okkur hver sé skýringin á þessu. Nú býst ég ekki við því að nokkur þm. sé til lengur sem ber í bætifláka fyrir það ástand sem ríkti hér á sparifjármarkaði á síðasta áratug eða svo þegar sparifjáreigendur voru rændir milljörðum króna. Þeir liggja nú t. d. í háum höllum vítt og breitt um Breiðholtið og víðar. Húsbyggjendur og ýmsir þeir sem stóðu í fjárfestingum, braskararnir sem svo eru kallaðir af sumum hv. þm. nutu góðs af. Sparifé almennings liggur í braskinu. Það liggur í ýmsum húsbyggingum. Það liggur í misvitrum fjárfestingum og vítt og breitt um landið.

Vitaskuld trúi ég því ekki að nokkur þm. vilji leggja blessun sína yfir viðlíka ástand. Menn eru einfaldlega ekki lengur að tala um að hverfa til þess ástands að sparifé sé brennt á báli verðbólgunnar. Við sáum hvað gerðist. Sparifjármarkaðurinn hrundi. Framboð á sparifé dróst saman. Það sem menn gátu fengið að láni innanlands minnkaði. Afleiðingin var aukin lántaka erlendis. Þetta er einmitt ein meginskýringin á því að við búum við svo hátt raunvaxtastig sem raun ber vitni.

Í fyrsta lagi eru sparifjáreigendur á Íslandi orðnir hvekktir. Þeir treysta ekki lengur stjórnmálamönnum til þess að ráðskast með ávöxtunarkjör. Þeir eru hvekktir á því að hafa orðið að búa við það í rösklega áratug að vera rændir hluta af því fé sem þeir gátu lagt fyrir, oft í kjölfar langrar vinnu og mikils álags. Sparifjáreigendur eru þess vegna hikandi við að leggja fé sitt á bók vegna þess að þeir óttast að hin stóra krumla ríkisvaldsins komi einn góðan veðurdag og ákveði, sjálfsagt í góðum hug, að lækka nú þessa vexti, ná þessu fé og nota það til einhverra misþarfra hluta. Þetta er ein skýringin á því að fólk óttast enn þann dag í dag að leggja fé sitt á bók í innlánsstofnunum og reynir að verja því til annarra hluta. Þetta er ein skýringin á háu raunvaxtastigi, hv. 5. þm. Vestf.

Önnur skýringin er sú, eins og hæstv. forsrh., flokksbróðir hv. 5. þm. Vestf. og raunar 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson hefur verið óþreytandi að minna okkur á undanfarnar vikur og mánuði, að nú er rösklega helmingurinn af því sparifé sem lánað er út úr bönkum ættað úr Wall Street og þar spyrja menn ekki um hvort íbúðarverð í Reykjavík hafi hækkað prósentinu meira eða minna þegar þeir lána hingað fé. Það þyrfti þá að semja við þessa lánardrottna okkar erlendis í Wall Street um það hvort þeir vildu ekki veita okkur vaxtaafslátt vegna þess að fasteignaverð hafi lækkað upp á síðkastið úti á landsbyggðinni m. a. fyrir atbeina og tilstilli núv. ríkisstj.

Ég held við þurfum að átta okkur á því að þrátt fyrir góðan ásetning eru stjórnmálamenn ekki alls megnugir. Ég held að þetta ættu og þyrftu stjórnmálamenn að fara að gera sér ljóst, en vera ekki alltaf að skipta sér af því sem þeir hvorki geta ráðið við né eiga að vera að glíma við. Stjórnmálamenn geta ekki til lengri tíma, hvort sem þeim líkar það betur eða verr, ráðið ávöxtunarkjörunum í landinu, ekki a. m. k. með þeim stjórntækjum sem við teljum eðlileg í lýðræðisþjóðfélagi, ekki nema þá á óbeinan hátt. Og ég er ekki farinn að sjá það að stjórnmálamenn, margir hverjir a. m. k., hafi til þess pólitískan kjark. Ef við viljum t. d. reyna að ná niður raunvaxtastiginu eins og það er nú er eitt af því sem við þurfum vitaskuld að gera að hætta að reiða okkur í svo miklum mæli á lánsféð úr Wall Street, hætta að reiða okkur á það lánsfé sem þar býðst á háum vöxtum, raunar mun hærri en gerist og gengur í almennum útlánakjörum á Íslandi. Það er rangt og það er mikill misskilningur, eins og margoft er haldið fram, að raunvaxtastigið á Íslandi sé hærra en gerist og gengur í Vestur-Evrópu og Ameríku. Það er kannske helst þegar Samband íslenskra samvinnufélaga ákveður að bjóða verðbréf til sölu að raunvextirnir verða hærri en þeir eru almennastir á fjármagnsmarkaði erlendis. Við þurfum sem sagt að reyna að draga úr þessum erlendu lántökum og reiða okkur í minna mæli á auðjöfrana og lánardrottnana í Wall Street.

Í öðru lagi er um tómt mál að tala að ríkisvaldið geti skipað almenningi fyrir um það að lána út fé á lægri vöxtum en gert er á meðan ríkisvaldið sækir í jafngrimmum mæli, jafnríkum mæli og raun ber vitni inn á íslenskan fjármagnsmarkað. Það er vegna þess að ég les ekki nægilega vel stundum auglýsingarnar frá félaga Albert að ég man ekki nákvæmlega hvernig slagorðið hljómar sem getið hefur að líta yfir þverar breiðsíður dagblaðanna, en það er eitthvað á þá leið: Nú slær ríkið allt út. Forsenda auglýsingarinnar er sú að það ríki slíkt kraðak á vaxtamarkaðnum að fólk sé orðið yfir sig undrandi, skilji ekkert í þessu, viti ekki hverjir bjóði bestu ávöxtunarkjörin, en nú komi ríkið, stóri bróðir, og bjargi öllu og bjóði best. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir á mæltu máli að það er verið að hækka raunvextina í landinu. Ríkið hækkar raunvextina með því að sækja inn á innlenda lánsfjármarkaðinn. Þetta er það sem við erum að upplifa og þetta er það sem við höfum verið að upplifa margoft. Þetta gerðist ekki síst í tíð fyrrv. vinstri stjórna. Ár eftir ár gerðist það að á sama tíma og almennum sparifjáreigendum var meinað að fá eðlilega greiðslu fyrir afnot af sínu lánsfé hélt ríkið uppi þeim ávöxtunarkjörum að þangað streymdi lánsféð. (GHelg: Við hvaða ríkisstj. á þm.?) Ég er að tala um t. d. hv. síðustu ríkisstj. Það kalla ég vinstri stjórn. (GHelg: Ríkisstj. Gunnars Thoroddsen?) Einmitt. Og hæstv. ríkisstj. sem sat þar á undan. Sú stefna bar vitaskuld keim af því sama. (GHelg: Í hvaða vinstri flokki var Gunnar Thoroddsen, þm.?) Ég er að tala um þá vinstri stefnu sem sú ríkisstj. fylgdi og ég er að tala um þá stefnu sem hv. fyrrv. formaður þingflokks Alþb. lýsti að bæri sérstakan keim af stefnu Alþb. Er það ekki vinstri stefna, hv. þm.

Þetta eru nokkur atriði sem ég held að menn þurfi að hafa í huga þegar verið er að kvarta og kveina undan því háa raunvaxtastigi sem við búum við hér á landi. Ég skal fyrstur manna viðurkenna að þetta raunvaxtastig er hátt, en hins vegar tjóar litt að standa hér og belgja sig yfir því og kvarta og kveina yfir þessu háa raunvaxtastigi og fylgja á sama tíma efnahagsstefnu sem skrúfar upp þetta raunvaxtastig. Ég held það dugi ekkert lengur að tala, eins og hv. 3. þm. Reykv. hefur nú verið manna duglegastur við, gegn þessum vöxtum, reyna að kjafta þá niður með orðhengilshætti á sama tíma og fylgt er stefnu sem gengur í þveröfuga átt.