06.11.1984
Sameinað þing: 15. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 795 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

81. mál, búseturéttaríbúðir

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Að því er varðar þær tölur sem hæstv. ráðh. fór með um það sem veitt hefði verið og ætlunin væri að veita til húsnæðismála vil ég aðeins vekja athygli á því að það er að mínu mati ekki boðleg leið að ætla að fjármagna húsnæðislán á Íslandi með erlendum lánum, né heldur að sökkva húsnæðislánunum í fen mörg hundruð milljón króna lána, sem tekin eru á miklu hærri vöxtum og til miklu skemmri tíma en aftur er lánað út með þeim afleiðingum, eins og reyndar kemur fram í umræddri grein formanns Búseta, að við því má búast, ef ekki á næsta ári, þá á því þarnæsta, að helsti tekjustofninn, sem eru skuldabréfakaup lífeyrissjóða, verði neikvæður. M.ö.o. að það sem húsnæðislánasjóðirnir þurfa að endurgreiða lífeyrissjóðunum þegar á næsta ári eða þarnæsta ári verði, eins og þegar er orðið með skyldusparnaðinn, hærri upphæðir en nokkur möguleiki er að þeir fái til baka.