31.05.1985
Efri deild: 86. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5776 í B-deild Alþingistíðinda. (5096)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa lagt þetta frv. hér fram og þar með hreyft þeirri hugmynd sem þar er fram sett og kannske hefði átt að vera komin til framkvæmda fyrir löngu. Það er ævinlega matsatriði og getur verið deiluefni hvar og hvernig eigi að setja mörk í málum sem þessu, en það gefst tækifæri til að skoða þetta í nefnd, þar sem ég á m. a. sæti, og ég veit að þetta mál mun fá ítarlega athugun og umræðu þar. En hugmyndin er góðra gjalda verð. Ég tel rétt að þetta mál fái, svo sem ég sagði, gaumgæfilega athugun í nefnd. Þetta er vissulega ein af þeim leiðum sem mjög koma til greina til að auðvelda fólki að eignast húsnæði.

Á sínum tíma — og það fyrir nokkuð margt löngu — voru sett hér lög um skyldusparnað ungmenna. Nú hirði ég ekki um að tíunda það hér, sem allir vita, hvernig þau lög hafa reynst í framkvæmdinni. En á því er auðvitað afar einföld skýring. Þessi svokallaði skyldusparnaður, sem nú er í gildi og átti m. a. að auðvelda ungu fólki að eignast húsnæði, er nú orðinn neikvæður í rauninni. Þegar þessi lög voru sett á sínum tíma var ekki nema tiltölulega lítill hluti af ungu fólki á þeim aldri, sem lögin um skyldusparnað taka til, í skólum. Nú er þjóðfélagið orðið með allt öðrum hætti. Næstum því öll ungmenni á þessum aldri eru við einhvers konar nám. Það er breyting til bóta. Þess vegna er þessi skyldusparnaður í rauninni enginn skyldusparnaður. Þetta er bara millifærsla á fjármunum, sem síðan eru endurgreiddir, og hefur ekkert nema umstang, erfiði og kostnað í för með sér. Hins vegar eru þessi lög enn við lýði og þarf auðvitað að endurskoða þau í ljósi breyttra aðstæðna.

Þannig háttar til nú, að ungmenni, sem stunda skólanám ákveðinn fjölda mánaða á ári, geta fengið og fá, ef þau þess óska, skyldusparnaðinn endurgreiddan. Þegar endurgreiðsla á sér stað er þetta auðvitað ekki lengur frádráttarbært frá skatti.

Hins vegar er það svo að ungmenni, sem stundar skólanám, á rétt á endurgreiðslu, en notfærir sér það ekki, heldur lætur skyldusparnaðinn standa óhreyfðan í húsnæðislánakerfinu, fær skyldusparnað sinn ekki dreginn frá skatti. Hér er gloppa í gildandi lagareglum sem verður að lagfæra.

Þau ungmenni sem stunda nám í skólum njóta þessa í engu. Þeim er raunar refsað fyrir að láta þennan skyldusparnað sinn liggja inni. Þetta er auðvitað hreint öfugmæli. Þessu vildi ég beina til hæstv. fjmrh. Ég hef einu sinni áður beðið embættismann í ríkiskerfinu að athuga þetta mál sérstaklega en ekki varð neitt úr því, og kannske mér að kenna að hafa ekki haft nægan eftirrekstur í því efni, og ég er svo sem ekkert að sakast við einn eða neinn annan en sjálfan mig um það að hafa ekki rekið á eftir því máli sem skyldi, en þetta er mál sem þarf að leiðrétta, þetta eru kannske ekki mörg tilvik, en áreiðanlega þó nokkur tilvik. Þeim sem sýna aðhaldssemi er þá beinlínis refsað fyrir það. Ég veit að hæstv. fjmrh. mun taka þetta til athugunar. Ég treysti honum fullkomlega til þess.

En ég vil að endingu lýsa stuðningi að nýju við þá hugmynd sem felst í því frv. sem hér er nú á dagskrá, og þakka hæstv. fjmrh. fyrir að hafa fleytt þessu máli inn á Alþingi.