29.05.1985
Neðri deild: 77. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5737 í B-deild Alþingistíðinda. (5051)

428. mál, gjöld af tóbaksvörum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um gjöld af tóbaksvörum eins og það kemur eftir meðferð í hv. Ed. og með þeim breytingum sem þar hafa verið gerðar á því.

Eins og fram hefur komið í framsöguræðu minni með frv. um verslun ríkisins með áfengi og tóbak er talið eðlilegt fyrir ríkið og mun einfaldara miðað við núverandi aðstæður að afla þeirra tekna af tóbaksvörum, sem taldar eru æskilegar á hverjum tíma, með beinni skattlagningu á innflutning þeirra og framleiðslu í stað þess að afla þessara tekna sem einkasöluaðili sem í raun hefur aðeins falist í að annast innflutning, birgðahald og dreifingu fyrir umboðsmenn tóbaksframleiðenda. Þá er og bent á það að óviðeigandi sé, í ljósi þess hve skaðsemi tóbaksneyslu er talin ótvíræð, að ríkið skuli stunda verslun með tóbak.

Með vísan til þessa er í frv. þessu gert ráð fyrir að afla frá og með 1. jan. 1986 þeirra tekna, sem ríkissjóður hefur notið af einkasölugjaldi af tóbaki, með sérstökum gjöldum, tóbaksgjaldi og vörugjaldi, sem leggjast skulu á allt innflutt tóbak svo og innlenda tóbaksframleiðslu sé um hana að ræða. Einkasöluréttur ríkisins á tóbaki fellur hins vegar niður frá og með sama tíma.

Brúttóhagnaður Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á árinu 1984 nam 401 millj. kr. Tóbaksgjaldið, eins og það er ákvarðað í frv., er jafnhátt því einkasölugjaldi sem innheimt er af tóbaki eftir verðbreytingu þá sem átti sér stað í febr. s. l. Í ár er gert ráð fyrir að tekjur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins af einkasölugjaldi verði miðað við sömu neyslu um 570 millj. kr. á verðlagi marsmánaðar s. l. Í þessu sambandi má minna á að gert er ráð fyrir að hækka einkasölugjaldið á þessu ári í samræmi við framfærsluvísitölu. Athygli skal vakin á því að neyslumynstrið hefur breyst nokkuð mikið undanfarið í kjölfar hinnar nýju verðstefnu. Neyslan hefur t. d. flust meira yfir í evrópskar vindlingategundir, enda eru þær mun ódýrari en þær amerísku, einkum vegna mjög sterkrar stöðu dollarans. Neyslubreyting af þessu tagi hefur engin áhrif á tekjur af tóbaksgjaldi eins og það er hugsað skv. frv. þessu þar sem það ákvarðast af magni en ekki verði. Hins vegar kann neyslubreyting af þessu tagi að hafa nokkur áhrif á aðrar tekjur ríkisins af tóbakssölu, þ. e. tekjur af álagningu og söluskatti, þar sem salan hefur aukist í ódýrari vindlingategundum á kostnað þeirra dýrari. Mjög erfitt er þó að gera sér grein fyrir hver áhrif þetta kann að hafa á nettótekjur ríkissjóðs.

Eins og kunnugt er hefur sérregla gilt varðandi söluskattsinnheimtu af öllu tóbaki. Hún felst í því að ÁTVR annast innheimtu og skil hans en ekki smásalar. Ástæðan fyrir þessari sérreglu er sú að þar sem ríkið hefur eitt á sinni hendi alla heildsöludreifingu á tóbaki svo og að tóbak hefur til þessa verið háð verðlagsákvæðum er auðvelt að gera sér grein fyrir skattstofninum og innheimta skattinn með einföldum og tryggum hætti. Ljóst er að þessu fyrirkomulagi verður ekki við komið ef einkasöluréttur ríkisins á tóbaki verður afnuminn svo og verðlagshöft. Af þessu leiðir, komi ekki annað til, að söluskattur á tóbaki yrði í kjölfar afnáms einkasöluréttar ríkisins á tóbaki innheimtur í smásölu með venjulegum hætti.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að ýmsar efasemdir eru uppi um áreiðanleika söluskattsskila smásölunnar hérlendis. Í þessu sambandi er rétt að benda á að söluskattsuppgjör matvöruverslana er í sjálfu sér ótryggt vegna hinna mjög svo flóknu reglna sem um það gilda. Þetta stafar fyrst og fremst af því að öll matvara er undanþegin söluskatti. Af þessum sökum hefur þurft að setja flóknar reglur um uppgjör þeirra sem í raun eru ekki mjög öruggar. Í ljósi þessa er í frv. lagt til að eiginlegur söluskattur verði felldur niður af hvers konar tóbaki en í þess stað verði lagt á og innheimt vörugjald er leggjast skal á tollverð tóbaks að viðbættum innflutningsgjöldum. Með þessum hætti á að vera tryggt að a. m. k. svipaðar tekjur skili sér í ríkissjóð í formi vörugjalds af tóbaki og nú á sér stað í formi söluskatts.

Á árinu 1984 námu söluskattstekjur ríkissjóðs af tóbakssölu tæplega 255.2 millj. kr. Að því gefnu að þessi álagningarhlutföll breytist ekki í kjölfar afnáms einkasöluréttar ríkisins og verðlagshafta er ljóst að vörugjald á tóbaki verður að vera 31% eigi það að skila sömu tekjum og söluskattur gerir nú. Nauðsynlegt þykir engu að síður, einkum í ljósi þeirra breytinga á neysluvenjum sem átt hafa sér stað að undanförnu, svo og að verð á tóbaki verði framvegis ekki háð verðlagsákvæðum, að veita ráðh. nokkurt svigrúm varðandi ákvörðun gjaldsins. Því er lagt til að gjaldið megi lægst vera 30% og hæst 60%. Með þessum hætti verður því hér eftir sem hingað til mögulegt fyrir hið opinbera að hafa bein áhrif á tóbaksverð án þess að til komi sérstök lagasetning þess efnis.

Ég tel ekki þörf á að ræða frv. þetta frekar að svo stöddu og legg til, virðulegi forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn. deildarinnar.