11.06.1985
Efri deild: 95. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6276 í B-deild Alþingistíðinda. (5705)

5. mál, útvarpslög

Frsm. 3. minni hl. (Haraldur Ólafsson):

Herra forseti. Þetta mál er búið að vera hér í þinginu frá fyrstu dögum þess í október s. l. og sýnir það kannske betur en flest annað að ekki hefur skapast breið eining um hvernig skipa skuli útvarpsmálum hér á landi.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að er útvarpslaganefnd hófst á sínum tíma handa um endurskoðun útvarpslaganna var allt annað haft í huga en í ljós kom síðar. Það voru önnur sjónarmið sem þar ríktu. Ég tel að meginmistökin, sem gerð voru af þeirri nefnd, hafi verið að ætla sér að búa til ný útvarpslög fyrir allt landið og um langa framtíð án þess að gera ráð fyrir verulegum aðlögunar- og reynslutíma. Einnig gagnrýndi ég, þegar álit útvarpslaganefndar barst mér í hendur á sínum tíma, að Ríkisútvarpið er sett þar í sérstakan kafla á eftir almennum ákvæðum um leyfi til annarra aðila til útvarpsreksturs. Þetta hefur mér alla tíð þótt vera harla undarleg skipan. Mín skoðun er sú að Ríkisútvarpið sé raunverulegt ríkisútvarp og það sé það sem okkur beri að efla og styrkja. Hins vegar sé hægt til ákveðins tíma og þá í reynsluskyni að veita öðrum aðilum leyfi til útvarpsreksturs staðbundið og tímabundið.

Þegar málið var lagt fyrir hið háa Alþingi í þingbyrjun á síðasta hausti voru aðstæður allar mjög óeðlilegar. Það var verkfall. Það höfðu sprottið upp nýjar útvarpsstöðvar með vafasömum rétti, svo ekki sé meira sagt, og allhávær umræða og hávær áróður voru í landinu sem gerðu nær ógerlegt að fjalla um þessi mál af þeirri rósemi og þeirri yfirvegun sem nauðsynleg er þegar fengist er við að setja lög um svo mikilvæg og viðkvæm efni sem útvarpsrekstur.

Málið kom þó loks frá hv. Nd. og hafði þá ekki tekist að ná samkomulagi um verulega þýðingarmikil atriði. Það hefur verið rætt síðan í menntmn. hv. Ed. og eins og fram kemur á þskj. eru mjög skiptar skoðanir enn um þetta mál. Það varð niðurstaðan í hv. Nd.þm. míns flokks, Framsfl., greiddu annaðhvort atkv. gegn frv. við lokaafgreiðslu þar eða sátu hjá. Nú hef ég freistað þess að flytja nál. á þskj. 1223, og telst það vera frá 3. minni hl. menntmn., ásamt hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni og Árna Johnsen. Í þessu nál. tek ég fram þau atriði sem ég tel vera skilyrði fyrir stuðningi við þetta frv. og ég vænti þess að heyra frá viðkomandi ráðh. undirtektir undir þau atriði. Ég vil einnig taka fram að ég flyt brtt. við 4. gr. frv. um auglýsingaþáttinn, þann þátt sem einkum og sér í lagi hefur valdið ágreiningi milli stjórnarflokkanna.

Það er álit okkar í 3. minni hl. að rétt sé að boðveifur, er flytji útvarpsefni, séu í eigu Pósts og síma og/eða sveitarfélaga. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt atriði til að efla raunverulegt lýðræði, til þess a. m. k. að koma einhverju nafni á það jafnræði sem með aðilum er er hyggjast stunda útvarpsrekstur. Einkaeign á slíkum stöðvum hlýtur að draga mjög úr því lýðræðisfyrirkomulagi.

Það kom í ljós í viðtölum við fulltrúa Reykjavíkurborgar að það er hægt að koma upp á tiltölulega ódýran hátt boðveitum, common carriers, fyrir margs konar efni sem ég tel sjálfsagt að verði notaðar til að dreifa sjónvarpsefni og öðru um bæinn. Það er álitamál hvort ákvæði er að þessu lúta eigi að koma í útvarpslög eða fjarskiptalög, en ég vænti þess að fá um það yfirlýsingar frá hæstv. ráðh. hvort ætlunin er að stuðla að slíku, t. d. við endurskoðun fjarskiptalaga.

Í öðru lagi teljum við í 3. minni hl. — og reyndar hefur það komið fram hjá öllum nm. menntmn. — að nauðsynlegt sé að setja reglur í lög um að útsent efni sé á íslensku eða með íslenskum texta og fylgt í höfuðdráttum þeim reglum sem Ríkisútvarpið fylgir um það efni.

Þá er það einnig áhugamál okkar að útvarpsréttarnefnd fái víðtækt umboð til þess að fylgjast með og verði reyndar gert skylt að skila grg. um starfsemina og að þriggja ára reynslutíma loknum falli lög þessi úr gildi og ný lög taki við sem byggð eru á reynslunni.

Varðandi auglýsingamálið er það að segja að skv. hinum nýju lögum eru Ríkisútvarpinu lagðar ýmsar nýjar skyldur á herðar, m. a. þær að koma upp fræðsluútvarpi og að Rás 2 nái um allt land. Að því er reyndar unnið nú, en það kostar fé. Það er einnig rætt um að sjónvarp skuli ná til næstu miða. Það getur hugsanlega verið atriði sem kallar á auknar fjárveitingar. Þá er einnig gert ráð fyrir, og það er ekki lítils um vert, að aðstöðu til dagskrárgerðar og hljóðvarps á vegum Ríkisútvarpsins verði komið upp í öllum kjördæmum landsins.

Þegar hér er svo að staðið hlýtur það að vera meginkrafa að möguleikar Ríkisútvarpsins til tekna séu ekki skertir. Með því að gefa auglýsingar frjálsar í öllum stöðvum, hvort sem unnt er að innheimta afnotagjöld eða ekki, liggur það í augum uppi að verið er að draga úr tekjuöflunarmöguleikum Ríkisútvarpsins. Þar af leiðandi hef ég leyft mér að flytja till. um að í þeim stöðvum og við þau skilyrði að unnt er að innheimta afnotagjöld af útsendu útvarps- eða sjónvarpsefni skuli auglýsingar ekki leyfðar.

Það eru að sjálfsögðu fjölmörg atriði sem mætti ræða í sambandi við þetta frv. og ég efast um að nokkur sé ánægður með það. Það er eitt atriði sem ég vildi þó aðeins nefna, það er menningarsjóðurinn. Hann var hugsaður sem styrkur til innlendrar dagskrárgerðar, þeirrar dagskrárgerðar sem hefði einhvern menningarlegan metnað og kæmu þá 10% af auglýsingatekjum útvarpsstöðva, þar með Ríkisútvarpsins, í þennan menningarsjóð. Af honum yrði fyrst greiddur hlutur Ríkisútvarpsins í rekstri eða kannske eigum við að orða það „halla Sinfóníuhljómsveitarinnar“, en sérstök nefnd úthlutaði síðan úr þessum sjóði til innlendrar dagskrárgerðar. Verði farin sú leið að takmarka auglýsingar í þeim útvarpsstöðvum sem sérstakt leyfi fá til útvarpsreksturs er ég reiðubúinn að fallast á lækkun framlaga í þennan menningarsjóð.

Að lokum þetta: Tilgangur útvarpslaga er að mínu mati fyrst og fremst sá að efla Ríkisútvarpið, hið raunverulega þjóðarútvarp á Íslandi. Hins vegar á að gefa öðrum aðilum kost á að reka útvarpsstöðvar, en það má ekki vera á kostnað þess miðils sem hátt á sjötta áratug hefur verið ein merkilegasta, fjölbreytilegasta og kannske þegar allt kemur til alls áhrifaríkasta menningarstofnun landsins.

Ég vil ljúka máli mínu með því að taka skýrt fram að í nál. 3. minni hl. hef ég fyrirvara um auglýsingarnar og tel mig óbundinn að fylgja þeim brtt. sem ég tel að verði til að efla Ríkisútvarpið.