20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5440 í B-deild Alþingistíðinda. (4690)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það þarf auðvitað engan að undra þó að undir þessum dagskrárlið ræði menn almennt um stefnu núv. ríkisstj. í efnahags- og kjaramálum og að sjálfsögðu ýmislegt annað sem heyrir undir það. Ég ætlaði í sjálfu sér ekki að gera það. Það er einkum tvennt sem kom fram hjá þeim hv. 5. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Vestf., sem mig langar að fara nokkrum orðum um.

Nú hefði mátt ætla, þegar hv. 5. þm. Vestf. var að tala áðan, að hér væri hinn harðasti stjórnarandstæðingur á ferð. Hann spurði menn spjörunum úr: Hvað þýðir nú þetta og hvað þýðir nú hitt í þessu frv.? Þó er þetta frv. sem flokksbróðir hv. þm., hæstv. forsrh., leggur fram. Það er engu líkara en ekki hafi verið rætt í þingflokki Framsfl. hvað það frv. sem hér er á ferðinni í raun og veru þýðir. Það er verst að hæstv. forsrh. skuli ekki vera til staðar til að svara hv. 5. þm. Vestf. um hvað þetta frv. í raun og veru þýðir, hvað menn meini með þessu, hvað eigi að gera.

Menn hugsa gjarnan til þeirra orða hæstv. forsrh. nokkurn veginn orðrétt held ég að ég muni þau — að hin mestu pólitísku mistök sem átt hafi sér stað hafi verið að rjúfa tengslin milli verðbóta á laun og lánskjaravísitölu. (ÓÞÞ: Minnið er nú ekki alveg korrekt, en það er sama.) Í ljósi þessara orða hæstv. forsrh. hefði ég vænst þess að sjá í þessu frv. afnám vísitöluákvæða að því er varðar lán. Það hefði maður átt að sjá í þessu frv. í ljósi orða hæstv. forsrh. væri þau eitthvað að marka.

Hv. 5. þm. Vestf. fór nokkrum orðum um aths. með þessu lagafrv. og las upp úr þeim. Með leyfi forseta ætla ég að lesa það aftur:

„Samfara niðurfellingu kaflans um verðbætur á laun í lögum nr. 13/1979 er nauðsynlegt að kveðið sé skýrt á um að ákvæði um verðbótagreiðslur falli úr öllum samningum.“

Síðan spurði hv. þm.: Þýðir þetta að þetta fellur úr öllum samningum í bankakerfinu t. d.? Nei, hv. 5. þm. Vestf. Hefðirðu lesið svolítið lengra hefðirðu séð að þetta þýðir það ekki. Þú þurftir ekki að fara nema einni línu lengra, hv. þm. Hefðirðu viljað kynna þér það hefðirðu getað svarað þér sjálfur því að þar segir einmitt:

„Með þeim hætti er tekinn af hugsanlegur vafi um eldri ákvæði kjarasamninga og tryggt að samningsaðilar hafi óbundnar hendur að þessu leyti í komandi samningagerð.“

Þarna hafa menn svarið. Það á áfram að halda á þeirri braut að láta fólk borga hundruðum milljóna eða svo milljörðum skiptir meira vegna þeirra lána sem tekin hafa verið á þessu tímabili á sama tíma og verðbætur á laun eru skertar. Frv. er um það. Þetta hefði þingflokkur Framsfl. átt að ræða sérstaklega, halda um þetta leshringsumræðu eins og hv. 1. þm. Suðurl. benti þeim Alþb.-mönnum á að gera hér í kvöld. (ÓÞÞ: Hvernig gekk það í Alþfl.?) Það hefur ekki verið gert þar enn. Þar ræða menn opinskátt um alla skapaða hluti. (GHelg: Þeir eru það fáir.) Það er rétt hjá hv. þm., en það er greinilegt að þeim virðist ætla að fjölga en öðrum að fækka. Hvar skyldi það vera? (HG: Hvað er til marks um það?) Hvað? Bara hugarfar fólksins í landinu. Það þarf ekki annað til, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson. Hugarfar fólksins í landinu segir nú mest um það hvert fylgi viðkomandi flokkar hafa. Ég hygg að hv. þm. sé orðið það ljóst að hugarfarið er að breytast í þessu tilfelli.

Nú gengur hæstv. forsrh. í salinn þannig að nú ætti hv. 5. þm. Vestf. að endurtaka sínar spurningar um hvað þetta frv. hæstv. forsrh. þýði.

Það er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Vestf. að það hefði verið ástæða til að taka upp í þessu frv. niðurfellingu á þeirri lánskjaravísitölu sem er bundin á lánum hjá fólki í bankakerfinu og í húsnæðiskerfinu. En ég minni hv. 5. þm. Vestf. á að Alþfl.-menn hafa flutt hér á þingi frv. um að samræma þessa stefnu, að fella niður verðbætur eða vísitölu af öðrum þáttum efnahagslífsins en launum. Hv. 5. þm. Vestf. greiddi atkv. gegn því. (ÓÞÞ: Í hverju felst samræmingin?) En nú virðist hv. 5. þm. Vestf. vera að vitkast. (ÓÞÞ: Í hverju felst sú samræming?) Að fella niður vísitölu af lánum t. d. og opinberri þjónustu í ríkiskerfinu. Hv. 5. þm. Vestf. greiddi atkv. gegn þeim tillögum Alþfl. hér á Alþingi, þannig að ekki er nú algjört samræmið í málflutningnum og gjörðunum sjálfum.

Aðeins örfá orð út af því sem hv. 1. þm. Vestf. sagði um að hv. 5. þm. Reykv. hefði farið út um víðan völl og verið að tala um stöðu launafólks í fiskiðnaði. Ég er ansi hræddur um að hv. 1. þm. Vestf. ættu að vera þessi mál kunn. Það er ekki óeðlilegt að þm. bendi á stöðu þessara mála í umr. almennt hér á Alþingi um launamál og launakjör, horfandi upp á það að besta vinnuaflið sem fáanlegt er og hefur starfað í fiskiðnaðinum gengur nú í tuga- eða hundraðatali út úr frystihúsunum vegna þeirra slæmu launakjara sem þar eru boðin. Það vantar a. m. k., að mér er sagt, þrjú til fjögur hundruð manns í frystihúsin á Vestfjörðum til þess að þau geti annað eðlilegum afköstum. Svo undra hv. þm. sig á því að það sé rætt um þessa stöðu mála í tengslum við launa- og kjaramál!

Hv. 1. þm. Vestf. sagði réttilega: sparifjáreigendur voru rændir milljörðum króna á vissu árabili. En hverjir hafa verið rændir milljörðum króna í tíð núv. hæstv. ríkisstj.? Það er launafólkið fyrst og fremst og sjávarútvegurinn, undirstöðuatvinnugreinin á Íslandi. Það hafa verið færðir til milljarðar króna frá henni til þjónustuliðsins og þjónustugreinanna. Svo undra menn sig á því að þessi mál séu rædd hér á Alþingi þegar stjórnvöld haga málum á þann hátt sem þau hafa gert, eins og núv. hæstv. ríkisstj.

Ég er hissa á þessu hljóði í hv. 1. þm. Vestf. af því að þetta á hann að þekkja kannske manna best, hvernig staðan er í okkar kjördæmi á Vestfjörðum að því er varðar fiskveiðar og fiskvinnslu, þennan höfuðatvinnuveg þess landsvæðis svo og margra annarra landsvæða sem eru eins í sveit sett. Ég sé ekki að neitt bendi til þess að breyting eigi á að verða af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Þó að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon telji að nú sé að renna upp ljós hjá einhverjum hv. stjórnarliðum í þessum efnum er ekki svo að sjá f reynd. (SJS: Smáglæta.) Ja, það má vera að slíkt komi í ljós. En skammt dugar sú glæta ef það eru orðin tóm en ekki fylgja gjörðir.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja frekar um þetta. Ég ítreka að það er orðið tímabært að þeir framsóknarmenn komi sér niður á það hvað þetta frv. þýðir í raun, hvað það merkir, hvað það á að gera. Ég a. m. k. tel að það sé mjög nauðsynlegt að undir umr. sem þessari ræði menn stöðu sjávarútvegs, fiskvinnslu og fiskveiða í ljósi þess ástands sem þær greinar eru nú í.

Ég held að ég fari rétt með það — hv. 1. þm. Vestf. veit það trúlega betur en ég — að t. d. fiskverkendur á Vestfjörðum tapi nú daglega af eignum sínum vegna þeirrar stefnu sem hæstv. ríkisstj. hefur uppi að því er þessa atvinnugrein varðar. Eignir þessara aðila eru nú gerðar upptækar svo að segja frá degi til dags. Svo og svo stór hluti af þeim tapast vegna þess að stjórnvöld sjá þessari atvinnugrein ekki fyrir eðlilegum rekstrargrundvelli. Það er gengið á eignir. Þannig má kannske segja að það sé sameiginlegt kjararán sem gengur yfir launafólk undir núv. ríkisstj. og þá aðila sem starfa við höfuðatvinnugrein landsmanna, reka flotann, reka fiskvinnslustöðvarnar. Svo eru menn frá þessum svæðum undrandi á að slíkt skuli vera rætt á Alþingi. Ja, guð hjálpi þeim!