07.11.1984
Efri deild: 10. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 821 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

133. mál, sala Landssmiðjunnar

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég tek þá áhættu að koma hér upp þó að ég hafi það hálfvegis á tilfinningunni að það sé farið að líta á mig sem sérstakan sölufulltrúa ríkisins í því verkefni að losa ríkið við sem flest fyrirtæki.

Mér finnst að tveir hv. ræðumenn hér á undan mér hafi í raun spurt skynsamlega en kannske samt sem áður ekki réttu spurninganna. Það má líka spyrja að því: Eru fyrir því einhver haldbær rök hvers vegna ríkið ætti ekki að selja Landssmiðjuna? Ég held að menn þurfi ekki að hafa kynnt sér þetta mál neitt ítarlega til þess að átta sig á því að það eru raunverulega afskaplega fá, í mínum huga engin, rök sem finnast fyrir því hvers vegna ríkið ætti að vera að halda í þetta fyrirtæki.

Þetta fyrirtæki þjáist með öðrum fyrirtækjum undan þeim vandræðum sem þjónustustofnanir af þessu tagi hafa átt við að etja undanfarin ár og þar á ég við þær stöðvar sem sinnt hafa skipasmíðum og viðgerðum. Þetta fyrirtæki ætlaði reyndar út í stóraukna þátttöku í skipasmíðum og viðgerðum sem nú hefur verið hætt við — mér liggur við að segja guði sé lof. Menn skulu minnast þess að þau fyrirtæki hérna í landinu, sem stunda sambærilega starfsemi og Landssmiðjan, eru mörg hver nánast á framfæri ríkisins, þ.e. algerlega háð forsjá eða fyrirgreiðslu á opinberum vettvangi hvað rekstrargrundvöll sinn snertir og að ríkið standi síðan í samkeppni við þessi fyrirtæki með eigin rekstri og auki þannig raunverulega á þann vanda sem það síðan þarf að leysa. Þetta finnst mér að hljóti að hljóma svo óskynsamlega í eyrum allra að þeir sjái hversu eðlilegt mál það er að losa sig við rekstur sem þennan og láta reynsluna um það að skera úr um hvort þessi rekstur á sér einhvern grundvöll eða ekki. Upp á seinni tíma er kannske ágætt að viðhafa ákveðin viðvörunarorð um það að þegar ríkið selur fyrirtæki með þeim hætti sem núna er gert, þá fylgi því nánast í yfirlýsingum heitstrengingar um það að ríkið muni ekki hlaupa undir bagga með þessu fyrirtæki þó að forn ættarbönd tengi ríkið fyrirtækinu þegar á móti blæs síðar meir.

Ég held að þegar menn skoða hug sinn grannt átti þeir sig á því að hlutverk ríkisins í þessum efnum liggur ekki í því að halda úti rekstri einstakra fyrirtækja. Hann liggur fyrst og fremst í því að reyna að þvælast ekki of mikið fyrir rekstrargrundvelli í atvinnustarfsemi og þá hugsanlega að hjálpa til þar sem tök eða kraftar leyfa.