23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5597 í B-deild Alþingistíðinda. (4850)

472. mál, hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna

Frsm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti.

Þegar till. til þál. um fullgildingu hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna kemur nú til afgreiðslu Alþingis Íslendinga hljóta óhjákvæmilega að vakna ýmsar minningar. Kannske hefur engin þjóð notið jafnmikils afraksturs af störfum hafréttarráðstefnunnar og einmitt við Íslendingar og er þó mikill akur óplægður enn. Við erum raunar aðeins á þröskuldi þeirrar verndunar-, nýtingar- og ræktunarstefnu sem móta mun íslenskt þjóðlíf um aldir. En bæði vegna forsögunnar og legu landsins ber Íslendingum að vera forustuþjóð þeirrar þróunar að löndin við nyrstu höf tengist saman, allt frá Noregsströndum til Kanada, í þeim sjálfgefna tilgangi að vernda mestu auðlegð sína, margfalda hana og nýta í þágu alls mannkyns.

Ræktunarstefnan á höfunum er hafin og þar eru tækifærin enn þá stórfenglegri en á þurrlendi til að breyta auðn í auðlegð.

Oft hefur verið á það bent að Íslendingar hafi verið forustuþjóð í hafréttarmálum, en það má rekja til laganna um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, sem sett voru 1948, og síðan baráttu okkar á tveim fyrstu hafréttarráðstefnunum sem haldnar voru í Genf árin 1958 og 1960. Og það er táknrænt að sama árið og þriðja hafréttarráðstefnan hefst, 1973, hefja Íslendingar harða baráttu fyrir því að helga sér 200 sjómílna efnahagslögsögu, sem þá strax hillti undir, og aðeins tveim árum síðar var hún orðin að veruleika. Auðvitað kostaði það harða baráttu, en við hefðum heldur aldrei náð neinum rétti án bardaga. En í styrjöldum okkar höfum við ætíð sigrað með sömu vopnum; rökum, lögum og rétti.

Þriðja hafréttarráðstefnan var einkennileg samkoma. Þar voru saman komnir fulltrúar svo til allra þjóðlanda heims. Þar var fundað í ótal herbergjum smáum og stórum, ys og þys og skvaldur á göngum, í kaffistofum og börum. Sá sem óreyndur kom til starfa á þessari samkundu vissi ekki sitt rjúkandi ráð. Allt virtist vera í upplausn. En þegar upp var staðið tæpum áratug síðar höfðu margir orð á því að lokið væri merkustu sáttagerð í sögu mannkyns þar sem ráðið hefði verið til lykta yfirráðum 3/4 hluta jarðarkringlunnar með samkomulagi og það án þess að nokkru sinni yrði gengið til atkvæða um efnisatriði fyrr en á lokadegi. Öll mál höfðu verið leyst á þann frumlega hátt í bókstaflegum skilningi að menn töluðu saman.

Hafréttarsáttmálann hafa hv. alþm. nú undir höndum. Hann er þess virði að skoða hann náið. Auðvitað er hann umgerð sem fyllt hefur verið upp í með spori eftir spor. Við Íslendingar eigum þau mörg, en megum þó ekki láta staðar numið því að margt er enn óráðið um skýringar og framvindu. Við skulum hafa það hugfast að rétt okkar sækir enginn nema við sjálf. Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær.

Hafréttarsamningurinn er orðinn alþjóðlegur í raun, „de facto“. Veigamestu ákvæði hans hafa raunar verið það alllengi og einmitt á því höfum við Íslendingar byggt okkar rétt og heimt hann. Einn skugga bar að vísu á hafréttarráðstefnuna á síðasta degi hennar, þegar nokkur ríki neituðu að samþykkja hann, þ. á m. Bandaríkin og Bretland. Breska ríkisstjórnin tilkynnti síðan 6. des. 1984 að Bretar mundu ekki skrifa undir samninginn, en hins vegar mundu þeir ekki standa gegn því að Efnahagsbandalag Evrópu undirritaði hann. Og það hefur bandalagið þegar gert.

Hér vinnst ekki tími til að fara langt út í lagahlið þessa máls, enda óþarft því að segja má í einu orði að samningurinn sé þegar orðinn alþjóðalög í raun og því fái enginn mannlegur máttur breytt, jafnvel ekki máttur stórþjóða.

Í miðju umróti og upplausn hefur stórvirki verið unnið sem allir hljóta að vona að verði vegvísir við lausn annarra vandamála heimsbyggðarinnar. Fyrir okkur Íslendinga er samningur þessi, hefur verið og mun verða ómetanlegur. Um það er ekkert fleira að segja — nema kannske að ítreka að okkur ber skylda til að hagnýta ákvæði hans í eigin þágu og allra annarra. Lokasókn okkar stendur nú yfir. Strandþjóðirnar eru að heimta hafsbotnsréttindi sín skv. hafréttarsáttmálanum og við Íslendingar erum í þeirra hópi. Skv. 76. gr. sáttmálans eiga strandþjóðirnar sjálfar að ákveða ytri mörk landgrunnsins og það höfum við Íslendingar gert, en ætíð tjáð okkur reiðubúna til viðræðna og hugsanlegra samninga við nágrannana.

Mikill meiri hluti þjóða heims á land að sjó. Þessar þjóðir hafa því mjög ráðið ferðinni í hafréttarmálum og sjálfsagt eru þær færastar um bæði að vernda auðæfi hafsins undan ströndum sínum og eins að nytja þau, þótt viðurkennt sé að landlukt ríki skuli þar eiga einhvern rétt. Raunar gilda fiskveiðiréttindi þeirra ekki að því er okkur Íslendinga varðar því að „íslenska ákvæðinu“ svonefnda hefur tekist að halda inni í öllum drögum hafréttarsáttmálans og er nú 71. gr. hans og hljóðar þannig:

„Ákvæði 69. og 70. gr. gilda ekki gagnvart strandríki ef efnahagur þess er í mjög miklum mæli háður hagnýtingu hinna lífrænu auðlinda í sérefnahagslögsögu þess.“

69. gr. fjallar um rétt landluktra ríkja er veiða hjá öðrum ríkjum og 70. gr. um rétt landfræðilega afskiptra ríkja svonefndra.

Fleiri þurfa orð þessi í rauninni ekki að vera að öðru leyti en því, herra forseti, að gera stuttlega grein fyrir áliti hv. utanrmn., en það er á þskj. 472.

Nefndin getur þess þar að sjálfsagt hafi verið að samþykkja tillöguna og mæla með að hún verði samþykkt, enda höfum við í áratug sótt rétt okkar til landhelgi, fiskveiða og hafsbotns í þann þjóðarétt sem verið hefur að mótast vegna starfa hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og birtist í hafréttarsamningnum. Og enn er íslenska þjóðin að tryggja sér mikilvæg hafsbotnsréttindi í suðri og út eftir Reykjaneshrygg sem í einu og öllu byggjast á ákvæðum hafréttarsamningsins. Sama er að segja um varðveislu fenginna réttinda og tryggingu sérhvers þess fyllri réttar, sem samningurinn heimilar, um aldur og ævi.

Nefndin er sammála um að rétt sé að gera svohljóðandi fyrirvara:

„Jafnframt því að afhenda fullgildingarskjal varðandi hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna lýsi fastafulltrúi Íslands því yfir fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands að samkvæmt 298. gr. samningsins er réttur áskilinn til að sérhverri túlkun á 83. gr. skuli vísað til sáttagerðar samkvæmt V. viðauka, 2. kafla, samningsins.“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Íslendingar höfðu í Jan Mayen-málinu góða reynslu af sáttameðferð í skiptum við Norðmenn og telur nefndin sjálfsagt að halda opnum öllum leiðum til sáttagerðar við aðrar nágranna- og vinaþjóðir í Hatton-Rockall-málinu og hvenær sem ágreiningur kann að rísa í framtíðinni.“

Þá er þess getið að Guðmundur Einarsson hafi setið fund nefndarinnar þegar málið var afgreitt og sé því samþykkur.

Herra forseti. Hv. utanrmn. er sammála um þann sjálfsagða hlut að leggja til að tillagan verði samþykkt eins og hún er fram lögð af hæstv. utanrrh., enda geta engar breytingar komið til á hafréttarsamningnum, hann er hér til samþykktar eða synjunar. Þarf víst enginn að efast um að hann verður einróma samþykktur af Alþingi Íslendinga.