20.05.1985
Neðri deild: 71. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5442 í B-deild Alþingistíðinda. (4691)

501. mál, stjórn efnahagsmála

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Það er mikið á okkur hv. þm. lagt að þurfa að eyða hér kvöldum til að hlýða á rifrildi milli stjórnarflokkanna um frv. eins og þetta, sem er auðvitað stefnubreyting í kjaramálum, þannig að ástæða væri til að óska eftir að stjórnarflokkarnir kæmu sér saman um það sem þeir eru að leggja fram, áður en það er sett hér á borð okkar hv. þm.

Ég held að öll þessi umræða beri þess nokkurn vott að ýmist eru menn að halda hér kosningafundi í kjördæmum sínum eða að öll umræðan snýst um það að komast raunverulega ekki að kjarna málsins. Og kannske er ástæðan sú að allir eiga þar nokkurra hagsmuna að gæta, stjórn sem stjórnarandstaða.

Þetta frv. sem hér liggur fyrir er ósköp einfalt í eðli sínu. Ríkisstj. er hér með að fela aðilum vinnumarkaðarins að ákveða hvort og þá hversu háar verðbætur á laun verði vegna þess að sjálf þorir hún ekki að takast á við það. Ég hlýt þess vegna að spyrja hæstv. forsrh., sem hér er staddur vænti ég, hvers vegna ríkisstj. gekk þá ekki alla leið og felldi líka niður VII. kafla laga nr. 13 frá 1979, svonefndra Ólafslaga, svo að aðilum vinnumarkaðarins væri beinlínis falið að samræma lánskjaravísitölu og verðbætur á laun eins og hér hefur verið minnst á og alveg réttilega. Það er auðvitað dæmalaus ræfildómur einnar ríkisstj. að treysta sér ekki til þess að standa frammi fyrir því og ákveða það sjálf hvort ætlast er til að verðbætur verði greiddar á laun eða ekki.

Stjórnarandstaðan er ekkert allt of skelegg heldur og á því eru ýmsar skýringar. Það skyldi nú aldrei vera að stjórnarandstaðan treysti ekki sínum mönnum, sínum hluta af aðilum vinnumarkaðarins til þess að ákveða þessa hluti. Ekki alls fyrir löngu sá ég ekki betur en t. d. ASÍ gerði það að meginkröfu sinni að til kæmu verðbætur á laun. Þeir róttækustu sögðu að þær kjaraskerðingar sem orðið hefðu síðan þessi ríkisstj. tók við skyldu unnar upp. Í kvöld heyrði ég hér á milli funda viðtöl við forseta ASÍ og fleiri aðila vinnumarkaðarins og hvað stendur nú upp úr mönnum? Í fyrsta lagi sýnist ekki vera samkomulag milli Verkamannasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands. Þeir jagast líka um það hvort samið skuli strax eða hvort samið skuli í haust. Að vísu veit forseti Alþýðusambands Íslands að kjörin eiga enn eftir að rýrna um svona 3–5% þangað til í haust og hann er nógu skynsamur til þess að horfast í augu við að það er kannske ástæða til aðgerða nú þegar.

Sannleikurinn er sá að það er auðvitað gersamlega fáránlegt af hálfu ríkisstj. og af hálfu vinnuveitenda að láta sig dreyma um að þjóðin sætti sig við 4–5% launahækkun eins og sakir standa nú. Fólk er að missa íbúðir sínar í stórum stíl. Hver einasta manneskja sem fer í verslun veit að verðbólgan okkar sem kaupum inn — það gerið þið áreiðanlega ekki, háu herrar hér — hún heldur áfram. Vörur hækka frá viku til viku. Verðlag er gefið frjálst og þar er verðbólgan grasserandi. Þetta vitum við öll, a. m. k. þeir sem einhvern tíma eiga erindi í verslun. Það er ekki að undra þó að forsrh. segði hér í votta viðurvist í þingsölum rétt um það leyti sem fundi lauk í kvöld, þegar á hann var borið að auðvitað væri verið að flytja þetta frv. í trausti þess að verkalýðshreyfingin léti beygja sig og menn færu ekkert að semja um verðbætur á laun: að sjálfsögðu. Forsrh. var nógu heiðarlegur til að segja: Að sjálfsögðu. Og það er þetta sem er að gerast. Í staðinn fyrir að ríkisstj. ákveði það sjálf og standi við það, þá veltir hún boltanum til aðila vinnumarkaðarins. Það er það sem hér er um að ræða.

Sú var tíðin að aldraðir í þessu þjóðfélagi áttu sér eina tryggingu fyrir því að lífeyrir þeirra rýrnaði ekki um of. Hún var að verðbætur á lífeyri almannatrygginga fylgdu verðbótum á laun í almennri verkamannavinnu. Þetta er verið að afnema. Þetta verður að vera alveg ljóst. Þetta þarf þjóðin að fá að vita þó að menn geti svo lesið hér úr þessum karlrembuútgáfum um einhver óljós kjaramál sem ekki nokkur lifandi manneskja skilur og kemur í raun og veru engri manneskju við. Það er því alveg ljóst að þeir sem fara allra verst út úr því að þetta frv. verði samþykkt er að sjálfsögðu gamla fólkið, næst því fólki sem vinnur fyrir allra minnstum launum í landinu.

Hv. 3. þm. Vestf. talaði um hér áðan að þeir sem mest hefði verið rænt frá í tíð þessarar ríkisstj. væru sjávarútvegurinn og launafólk. (Gripið fram í: Launafólk og sjávarútvegurinn.) Eða launafólk og sjávarútvegurinn. Þetta er sennilega alveg rétt hjá hv. þm. En sá er munurinn á sjávarútveginum og launafólki að sjávarútveginum verður sennilega bjargað. Sjávarútvegurinn á ýmsa sjóði og sjávarútveginum verður séð fyrir áframhaldandi rekstrarfé. En ég hef ekki séð hver kemur launþegum þessa lands til bjargar, fólkinu sem er að missa íbúðir sínar, fólki sem verður að taka vaxtaaukalán til að borga matarreikningana sína.

Hver einasta manneskja veit að innflutningur hér er svo svívirðilegur að engu tali tekur og af því hef ég beina reynslu sjálf. Ég rannsakaði það núna nýlega þegar ég átti leið til næstu nágrannalanda. Verðlag á fötum, á barnafatnaði er t. d. svipað í Noregi, Svíþjóð og Danmörk. Það er hins vegar staðreynd að þegar fötin eru komin hér upp á Laugaveg eru þau fjórum sinnum dýrari. Mér þætti fróðlegt að vita hvernig stendur á þessu. Gæti ekki verið, hv. 1. þm. Vestf., að það sé þetta fólk sem er að keppa á verðbréfamarkaðinum þessa dagana, fólkið sem græddi á þessum innflutningi, þessu verðlagi sem er beinn og óprúttinn þjófnaður frá launþegum þessa lands? Ríkisstj. hefur engan áhuga á að rannsaka þetta.

Annað er það sem hv. 3. þm. Vestf. sagði, að það fengist ekki fiskvinnslufólk. Það á kannske ekki við í þessari umr. en hv. þm. veit auðvitað jafn vel og við mörg önnur að þar er ekki eingöngu við launin að sakast. Vinnuálag og sívaxandi kröfur til þessa fólks eru auðvitað orðnar óþolandi. En grun hef ég um að hann eins og aðrir, sem gerst hafa forustumenn í hópi launþega og fiskvinnslufólks, hafi verið ófeimnir við að fara þessar venjulegu aukaleiðir, þessar Krýsuvíkurleiðir til launahækkana sem bónus og annað slíkt er, með hvers kyns aukavinnu, eftirvinnu, næturvinnu og hvað þetta allt saman heitir, launahvetjandi kerfi sem nokkrum árum síðar sýna sig að vera að ganga af verkafólki dauðu. Þetta er líka þáttur í því máli og með vaxandi kröfum á erlendum mörkuðum ræður þetta verkafólk ekki við þessa vinnu sem á það er lögð. Ég vildi nú aðeins fá að skjóta því hér inn.

Hæstv. forsrh. var í sjónvarpi í kvöld meðal annarra fyrirmanna landsins og var verið að spyrja hann um aðgerðir í húsnæðismálum. Og það er hreint óhugnanlegt að heyra hæstv. forsrh. tala um það í alvöru, greindan mann sem hann er, að það merkasta sem hann geti hugsað sér sé ráðgjöf til húsbyggjenda. Ráðgjöf um hvað? Ráðgjöf um hvernig þeir eigi að fara að þegar þeir eru búnir að missa íbúðirnar sínar? Hvernig í ósköpunum nennir hæstv. forsrh. og heil ríkisstjórn að tala í þessa veru? Þessir menn eru svo fjarri öllum raunveruleika, svo fjarri allri þekkingu á kjörum manna í landinu. Og það sorglega er að þessi veiki er á hinum kantinum líka. Þess vegna er ákaflega erfitt að ræða þessi mál bæði hér á hinu háa Alþingi og annars staðar, hvort sem er á fundum í Sjálfstfl., Framsfl., Alþb. eða hvað þetta nú allt saman heitir. Þeir hafa eflaust lausn á þessu öllu saman í Alþfl., ég geri ráð fyrir því.

Sannleikurinn er sá að íslenskt þjóðfélag hefur breyst. Það þýðir ekki að tala um það eins og það var fyrir 40 árum. Launþegahópurinn sem hefur lægstu launin er mun minni en hann var og næstum ekkert sem forustumenn alþýðusamtakanna segja um laun manna í landinu er satt. Það kom réttilega fram hjá einhverjum hv. þm. hér áðan að greidd laun og launataxtar eru tvennt ólíkt. Og það er miklu stærri hópur nú sem hefur veruleg fjárráð en var áður fyrr. Það sýnir sig m. a. í því að verslun dregst ekkert saman hversu mikið sem skorið er niður af launum annarra launþega, þ. e. þeirra launþega sem vinna fyrir föstum launatöxtum og greiða skatt af tekjum sínum. Ég gæti giskað á að þessi hópur væri nú í kringum 30% af vinnandi landsmönnum. Hin 70% hafa töluverð fjárráð. Til þeirra hefur orðið veruleg tilfærsla. Hvorki stjórnvöld né samtök verkalýðsins og launþeganna hafa fylgst með þessari þróun. Þetta fólk talar alltaf um allt annan veruleika en þann sem blasir við í þjóðfélaginu. Þess vegna er ekki heldur von til þess að lausnir séu í sjónmáli. Hafa menn athugað hverjir ráða t. d. nú vísitölu byggingarkostnaðar sem er hluti af lánskjaravísitölu? Hverjir skyldu það vera? Það er ekkert sem aðilar vinnumarkaðarins semja um né ríkisstjórnin hefur nokkra stjórn á. Það eru m. a. innflytjendur, það eru kaupmenn sem ráða því hver byggingarkostnaður er. Ég vil biðja menn að mótmæla þessu ef þetta er rangt. Þetta er sem sé í algerri upplausn. Ríkisstjórnin er ráðalaus og reynir að velta yfir til aðila vinnumarkaðarins ákvörðunum um viðkvæmustu kjaramál landsmanna, en hróflar náttúrlega ekki við kaflanum þar á undan í Ólafslögum, VII. kaflanum, sem snertir verðtryggingu sparifjár og lánsfjár.

Herra forseti. Ég skal svo sem ekki lengja þessar umræður mikið. Það er kannske ekki meiri botn í þeim af minni hálfu en annarra, sem hér hafa talað. En ég held að fyrsta skilyrðið til þess að um þessi mál sé rætt í einhverri alvöru sé að menn þori að segja sannleikann. Hvað sér maður í Dagblaðinu í dag frá nýjustu samráðsfundum? Hvað eru menn nú farnir að tala um? „Húsnæðismál, með leyfi forseta, voru á dagskrá samráðsfundar stjórnarflokkanna og ASÍ sem haldinn var á föstudag. Forustumenn ASÍ leggja nú höfuðáherslu á að fjármögnun húsnæðiskerfisins verði komið í eðlilegt form. Einnig leggja þeir mikla áherslu á að vextir verði lækkaðir.“ Af hverju segja þessir menn ekki: Við viljum líka fá VII. kaflann. Úr því að þeir eru svona ánægðir með að fá VIII. kaflann, af hverju vilja þeir ekki VII. kaflann líka? Og nú er allt í einu ekki talað lengur um verðbætur á laun. Nú er talað um kaupmáttartryggingu. Það vill svo til að það er ekki það sama.

Ég veit að menn eru nú að fantasera um einhverjar nýjar formúlur við útreikninga á verndun kaupmáttar. Allt sem ég hef þaðan heyrt þykja mér hinir mestu órar og óljóst í meira lagi. Enda hvað sýnir sig hér í þessari umræðu? Hér er enginn verkalýðsforingi mættur, ekki einn. Þessir fáu sem hér eiga sæti mega ekki vera að því að vera hér. Og á ég að segja ykkur af hverju, hv. þm.? Þeir vita að þeim kemur umræðan ekkert við, hún skiptir engu máli. Þeir vita að Alþingi ræður engu um þetta og vill engu um þetta ráða.

Hvar er alþýðan í landinu? Hvar er fólkið sem bíður eftir aðgerðum í efnahagsmálum? Það er ekki ein einasta sál hér á pöllum. Það getur vel verið að einhverjir forvitnir borgarar reyni að hitta Ásmund Stefánsson eða Guðmund J. Guðmundsson, þegar þeir koma út af fundum sínum með Vinnuveitendasambandinu eða einhvers staðar annars staðar í bænum, því að þeir vita að þar er kannske einhver snefill af valdi. Svona er nú komið fyrir okkur, kæru félagar og hv. þm. Það er sorglegt til að vita, herra forseti.

Menn eru hættir að tala um verðbætur á laun, menn eru farnir að tala um kaupmáttartryggingu, gengislækkun og áframhaldandi lækkun í áföngum og hvað þetta nú allt heitir. Og hvað eiga launþegar að gera á meðan? Hvað eiga saumakonurnar á Akranesi að gera, sem ég heimsótti nýlega og vinna allan daginn fyrir 13 700 kr., hvað eiga þær að gera á meðan? Hvað eiga þær að borða? Þetta er óþolandi að hlusta á.

Ég skal ljúka ræðu minni, herra forseti. Hún er sjálfsagt ekki mikið innlegg í þessa umræðu en þó aðeins tilraun til að vekja athygli á hversu yfirborðskennd þessi umræða er. En hæstv. forsrh. vil ég endilega spyrja einnar spurningar: Hvers vegna ákvað ríkisstjórnin — eða einhver hluti af ríkisstjórnarflokkunum, þeir virðast ekki allir hafa verið viðstaddir — hvers vegna ákváðu þeir ekki að velta öllum boltanum til aðila vinnumarkaðarins, VII. kafla Ólafslaga líka? Það langar mig að vita.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.