04.06.1985
Neðri deild: 82. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 5904 í B-deild Alþingistíðinda. (5256)

250. mál, réttur verkafólks til uppsagnarfrests

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég ætla að taka undir þau orð sem hér hafa komið fram. Þessu máli hafa verið gerð mjög góð skil og þar er ekki efnislega miklu við að bæta. Menn hafa gert hér að umtalsefni orð úr plöggum þar sem talað var um gæði framleiðslu. Ég held að menn verði líka að hugsa þarna um gæði mannlífs. Þetta á ekki að vera spurning um það hversu auðvelt sé að komast á atvinnuleysisbætur ef aflabrestur verður. Menn verða að spyrja sig spurninga um sjálfsvirðingu þess fólks sem í þessari atvinnugrein vinnur og hvort því sé upp á þessi kjör bjóðandi. Aðrar stéttir telja að svo sé alls ekki.

Það er nefnilega svo að það eru mannréttindi að fá að hafa sjálfsvirðingu sína og sífelld atlaga gegn henni, eins og gerð er að mínu mati með þessum uppsagnarreglum sem í gildi eru, er okkur ekki bjóðandi. Það er fyrir neðan samvisku og réttlætiskennd þessa samfélags að bjóða fólki upp á svona.

Það er löngu tímabært að líta vel til þessara gleymdu barna hennar Evu, þ. e. fólksins sem vinnur í þessari undirstöðugrein, vegna þess að allur aðbúnaður, allt það kerfi, eins og ákvæðislaunakerfið, sem þetta fólk vinnur við, er algerlega óviðunandi. Því er boðið upp á að vinna við aðstæður sem eru í mörgum tilfellum beinlínis einhverjar þær hættulegustu sem um getur á venjulegum vinnumarkaði. Það eru hættuleg tæki og í mörgu atvinnuhúsnæði eru brunagildrur. Þetta er mál sem fyrir löngu hefði átt að taka upp sem forgangsmál í íslenskri pólitík en ekki sem innskotsmál á fundum seint á kvöldum.

Það er þingsins að taka ákvörðun í þessu máli og út frá þessari ákvörðun verða síðan fyrirtæki í greininni að vinna. Ef það þýðir að breyta skipulagi við veiðar og vinnslu þá verða fyrirtækin að vinna út frá því. Þau verða að semja sig að svo eðlilegum hagsmunum, svo eðlilegum réttindum fólksins sem hér um ræðir. Ég lýsi fylgi við þetta mál.