04.06.1985
Sameinað þing: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5855 í B-deild Alþingistíðinda. (5210)

490. mál, fóstureyðingar

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eitt sinn var ég spurð að því hvaða eiginleiki væri nauðsynlegastur þm. Ég hafði reyndar aldrei hugleitt eða velt því fyrir mér, en svaraði þá umsvifa- og umhugsunarlaust: að geta sett sig í spor annarra. Ekki veit ég hvort þetta er allra mat, en ég er enn á þessari skoðun. Við erum hér að ræða ákaflega viðkvæmt mál og málflutningur hv. 3. þm. Suðurl. hér áðan orkaði e. t. v. tvímælis, en um leið vil ég fagna skilningi hæstv. heilbrrh. og annarra þm. sem hafa rætt þessi mál hérna í dag.

Ég held að í raun séum við flest sammála í þessum efnum. Við erum andvíg fóstureyðingum nema nauður reki til og við erum flest á þeirri skoðun að svo eigi að búa um hnútana að sem allra, allra fæstar konur finni sig knúnar til að grípa til fóstureyðingar. Hins vegar virðast menn skiptast nokkuð í tvo hópa í afstöðu til þessa máls. Annars vegar eru þeir sem vilja þrengja núverandi heimildarákvæði til fóstureyðinga og hins vegar þeir sem telja slík ákvæði nauðsynleg, en vilja leggja allt kapp á fyrirbyggjandi aðgerðir, fræðslu, varnir og félagslega aðstoð, tryggja svo sem verða má að enginn þurfi að grípa til fóstureyðingar vegna skorts á fétagslegri aðstoð. Og ég vil leggja sérstaka áherslu á fræðsluþáttinn sem er í raun og veru grundvöllur fóstureyðingarlöggjafarinnar. Fyrsta þingmálið sem ég átti frumkvæði að hér á hv. Alþingi var einmitt fsp. til hæstv. ráðh. heilbrigðismála og menntamála um það hvað liði framkvæmd 1. kafla laga nr. 25 frá 1975, um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, og vísaði þar m. a. til tillagna um fræðsluherferð í skólum og meðal almennings sem samstarfshópur 57 kvenna úr öllum stjórnmálaflokkum og mörgum starfsstéttum hafði unnið. Sú umræða var góð og málefnaleg og upplýsandi og vil ég benda á 5. hefti Alþingistíðinda 1983 ef menn vilja kynna sér þær. En þar sem hæstv. heilbrrh. virtist í máli sínu hér áðan nokkuð ánægður með framkvæmd þessara mála vil ég inna hann hér eftir því hvað hafi gerst í þeim málum síðan hann svaraði fsp. minni hér á Alþingi í fyrra því að í þeim umr. kom fram að vissulega væri mikið ógert.

Ég er sem sagt andvíg því að þrengdar verði heimildir til fóstureyðinga. Þetta er neyðarréttur sem við verðum að treysta konum fyrir rétt eins og við treystum þeim til þess að ganga með börnin og ala þau og við skulum fyrir alla muni reyna að búa svo um hnútana að konur þurfi sem sjaldnast að grípa til þessa neyðarréttar.