21.05.1985
Sameinað þing: 85. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5527 í B-deild Alþingistíðinda. (4770)

468. mál, ferðaþjónusta

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari till. til þál. á þskj. 468, en ég vil líka láta þá skoðun mína í ljós eftir 10 ára setu sem varaformaður ferðamálaráðs að tímamörkin sem hún setur um þá könnun sem fram á að fara og helst að skila einhverjum hugmyndum svo að hægt verði að taka tillit til þeirra við gerð næstu fjárlaga séu of þröng, það er of stuttur tími. Hitt er annað mál að við skulum ekki gleyma því að ferðamál og ferðamannaþjónusta hafa tekið gríðarlega stór stökk í rétta átt undanfarin 20–30 ár, allt frá því að hér voru fátækleg ferðamannafélög sem nutu þó í upphafi ráðgjafar erlendra aðila. Einn af þeim var franskur skipuleggjari, sem hefur skipulagt mikið fyrir dönsku ferðaþjónustuna og kom hér seinast sem Íslandsvinur og vann hér gott starf í upphafi að stofnun ferðamálaráðs fyrir ekki neitt. Hann gaf hér góð ráð sem komu að góðum notum á fyrstu dögum ferðamálaráðs. Síðan var farið í stærri hugmyndir og hótel fóru að byggjast upp hér í Reykjavík. Þá var kallað til svissneskt fyrirtæki, sem ég benti nú á vegna fyrri reynslu minnar af því, til að koma hér með hugmyndir. Þessir aðilar voru stórtækir. Þeir gerðu frumdrög, eins konar tilboð í að gera hér tillögur. Til að gefa svolitla hugmynd um það að hverju þessir aðilar voru þá að vinna voru þeir þá að færa fjall sem gnæfir yfir Monaco út í haf, út í sjó til að stækka þar undirlendi svo að Monaco gæti tekið á móti fleiri ferðalöngum og byggst frekar en þá var orðið. Og þeir sem koma til Monaco sjá að byggðin er orðin gríðarlega mikil, hótel og íbúðarhús og heilir íþróttavellir sem vekja athygli fyrir sérkennilegan arkitektúr. Síðan fór fram útboð á vinnunni að skipulagningu ferðamála og kom þá fram í ferðamálaráði að alþjóðastofnanir veittu styrki til að gera slíkar úttektir og þessi úttekt var gerð. Ég man nú ekki hvaða ár það var, það eru líklega 15 eða 20 ár síðan. Og eftir þeirri áætlun var unnið. Það væri fróðlegt fyrir þá sem hafa áhuga á ferðamálum að skoða þessar tvær hugmyndir, annars vegar frá svissneska fyrirtækinu og hins vegar frá því alþjóðafyrirtæki sem hingað var fengið á vegum alþjóðastofnunar og kostað af Sameinuðu þjóðunum eða stofnun innan þeirra, bara til að gefa hugmynd um þær tillögur sem voru á lofti.

Það þurfti hótelbyggingar hér, það þurfti vegasamband við allar byggðir landsins, það þurfti hótel á móttökustaði úti um allt land, það þurfti flugsamgöngur á milli þessara staða, það þurfti telexþjónustu á milli allra þessara staða, það þurfti að endurnýja flugflotann og jafnvel skipaflotann líka til þess að geta flutt ferðamenn. En það fór allt eftir því hvernig við vildum ná ferðamönnum og hvaðan, því að á þeim kortum sem fylgdu af heimsbyggðinni var allt í mismunandi stórum hringjum, eftir því í hvaða hring Ísland var sett í ferðamálastrauminn um heiminn, því að ferðamenn eru bornir á milli staða, á milli landa og á milli hótela. Og það er það furðulega, sem mér var alls ekki ljóst og hafði ég eytt þó meiri hluta af minni ævi í að ferðast, að það eru aðrir aðilar en ferðamennirnir sjálfir sem gátu ráðið vegferð straumsins. Og það er þá spurningin hvað mikið við viljum af þessum straumi.

Ein spurningin var: Hverju tekur Ísland við að hámarki af þessum straumi? Svo má spyrja hvað við viljum. Þetta er svo gríðarlega flókin uppbygging og svo feiknamikið verk, sem kostar svo geysilegt fé að það verður ekki gert á skömmum tíma. En það verður gert og þetta er að þróast hjá okkur. Frá því að hafa afskaplega litlar tekjur af ferðamönnum og tiltölulega lítinn kostnað við ferðalög Íslendinga til útlanda, svona 30–40 ár aftur í tímann, erum við nú komnir inn í þessa hringiðu. Og öll þau gæði sem hv. 7. landsk. þm. gat um, landið sjálft, sérkenni landsins, víðsýni, loftið og ýmislegt annað sem hún taldi upp, þetta er það sem ferðamenn sækjast eftir í æ ríkara mæli. Margir franskir kunningjar mínir sem hafa komið hingað nú í nokkur ár, sumir árlega í ein 13–14 ár, geta ekki hugsað sér lengur að fara til heitari landa og missa þetta góða loft og víðsýni sem hér er og sumarkvöldin fögru sem þeir tala um í hvert skipti sem ég hitti þá. Þetta er söluvara. En þetta þarf að nota á skynsamlegan hátt til þess að við eyðileggjum það ekki.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. 7. landsk. þm., og ég vil bara undirstrika það og til þess kom ég í þennan ræðustól, að það eru til mjög skemmtilega unnin gögn um þessi mál. Það þarf að endurskoða þau með ákveðnu millibili og því held ég að þáltill. sem hér liggur fyrir sé tímabær. En ég held að af reynsluleysi okkar allra gerum við okkur ekki grein fyrir því hvað þetta er gríðarlega mikið verk og hvað þarf að vinna þetta af mikilli nákvæmni og þess vegna er tímasetningin í þessari till. að mínu viti ekki nógu rúm. En hugmyndin er að mínu viti rétt og því tek ég undir þessa þáltill.