21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5522 í B-deild Alþingistíðinda. (4763)

468. mál, ferðaþjónusta

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég er einn flm. þessarar till. og þarf því ekki að segja nema örfá orð til viðbótar þeirri ágætu framsögu sem hér var flutt fyrir þessu nauðsynjamáli.

Ferðaþjónustan er, eins og þar kom fram, orðin býsna mikil einnig. Einn gleðilegan vott þeirrar fjölbreytni sér maður víða út um land með þátttöku sveitafólks sem mjög er til fyrirmyndar og ég veit gjörla að er veruleg búsetutrygging í mörgum sveitum og einstökum bæjum þar. Hins vegar er ljóst að ferðaþjónusta hér á landi, eins og komið var reyndar inn á, hefur að mestu verið bundin við skamman tíma við erlenda ferðamenn. Þessi till. er raunar við þessi meginatriði miðuð og sjálfsagt að vinna þar að sem best.

Ég vil, eins og 1. flm., frsm. gat hér um áðan, sérstaklega leggja áherslu á það, sem stendur í grg., að leggja beri áherslu á varðveislu þeirra séríslensku þátta sem heilla erlenda ferðamenn mest. Á þennan þátt verður aldrei um of minnt, verndun íslenskrar náttúru, verndun landkosta og verndun okkar hreina lofts og holla vatns eða eins og segir í þessari grg.: sérstæða óspillta náttúru, ómengað loft og tært vatn.

Ég kom hér upp til að minna á till. þessu tengda sem snertir heildarmyndina varðandi landið allt. Það er till. sem flutt hefur verið undanfarin þing um átak til aðstoðar þeim gististöðum úti á landsbyggðinni þar sem bráðnauðsynleg þjónusta er innt af hendi allt árið um kring og þarf að inna af hendi, en grundvöllur fyrir rekstri er aðeins og kannske tæplega það, á ferðamannatímanum, að sumrinu til þegar umferð er mest. Við höfum flutt þessa till. nú hér án þess að hún fengi yfirleitt nokkrar undirtektir. Ég held að menn hafi ekki gert sér ljóst hversu mikilvæg þessi þjónusta er á ýmsum tiltölulega einangruðum stöðum úti á landi þar sem gestakomur eru að vísu ekki miklar yfir veturinn en engu að síður þarf að vera þar aðstaða til þess að geta tekið við gestum og gangandi og veitt þeim þokkalegan beina og gistingu. Ég sé ekki, því miður, að á þessu sé tekið í því frv. um skipulag ferðamála sem hv. frsm. minntist einmitt á áðan að hefði verið lagt hér fram af hálfu stjórnvalda.

Ég get ekki stillt mig um það þegar við tölum um ferðaþjónustu að minna á þennan þátt og þá vanrækslu sem hefur átt sér stað af hálfu hins opinbera varðandi þetta atriði. Sveitarfélög hafa víða tekið hér myndarlega á til að tryggja þessum aðilum þennan rekstur og sums staðar hafa menn bundist samtökum til þess að á þessum stöðum væri einhver slík þjónusta fyrir hendi allt árið eins og nauðsyn ber til, en ríkið sjálft hefur komið hér mjög óverulega inn í ef frá eru taldar örfáar fjárveitingar á fjárlögum, mjög knappar þó, til einstakra áningarstaða á hringleiðinni um landið.

Ég vil minna á þetta nú, tel að að þessu þurfi vissulega að huga um leið og við reynum að átta okkur sem best á umfangi þessara mála í heild sinni og hvernig við getum nýtt þennan atvinnuveg, þessa vaxandi grein, sem allra best til þjóðarheilla og hagsbóta. Inn í þessa mynd hljóta þessir litlu um margt einangruðu staðir að koma. Þeir bjóða margir hverjir upp á mikla möguleika, mikla náttúrufegurð. Ég nefni sem dæmi um það Borgarfjörð eystri þar sem reynt er af veikum mætti að halda uppi þjónustu af þessu tagi, virkilega paradís ferðamanna ef sú aðstaða væri þar til yfir sumartímann sem þyrfti að vera og þannig mætti eflaust fara hringinn í kringum landið og benda á staði sem þyrftu á aðstoð að halda til að halda uppi sem bestri þjónustu yfir sumarið fyrir ferðamenn almennt og einnig og ekki síður lágmarksþjónustu til að veita gestum og gangandi beina og gistingu yfir vetrartímann þegar fáir ferðalangar eru á ferð en kannske þeim mun meiri nauðsyn að hægt sé að hlúa vel að þeim.