23.05.1985
Sameinað þing: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5601 í B-deild Alþingistíðinda. (4853)

472. mál, hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir að sjaldan hafi verið jafnmikil eindrægni í máli eins og á bak við þá þáltill., sem utanrmn. stendur hér að, um staðfestingu á hafréttarsáttmálanum. Þar liggur að baki mikið starf og stórar ákvarðanir teknar á fyrri tíð. Við minnumst þess tíma þegar Íslendingar stóðu einir í eldlínunni að tryggja sér aukin réttindi yfir auðlindum í kringum landið með útfærslu landhelginnar. Ekki síst minnumst við þess þegar skrefið var tekið út í 12 mílur 1958 og síðan út í 50 mílur 1972. Það voru stórar ákvarðanir og mikil áhætta sem þar var tekin. Síðan hefur fyl$t mikið starf á ráðstefnum á alþjóðavettvangi þar sem Íslendingar hafa átt verulegan þátt í því að skila þessu máli í höfn út frá sínum hagsmunum og eðlilegum sjónarmiðum til alþjóðaréttar.