01.11.1984
Sameinað þing: 13. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 712 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

22. mál, Fiskifélag Íslands

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég tel í raun að till. sú, sem ég leyfi mér hér að mæla fyrir, þurfi ekki langra skýringa við. Þetta er till. á þskj. 22 til þál. um að hætta þátttöku í starfsemi Fiskifélags Íslands. Eins og ég segi tel ég ekki ástæðu til að skýra markmið hennar nema þá í fáum orðum, en áður en ég sný mér að því vildi ég leyfa mér að fjalla örlítið um þá skoðun sem till. þessi og aðrar tillögur, tólf að tölu til viðbótar, sem ég hef leyft mér að bera fram, byggjast á.

Greinargerðir allra þessara tillagna eru sem næst samhljóða, þ.e. að leggja beri niður þá starfsemi á vegum ríkisins eða þátttöku sem í ljósi breyttra atvinnuhátta, tækni og annarra aðstæðna er hægt að sinna með hagkvæmari hætti. Hér mundi ég þá vilja leyfa mér að gera nánari grein fyrir þeim orðum sem notuð eru til þess að lýsa ástæðum tillögugerðarinnar.

Það er þá fyrst þar sem talað er um starfsemi ríkisins eða þátttöku. Ég er þeirrar skoðunar að fremsta hlutverk ríkisvaldsins sé að tryggja frelsi og réttlæti þannig að hvorugt geti án annars verið. Réttlætinu tel ég best þjónað með því að allar aðgerðir okkar miði að því að hámarka velferð hinna verst settu í þjóðfélaginu. Kjör manna verða aldrei jöfn, en kjaramunur er réttlætanlegur ef kjaramunurinn stuðlar að betri hag þeirra sem við lægri kjör búa. Þetta er hægt og þetta er að nokkru leyti iðkað í dag þó að framkvæmd þess sé oft handahófskennd eða þokuleg. Flestir munu sammála mér um að eðlilegt sé að ríkið starfi að þeim málum sem tryggja fólki öryggi án tillits til kjara á vissum sviðum. Hér á ég við öryggi í heilbrigðismálum, öryggi í húsnæðismálum, öryggi í menntun og öryggi í afkomu.

Nú búum við í dag við efnahagslegan glundroða hér á landi. Sá óréttláti kjaramunur, sem nú ríkir, er afleiðing þessa glundroða og glundroðinn er verk stjórnvalda. Atvinnuvegir með 1100 ára aðlögunartíma ramba enn óstyrkum fótum eins og kornabörn. Það væri auðvelt að takast á við þennan vanda ef hægt væri að draga þá til ábyrgðar sem valdir eru að þessum glundroða. En afskipti ríkisvaldsins og þátttaka í atvinnulífi er það víðtæk að ríkisvaldið getur ekki skotið sér undan því að það ber mesta ábyrgð allra þátttakenda á því glundroðaástandi sem við búum við í dag. Ef það er hlutverk ríkisins fremur öðru að gæta réttlætis, þá getur það ekki gerst með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru. Handahófskennd þátttaka ríkisins í atvinnulífi ásamt vinnubrögðum hugmyndasnauðra kerfiskarla í efnahagslífi leiða til ábyrgðarleysis allra þátttakenda. Það er ekki hægt að krefjast ábyrgðar af einstaklingum ef ríkið gengur á undan með ábyrgðarlausu fordæmi. Eitt afskaplega skýrt dæmi þessa ábyrgðarleysis er nýlegt og fyrir augum okkar í dag. Það er dæmi um þátttöku ríkisins í atvinnulífi.

Hér suður með sjó er risið fyrirtæki sem kallast Sjóefnavinnslan, öðru nafni saltverksmiðjan. Til þessarar verksmiðju hafa verið lagðir fjármunir að upphæð 264 millj. kr. Að mestu leyti er þetta fé fengið að láni. Aðalhluthafi í fyrirtækinu, yfir 90%, er ríkið og aðalábyrgðaraðili fyrir þessum lánum, sem öll eru erlend, er ríkið. Það kemur núna í ljós öllum að óvörum, þrátt fyrir viðvörunarorð á fyrri tímum, að þessi verksmiðja getur ekki staðið undir sér. Það voru reyndar allir búnir að segja. Varan sem hér á að framleiða er svo ódýr að það er ekki nokkur leið að framleiða hana ódýrar hér á Íslandi. Þvert á móti verður framleiðsla hennar miklu dýrari en ef um innflutning væri að ræða. Horfum til þess að nýlega var verið að semja við starfsmenn ríkisins í samningum fjmrn. við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Sá samningur mun koma til með að kosta ríkið, að því er fróðir menn segja, um 400 millj. kr. 60% af þeirri launahækkun eru falin og týnd í þessari verksmiðju. Ef menn hefðu látið þetta vera hefðu þeir verið 60% nær því að standa undir þessum aukna launakostnaði sem flestum viðsemjendum í hópi starfsmanna ríkisins þykir trúlega ekki nóg. Hver er ábyrgur fyrir þessari ákvörðun? Hver er ábyrgur fyrir þátttöku og hlutverki ríkisins við stofnun þessarar verksmiðju?

Ég veit að hægt er að kalla menn hér upp í stól og skamma þá og hægt er að kjósa aðra í alþingiskosningum í þeirri von að þeir geri betur, en það flökrar að manni að það sé bara alls ekki nóg. Svona framferði ætti nánast að varða við lög, að hægt sé að fara með fjármuni almennings með þessum hætti og almenningur eigi ekki nokkra vörn í þessu máli aðra en að kjósa einhverja aðra kerfiskarla yfir sig og þá hugsanlega alveg jafnvonda.

Breyttir atvinnuhættir, tækni og viðskiptahættir eiga hér líka hlut að máli þegar þessi tillöguhugmynd mín kemur fram því að þeir gera það að verkum að þær röksemdir sem notaðar hafa verið í gegnum tíðina til að réttlæta þá starfsemi á vegum ríkisins, sem hér er lagt til að lögð verði niður, eru ekki gildar lengur. Það er þarflaust að ríkið sé að dreifa kröftum sínum með þeim hætti sem nú er. Það er meira en þarflaust, það er hreint og beint vitlaust, því að sá litli árangur sem kann að nást á einhverju sviði er étinn upp á öðru sviði og oft og tíðum með jafnógnvænlegum hætti og það dæmi lýsir sem ég nefndi hér áðan.

Þessi dreifing krafta miðar að vexti báknsins, stækkun kerfisins, vaxandi miðstýringu. Þessi miðstýring eykur ekki frelsi einstaklinga né heildar og stuðlar ekki að réttlæti til handa einstaklingum eða heild. Þessi starfsemi er annað hvort eða hvort tveggja í senn óþörf eða óhagkvæm. Í engu þessara 13 tilfella er hægt að sanna að þessi starfsemi skili meiru fyrir þjóðfélagið en ef hún væri í höndum einstaklinga.

Herra forseti. Fiskifélag Íslands er gamalt félag. Fiskifélag Íslands var framtak einstaklinga sem höfðu áhuga á því að stuðla að framförum í íslenskum sjávarútvegi. Fiskifélag Íslands er frumkvöðull að ýmiss konar rannsóknastarfsemi í sjávarútvegi, bæði í veiðum og vinnslu. M.a. má segja að Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins eigi sín upptök hjá Fiskifélagi Íslands. Fiskifélag Íslands er nú í dag á framfæri hins opinbera. Það má auðvitað segja að þeir fjármunir sem til Fiskifélagsins renna séu hvorki stórir né miklir að vöxtum. Skv. fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir því að tæplega 15 millj. renni til Fiskifélagsins og að Fiskifélagið skili tæplega 1 millj. til baka aftur af þeim, þannig að endanlega er hér um tæplega 14 millj. kr. útgjöld fyrir ríkið að ræða. En þetta eru 14 millj. sem ríkið getur alveg látið vera að eyða. Ef menn hafa áhuga á því að halda áfram hlutverki og starfi Fiskifélags Íslands geta þeir áhugamenn sem það vilja gert það án atbeina ríkisvaldsins og það geta þeir miklu frekar í dag en fyrir tæplega 60 árum þegar Fiskifélagið var stofnað. Í þessu felst einfaldlega till. mín, að ríkið hætti þátttöku í útgerð Fiskifélags Íslands vegna þess að það verður ekki séð að af þeirri þátttöku leiði neinn beinan ávinning fyrir almannaheill eða einstaklinga í voru þjóðfélagi.