07.06.1985
Efri deild: 92. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6056 í B-deild Alþingistíðinda. (5507)

247. mál, flutningsjöfnunarsjóður olíu og bensíns

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég gat ekki verið við í dag þegar 2. umr. um þetta mál fór fram. Ég hefði gjarnan viljað fá tækifæri til að þakka Ed., hv. fjhn. og fulltrúum í henni fyrir hvernig að þessu máli hefur verið staðið og unnið. Við minnumst þess að hér urðu allfjörugar umr. þegar 1. umr. þessa máls fór fram og það er því mjög ánægjulegt þegar hægt er að vinna að málum með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Ég vildi ekki láta hjá líða að koma þessu þakklæti mínu á framfæri til deildarinnar, fjhn. og forsetans. Menn koma gjarnan upp og gagnrýna þegar þess er þörf og þá finnst mér ástæða til að þakka fyrir þegar svo vel hefur verið unnið eins og hér ber raun vitni.