10.06.1985
Neðri deild: 91. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6125 í B-deild Alþingistíðinda. (5585)

522. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er ekki hægt að láta það tækifæri fram hjá sér fara, þegar hæstv. ríkisstj. leggur eitthvað það fram til húsnæðismála sem hægt er að vera ánægður með og taka undir, að nota það og koma hér í ræðustól og gera það. Það vil ég gera.

Hér er verið að taka upp í megindráttum svipað kerfi og viðgengst í ýmsum nálægum löndum og hefur þar reynst vel og verið liður í því að koma á skikkanlegu standi í húsnæðismálum þeirra landa. Það er ekkert nema gott og blessað um það að segja að ríkisstj. leiti sér að gáfulegum fordæmum út um heim, hún hefur þau hvort sem er ekki úr eigin ráðasafni. Þó er einn hængur á þessu máli sem má vera öllum ljós sem eitthvað um það hugsa. Hann er sá að þeir sem mesta hafa þörfina hafa minnsta möguleika til að nýta sér kosti þessa frv. Skáldið og grínistinn Piet Hein var fyrir lifandi löngu búinn að uppgötva þessi sannindi þegar hann orti á dönsku, með leyfi forseta: „Det er det gale ved pengene, at pengene tilhörer aldrig dem som virkelig trænger dem.“ Hér er sama vandamálið á ferðinni, það er það sem er að með peningana að þeir eru aldrei í eigu þeirra sem þurfa á þeim að halda.