10.06.1985
Efri deild: 94. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6190 í B-deild Alþingistíðinda. (5640)

236. mál, stálvölsunarverksmiðja

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir nál. minni hl. fjh.- og viðskn. En þar sem hæstv. fjmrh. er ekki hér ætla ég að beina spurningu minni til formanns n. og vonast til þess að hann geti gefið mér upplýsingar ef hann hefur þær á takteinum. Mig langar að vita hvað háar fjárupphæðir hafa fallið á ríkissjóð vegna ríkisábyrgða á þessu ári eða ef hann hefði upplýsingar um s. l. ár. Það er nefnilega ætíð verið að taka hér ákvarðanir um væntanlegar verksmiðjur og þær eiga að bera sig, en svo kemur annað í ljós.

Mér þætti vænt um ef þetta gæti komið fram við þessa umr. þannig að hv. þm. gerðu sér grein fyrir því hvaða ákvörðun þeir eru að standa að. Við höfum enga tryggingu fyrir því, þrátt fyrir breytingu á frv.. að ekki falli þessar ábyrgðir á ríkissjóð standi verksmiðjan ekki undir sér.